Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

10.12.2014 16:43

Landsbankinn veitir tíu milljónum króna í samfélagsstyrki

 

Fulltrúar þeirra verkefna sem hlutu samfélagsstyrk ásamt Guðrúnu Agnarsdóttur, formanni dómnefndar og Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans.

 

Landsbankinn veitir tíu milljónum króna í samfélagsstyrki

 

25 verkefni fengu samfélagsstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans í gær. Tvö verkefni fengu úthlutað einni milljón króna, níu verkefni fengu 500 þúsund krónur hvert og loks fengu fjórtán verkefni 250 þúsund króna styrk. Rúmlega 300 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni.

Samfélagsstyrkjum er einkum ætlað að styðja við þá sem sinna mannúðar- og líknarmálum, menntamálum, rannsóknum og vísindum, verkefnum á sviðum menningar og lista, forvarnar- og æskulýðsstarfi og sértækri útgáfustarfsemi.

Samfélagssjóður Landsbankans veitir ferns konar styrki á hverju ári: Námsstyrki, nýsköpunarstyrki, samfélagsstyrki, og umhverfisstyrki og afreksstyrkir eru veittir annað hvert ár. Samfélagsstyrkir eru að jafnaði veittir tvisvar á ári og alls voru veittar 20 milljónir króna í samfélagsstyrki á þessu ári.

Dómnefnd samfélagsstyrkja var að þessu sinni skipuð þeim Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur dósent við Háskóla Íslands, Ármanni Jakobssyni prófessor við Háskóla Íslands, Kristjáni Kristjánssyni upplýsingafulltrúa hjá Landsbankanum og Guðrúnu Agnarsdóttur lækni, en hún var jafnframt formaður dómnefndar.

Samfélagsstyrkir Landsbankans eru mikilvægur þáttur í stuðningi bankans við samfélagið. Með þeim leggur Landsbankinn bæði einstaklingum, hópum og félagssamtökum lið við verkefni sem jafnan er sinnt af einlægni og ómetanlegum áhuga sem vert er að verðlauna.

Samfélagsstyrkir Landsbankans - desember 2014

1.000.000 kr. styrkir

 • Hjálpræðisherinn á Íslandi – Dagsetrið á Eyjarslóð fyrir heimilislaust fólk.
 • Pétur Henry Petersen – Rannsókn miðuð að því að bæta greiningu Alzheimer-sjúkdómsins.

500.000 kr. styrkir

 • Act alone – Leiklistarhátíðin Act alone á Suðureyri.
 • Blátt áfram – Verkefnið Verndarar barna II.
 • Eydís Franzdóttir – Tónleikaröðin 15:15 í Norræna húsinu.
 • Félag nýrnasjúkra – Kaup á vatnshreinsivélum fyrir blóðskilunardeildir á Akureyri og Selfossi.
 • Ljósið – Námskeið fyrir ungmenni sem eru aðstandendur krabbameinsgreindra.
 • Mediaevaland – Spjaldtölvunámsefni fyrir leikskólabörn byggt á fornum kvæðum.
 • Olnbogabörnin – Fræðsluvefur fyrir foreldra barna og unglinga með áhættuhegðun.
 • Safnasafnið – Kaup á listaverkum Sölva Helgasonar listamanns sem uppi var á 19. öld.
 • Spark films – Uppsetningar heimildaleiksýningar um snjóflóðin á Norðfirði árið 1974.

250.000 kr. styrkir

 • Aðalheiður Sigurðardóttir – „Ég er Unik“ – Fræðsluefni um einstaklinga á einhverfurófi.
 • Aleksandra Chliapala – „Takk“ eða „tak“? Kynningarefni um tvítyngd börn byggt á rannsókn og viðtölum við foreldra þeirra.
 • Björn G. Björnsson – Rannsókn á ævi og störfum Rögnvaldar Á. Ólafssonar, sem oft er nefndur fyrsti íslenskur arkitektinn.
 • Heyrnarhjálp – Könnun til að meta þörf fyrir rittúlkun fyrir fólk sem farið er að missa heyrn.
 • Hið íslenska náttúrufræðifélag – Útgáfa á riti um náttúru Mývatns og Þingvallavatns.
 • Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri – Endurnýjun tækjakosts vegna maga- og ristilspeglana á sjúkrahúsinu.
 • Kattavinafélag Íslands – Bættur aðbúnaður í Kattholti, athvarfi fyrir kisur.
 • KFUM og KFUK – Sumarbúðir fyrir 10-12 ára börn með sérþarfir.
 • Parkinsonsamtökin á Íslandi – Raddþjálfunarnámskeið fyrir Parkinsonsjúklinga.
 • Skema – Tæknistelpuakademía Skemu.
 • Thorvaldsensfélagið – Ritun á sögu Thorvaldsensfélagsins í tilefni af 140 ára afmæli félagsins.
 • Tryggvi Gunnarsson / Sómi þjóðar – Uppsetning á nýju íslensku leikverki um fólk sem ánetjast hefur netleikjum og stafrænum samskiptamiðlum.
 • Þekkingarsetur Suðurnesja – Rannsóknir á vistfræði fjara á Reykjanesskaganum.
 • Örn Magnússon – Hljóðritun og varðveisla á íslenskri þjóðlagatónlist úr safni Bjarna Þorsteinssonar.

Landsbankinn óskar styrkhöfum til hamingju með styrkina og velfarnaðar í framtíðinni.

Skráð af Menningar-Staður