Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

24.10.2014 08:24

Vikulöng hátíð í tilefni af 400 ára afmæli Hallgríms - 24. - 31. okt. 2014

 

Hallgrímshátíð í Hallgrímskirkju

 

Vikulöng hátíð í tilefni af 400 ára afmæli Hallgríms

 24. - 31. okt. 2014

 

Hápunktur hátíðahaldanna í kringum 400 ára afmæli Hallgríms Péturssonar verður afmælishátíð semListvinafélag HallgrímskirkjuHallgrímssöfnuður og sérstök afmælisnefnd um 400 ára afmæli Hallgríms Péturssonar standa að. Hátíðin, sem hefst föstudaginn 24.október og stendur í viku. Hún einkennist af mikilli nýsköpun auk þess að spanna allan skalann frá grallarasöng til hefðbundnari þátta eins og málþinga, tónleika, hátíðarmessa o.fl.

Tvö tónverk og ljóð eftir átta skáld frumflutt

Frumflutt verða tvö ný tónverk sem samin eru af þessu tilefni -annað heitir „Celebrations“ – ( Fögnuður) og er eftir ameríska prófessorinn Wayne Siegel sem samdi verkið fyrir Klaisorgelið og tölvu tengda veðurtungli og hitt er eftir Olivier Kentish og Sigurbjörgu Þrastardóttur, sem þau hafa samið að beiðni Tónmenntasjóðs kirkjunnar og verður frumflutt af Hljómeyki og Birni Steinari Sólbergssyni orgelleikara undir stjórn Mörtu G. Halldórsdóttur.

Einnig verða frumflutt ljóð eftir 8 íslensk skáld, sem þau hafa samið fyrir þessa hátíð.

Íslensk tónskáld eru í öndvegi á tónleikum Mótettukórs Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar og á tónleikum Ernu Kirstínar Blöndal og félaga og einnig flytur Michael Jón Clarke nýlegt verk sitt við Passíusálmana ásamt Eyþóri Inga Jónssyni orgelleikara.

Myndlistarsýning til heiðurs Hallgrími

Þá er einnig boðið upp á nýsköpun í myndlist, því Sigtryggur Bjarni Baldvinsson hefur unnið nýja sýningu til heiðurs Hallgrími og verður hún opnuð í forkirkjunni við opnun hátíðarinnar, nk. föstudag kl. 18.15, en hátíðin verður hringd inn með því að Hörður Áskelsson listrænn stjórnandi hátíðarinnar leikur á kirkjuklukkurnar frá kl. 18.

Hallgrímur, alþýðan, elítan og Siðbótarmaðurinn Hallgrímur

Tvö málþing verða haldin- annað um Hallgrím og alþýðuna og elítuna- hitt um Siðbótarmanninn Hallgrím í samvinnu við nefnd um Siðbótarárið 2017, sem nú er í undirbúningi. Kaffihús verður í suðursal kirkjunnar alla helgina þ.s. hægt verður að gleðjast yfir kaffisopa úr antikbolla og njóta góðra veitinga til styrktar starfi Listvinafélagsins.

Hátíðarmessa í beinni útsendingu með Biskupi Íslands verður 26. október og þar verður mikill tónlistarflutningur með hátíðarbrag, þ.s. Drengjakór Reykjavíkur- Hallgrímskirkju og Mótettukór Hallgrímskirkju ásamt þremur trompetum og pákum koma fram undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Í seinni hátíðarmessunni á dánardegi Hallgríms prédikar Karl Sigurbjörnsson biskup og Schola cantorum syngur, en messutónið byggir á fornum grallarasöng allt frá tímum Hallgríms.

Alls verða haldnir þrettán viðburðir og þátttakendur eru hátt í 200 manns.

Ókeypis aðgangur er að öllum viðburðum nema þrennum tónleikum, þar er miðaverði stillt mjög í hóf.

Nánar

Bæklingur með dagskrá hátíðarinnar (pdf)

Af www.kirkjan.is

Hallgrímskirkja í Reykjavík er meisaraverk Eyrbekkingsins Guðjóns Samúelssonar.

Skráð af Menningar-Staður