Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.10.2014 07:40

Nítján ár liðin frá snjóflóðinu á Flateyri

 

Frá björgunaraðgerðum á Flateyri þann 26. október 1995.

.

Minningarsteinn við Flateyrarkirkju með nöfnum þeirra 20 sem fórust í snjóflóðinu 26. okt. 1995.

 

Vegna slyssins á Flateyri 

Við andvörpum hljóðlát en hugleiðum þó
hve höggið var mikið er byggðina sló.
Hún magnar sín áhrif svo orðlaus og skýr
sú allsherjar sorg er á Flateyri býr.


Og létt er að tárast á líðandi stund
og leita sem vinir á syrgjenda fund;
í harmanna tíbrá þau titra svo glöggt
þau tuttugu hjörtu sem brustu svo snöggt.


Við barnshjartað syrgjum er sviplega brast
og sjómannsins handtakið, öruggt og fast
og alla þá kosti sem fóru svo fljótt
í framhlaupi dauðans á skelfingarnótt.


Svo biðjum við Guð að hann gefi þann frið
sem græðir og líknar og una má við
Og alþjóðar samúð sé sýnileg gjörð
í sorginni miklu við Önundarfjörð.

 

Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld á Kirkjubóli, Bjarnardal í Önundarfirði

Nítján ár liðin frá snjóflóðinu á Flateyri

Nítján ár eru liðin frá snjóflóðinu á Flateyri þar sem tuttugu manns fórust aðfaranótt 26. október 1995. 

Meðal þeirra sem fórust var heil fjölskylda en tíu komust lífs af. Í janúar sama ár féll snjóflóð á miðja byggðina í Súðavík og tók með sér 15 íbúðarhús. Fórust 14 manns í því flóði.

Efnt var til söfnunar fyrir þá sem áttu um sárt að binda vegna flóðanna og var í kjölfarið reistur mikill snjóflóðavarnargarður fyrir ofan Flateyri.

Í frétt BB.is um flóðið segir að mikil fólksfækkun hafi orðið á Flateyri undanfarin ár en þó verði ekki séð að það sé tengt afleiðingum flóðsins. Rannsóknir sem hafi verið gerðar meðal þeirra sem lifðu flóðið af bendi til þess að nokkuð sé um áfallastreituröskun í hópnum en hún virðist meiri hjá þeim sem fluttu á brott eftir flóðið.

.

Flateyri við Önundarfjörð og varnargarðarnir ofan byggðarinnar.

 

Flateyri rúmum áratug fyrir snjóflóðóðið 26. október 1995.

Skráð af Menningar-Staður