Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

10.12.2014 08:06

Merkir Íslendingar - Sturlaugur Jónsson

 


Sturlaugur Jónsson.

 

Merkir Íslendingar - Sturlaugur Jónsson

 

Sturlaugur fæddist á Skipum við Stokkseyri 10. desember 1895. Foreldrar hans voru Jón Sturlaugsson, hafnsögumaður og traustur og farsæll formaður á Stokkseyri, og k.h., Vilborg Hannesdóttir frá Skipum.

Sturlaugur kvæntist 1929 Guðborgu Þórðardóttur frá Laugabóli við Ísafjarðardjúp og eignuðust þau tvo syni, Jón og Þórð, sem báðir störfuðu með föður sínum við fyrirtæki hans og varð Þórður þar síðan helsti arftaki föður síns.

Sturlaugur ólst upp á Stokkseyri, fór 12 ára til sjós á opnum bátum og mótorbátum frá Stokkseyri og Vestmannaeyjum, var formaður í þrjár vertíðir og auk þess vélamaður og var sjómaður á fiskiskútum og togurum frá Reykjavík frá 14 ára aldri og þar til hann var 27 ára.

Sturlaugur sótti um inngöngu í Stýrimannaskólann árið 1920, var synjað um skólavist vegna litblindu, gaf þá sjómennskuna upp á bátinn, hóf nám við Verzlunarskóla Íslands, flutti til Reykjavíkur 1923, lauk prófum frá Verslunarskólanum 1924, sinnti verslunarstörfum til 1926, stofnaði þá fyrirtækið Sturlaugur Jónsson & Co, umboðs- og heildverslun, og starfrækti það síðan, fyrst með Guðmundi Guðmundssyni, síðan með Jóni Helgasyni 1930-45 en rak síðan fyrirtækið einn eftir það.

Fyrirtækið, sem enn er í rekstri, varð snemma leiðandi í innflutningi á þýskum gæðavörum, einkum vélum í báta og bifreiðir. Það flutti m.a. inn fyrstu tvígengisbátadíselvélarnar (Delta) árið 1926 og síðan fjórgengisbátadíselvélar 1934. Þá fluttu þeir inn Mercedes Benz-bifreiðir, fyrsta bergmálsfiskileitartækið í togara og fyrstu fisksjárnar 1950. Hann var áhugamaður um tónlist og flutti einnig inn þýsk gæðahljóðfæri.

Sturlaugur þótti traustur í viðskiptum, heilsteyptur, samviskusamur og stefnufastur. Hann var fjölskyldurækinn, tók þátt í félagsmálum stéttar sinnar, var alla tíð áhugasamur um átthaga sína, var einn stofnenda Stokkseyringafélagsins og fyrsti formaður þess.

Sturlaugur lést 13. júní 1968.

Morgunblaðið miðvikudagurinn 10. desember 2014 - Merkir Íslendingar - Sturlaugur Jónsson

 

Skráð af Menningar-Staður