Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

05.12.2014 07:45

Stormurinn í þáttagerð

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Sigurður er skemmtilegur maður og nær að skila þeim skemmtilegheitum heim í stofu fólks.

Hann hefur dregið fjölskylduna með sér í þáttagerð á ÍNN.

Frúin er framleiðandi og sonurinn klippir þættina.

 

Stormurinn í þáttagerð

• Sigurður Þ. Ragnarsson í miðju stormsins á ÍNN

 

Sigurður Þ. Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi Stormur, og kona hans Hólmfríður Þórisdóttir, eru fólkið á bak við þættina Stormað um sem vakið hefur athygli á ÍNN. Þátturinn er á mánudagskvöldum en Sigurður er nýbúinn að ljúka sýningum á fjögurra þátta seríu um Hrútavinafélagið Örvar þar sem hann ferðaðist um landið með þeim Guðna Ágústssyni og Jóhannesi Kristjánssyni eftirhermu og fleirum. „Þeir þorðu ekki annað en að hafa veðurfræðing með sér því þeir voru svo hræddir við veðrið á Holtavörðuheiðinni,“ segir Sigurður sem festi á filmu meðal annars hinstu för forustuhrútsins Gorbatsjovs og hrútadaga á Raufarhöfn. „Fyrir mig var þetta ferðalag háskóli og ég skil landsbyggðina miklu betur. Ég víkkaði sjóndeildarhringinn og þetta segir manni að maður á ekki að þykjast hafa vit á einhverju sem maður hefur ekkert vit á. Ég er vitrari maður – það er betra,“ segir hann og hermir eftir Guðna Ágústssyni. Það er ekki leiðinlegt að tala við Sigurð.

„Ég hafði migið í saltan sjó en ekki í flórinn,“ segir hann og hlær.

 

Stormurinn á Spáni

Næstu skref þeirra hjóna verða þáttaröð um Íslendinga sem staddir eru á Spáni en Sigurður hefur lengi haft annan fótinn þar í landi. „Ég skildi hinn fótinn meira að segja eftir síðast. Ég er eins mikið á Spáni og ég get og þættirnir voru klipptir á spænskri ströndu.

Ég fer um Íslendingabyggðir á austurströndinni og þarna ætla ég að reyna að varpa fram myndum af fólki sem hefur verið að fjárfesta á Spáni. Þó að það hafi áður verið fjallað um Spánverja hefur ekki verið fjallað um Íslendinga á Spáni.“

Hólmfríður er framleiðandi þáttanna og segir Sigurður að hann hlýði í einu og öllu. „Við erum búin að vera með kvikmyndabúnað í svolítinn tíma og mitt hlutverk í þessum þáttum er að finna sniðugt mannlíf. Mér finnst voðalega gaman að gera það sem er gaman – og þetta er gaman. Þessi hrútaferð til dæmis fannst mér alveg æðisleg.

Ég var 18 ár á stóru stöðvunum, RÚV og Stöð2 og þar lærði maður smá undirstöðutökin enda vann ég með miklum meisturum. Þegar öllu var á botninn hvolft þá kunni ég merkilega mikið. ÍNN er búið að klófesta mig ef svo má segja og ég er með fjölda verkefna þar. Það er mikil gróska á ÍNN og mér finnst þessi hugmyndavinna og annað í kring skemmtilegt umhverfi – í miðjum storminum.“

Morgunblaðið föstudagurinn 5. desember 2014

 

 

Hjónin Hólmfríður Þórisdóttir og Sigurður Þ. Ragnarsson.

 

Sameinast í áhugamáli

Sigurður og Hólmfríður hafa verið gift í 24 ár og segir Sigurður að það sé ekkert minna en stórkostlegt að vinna með konunni sinni. „Ég er búinn að fá mjög jákvæð viðbrögð frá þjóðinni um þættina. Á meðan svo er fær maður góða næringu. Það er fátt skemmtilegra en að sitja með afurð sem maður er sáttur við.

Hólmfríður passar að allt sé í lagi og er gríðarlega góður verkstjóri. Lykillinn að góðu hjónabandi að mínu mati er að gera eitthvað þar sem maður finnur vináttuna í makanum. Reyna að sameinast í áhugamálunum. Ég hef orðið vitni að því á Spáni, þegar pör fara saman í frí að fólk kann ekkert að vera saman – kannski eftir vikudvöl.

Ef pör gera eitthvað saman þá halda þau sambandinu í lagi. Ekki spurning,“ segir Sigurður.

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður