Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

05.12.2014 16:47

Kosta jákvæða þætti um eigið sveitarfélag

 

Selfoss við Ölfusá er í Sveitarfélaginu Árborg.  Ljósm.: Mats Wibe Lund.

18. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2014-2018, haldinn fimmtudaginn 4. desember 2014 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10. 

 4. 1412006 – Samstarf Árborgar og N4 sjónvarps um þátttöku í þáttaröðinni Að sunnan
Bæjarráð samþykkir að taka þátt í verkefninu, en kostnaður við það er 500.000 kr. Alls verða gerðir 24 hálftímalangir þættir fyrir sveitarfélögin á Suðurlandi sem verða þátttakendur í verkefninu.

 

Kosta jákvæða þætti um eigið sveitarfélag

 

Sjónvarpsstöðin N4 býður sunnlenskum sveitarfélögum að fá umfjöllun í þáttaröð þar sem mannlíf og atvinnulíf staðanna verður sýnt í jákvæðu ljósi svo framarlega sem sveitarfélögin borgi hálfa milljón króna og verði verktökum N4 innanhandar.

Sveitarfélögum á Suðurlandi stendur nú til boða að kaupa sig inn í þáttaröð þar sem sjónvarpsstöðin N4 ætlar að fjalla um sveitarfélögin á jákvæðan hátt.

"N4 leggur áherslu á dagskrárgerð fremur en beinskeyttar fréttir. Við teljum að með því að fjalla heiðarlega um samfélagið, þá bætum við ímynd og sjálfsmynd svæðanna sem fjallað er um," segir í bréfi sem María Björk Ingvadóttir sendi fyrir hönd N4 til bæjaryfirvalda í Ölfusi.

Þáttaröðin hefur fengið heitið "Að sunnan". N4 stefnir að því að öll fimmtán sveitarfélögin á Suðurlandi verði með og að gerðir verði 24 hálftíma þættir. N4 er nú þegar með svipaða þætti frá Norðurlandi og Austurlandi. Það er þættirnir "Að norðan" og "Glettur".

Markmið þáttanna segir María Björk í bréfinu meðal annars vera að "stuðla að aukinni og jákvæðri umfjöllun um atvinnulíf og mannlíf á svæðinu" og "styðja við aukin umsvif hjá þeim sem bjóða vöru og þjónustu á svæðinu ".  Sömuleiðis að "stuðla að jákvæðri ímyndarsköpun og sjálfsmynd íbúa gagnvart Suðurlandi".

Fram kemur hjá Maríu Björk að Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi ætli að tryggja aðstöðu fyrir þáttargerðarfólk í Frumkvöðlasetri samtakanna. Fjögur sveitarfélög í uppsveitum Árnessýslu hafi þegar ákveðið að vera með og ætli að leggja að lágmarki hálfa milljón króna hvert í þættina "og tryggja þannig umfjöllun um uppsveitirnar í þáttunum".

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti samhljóða á síðasta fundi sínum að semja við N4. Auk þess að greiða sjónvarpsstöðinni hálfa milljón króna skuldbindur sveitarfélagið sig til þess að "vera verktökum á vegum N4 sem annast þáttagerðina innanhandar með upplýsingaöflun og tillögur að efni og tilnefnir tvo til þrjá bakhjarla til þess", eins og segir í bréf N4. "Þá er ekkert því til fyrirstöðu að einstaka sveitarfélög geti gert viðbótarsamning um enn frekari umfjöllun."


Fréttablaðið föstudagurinn 5. desember 2014

Skráð af Menningar-Staður