Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

11.12.2014 10:19

Afslöppun í sveitabúðinni Sóley

 

 

Sveitabúðin Vöruúrvalið er fjölbreytt og Sóley Andrésdóttir vill að gestum líði vel.

 — Morgunblaðið/Árni Sæberg

 

Afslöppun í sveitabúðinni Sóley

   • Viðskiptavinir í bústörfin, lesa, borða og kaupa

 

Sveitabúðin Sóley á bænum Tungu í Flóahreppi er öðruvísi en aðrar verslanir. „Það er alltaf opið þegar ég er heima,“ útskýrir Sóley Andrésdóttir, kaupmaður og bóndi.

Verslunin er 10 ára um þessar mundir en hjónin Sóley og Björgvin Njáll Ingólfsson hafa búið á jörðinni, sem er um sjö km fyrir austan Stokkseyri og um 16 km fyrir sunnan Selfoss, í 12 ár. Björgvin starfar á höfuðborgarsvæðinu og Sóley segist hafa viljað skapa sér vinnu á staðnum. Við íbúðarhúsið hafi verið byggður bílskúr sem hafi alltaf verið notaður sem kartöflugeymsla. Þar hafi hún átt sér þann draum að vera með textílverkstæði en síðan hafi kviknað sú hugmynd að opna sveitaverslun og hún byrjað að flytja inn gjafavörur frá Danmörku. „Það var engin sveitabúð eins og þessi á Íslandi og hugmyndin varð að veruleika.“

Slakað á í sveitinni

Sóley og Björgvin hafa gert ýmislegt á bænum. Fyrstu árin tóku hjónin börn í sveit, þau hafa boðið hópum upp á súpu og brauð og eru nú með um 30 ær, nokkur hross og hænur. Í búðinni er fjölbreytt úrval af erlendri og innlendri gjafavöru, krem, sælgæti og fleira. „Það er mikilvægt að vera með mikið vöruval. Búðin er í jólabúningi núna en ég klæði hana í búning eftir árstíðum,“ segir Sóley og bætir við að búðin sé ekki síst vinsæl á vorin. Þá kíki fólk í sauðburðinn og líti svo í búðina á eftir. „Þetta er pínulítið sveitalúðalegt en ég vil að umhverfið sé afslappað og mér er sagt að það sé mjög slakandi að koma hingað. Þá er markmiðinu náð því aðalatriðið er að fólk vindi aðeins ofan af sér.“

 

Sóley segir að búðin hafi alla tíð gengið vel. „Ég á tryggan hóp yndislegra viðskiptavina og fólk veit að hverju það gengur. Ég hef aldrei fengið ákúrur fyrir að vera ekki heima,“ segir hún og bætir við að fólk hringi gjarnan á undan sér og líka ef það komi að læstum dyrum. Þá hinkri það bara á hlaðinu þar til hún komi og opni. „Margir koma hérna og dunda sér í rólegheitum, fá sér jólaglögg og piparkökur og jafnvel bita af sauðalæri, kíkja í blöð í sólstofunni og gera síðan góðu kaupin.“

Morgunblaðið fimmtudagurinn 11. desember 2014

 

 

Fyrir nokkrum árum í Tungu.

F.v.: Hannes Sigurðsson á Hrauni í Ölfusi og Tunguhjónin Sóley Andrésdóttur og Björgvin Njáll Ingólfsson. 
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 


Skráð af Menningar-Staður