Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

08.12.2014 23:00

Merkir Íslendingar - Rafn Jónsson

 

Rafn Jónsson.

 

Merkir Íslendingar - Rafn Jónsson

 

Rafn Jónsson tónlistarmaður fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 8. desember 1954. Foreldrar hans voru Ragna Sólberg, lengi starfsmaður Pósts og síma á Ísafirði, og Jón Snorri Jónsson, sjómaður og harmónikkuleikari.

Stjúpfaðir og vinur Rabba var Guðmundur H. Gíslason skipstjóri.

Eftirlifandi eiginkona Rabba er Friðgerður Guðmundsdóttir, sérkennari og vöruhönnuður, og eru synir þeirra Egill Örn tónlistarmaður, Ragnar Sólberg tónlistarmaður og Rafn Ingi nemi, en dóttir Rabba og Halldóru Gunnlaugsdóttur frá Hvilft í Önundarfirði, og stjúpdóttir Friðgerðar, er Helga Rakel kvikmyndagerðarkona.

Rabbi ólst upp á Suðureyri til fimm ára aldurs og síðan á Ísafirði, lauk gagnfræðaprófi á Ísafirði, stundaði kjötiðnaðarnám við Iðnskólann þar, lærði á ásláttarhljóðfæri hjá Pétri Östlund í Stokkhólmi 1980-81 og stundaði nám við KHÍ 1990-92.

Rabbi stundaði lengst af verslunarstörf með tónlistarstarfinu en frá 1985 varð tónlistin hans aðalstarf. Hann stofnaði hljómsveitina Perluna 1967, lék með hljómsveitunum Náð og Ýr, var síðan trommari í fjölmörgum vinsælum hljómsveitum, m.a. Haukum, og stofnandi hljómsveitanna Danshljómsveit Vestfjarða, Grafík, Bítlavinafélagið, Sálin hans Jóns míns og Galíleó.

Eftir Rabba liggur fjöldi platna með þeim hljómsveitum sem hann lék með, þrjár sólóplötur og upptökur með fjölda tónlistarmanna.

Í ársbyrjun 1988 greindist Rabbi með MND-hreyfitaugahrörnun sem yfirleitt dregur sjúklinga til dauða á fáum árum. Rabbi barðist við sjúkdóminn af miklu æðruleysi í átján ár og hætti aldrei sinni tónlistarsköpun.

Eftir greininguna sneri hann sér í auknum mæli að upptökustjórnun, átti og rak upptökustúdíóið Hljóðhamar 1991-94 og R&R; músík frá 1994. Hann stofnaði MND-félagið árið 1993, var formaður þess frá upphafi til dánardags og vann mikið að réttindamálum tónlistarmanna..

Rabbi lést 27. júní 2004.

Morgunblaðið mánudagurinn 8. janúar 2014 - Merkir ÍslendingarGrafík

Skráð af Menningar-Staður