Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

15.12.2014 07:44

Af vettvangi Byggðasafns Árnesinga

 

Húsið á Eyrarbakka.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Af vettvangi Byggðasafns Árnesinga

 

Uppbygging í Kirkjubæ, útgáfa nýrrar bókar um Húsið á Eyrarbakka og ný sýning um sunnlenska vesturfara er það sem efst er á baugi hjá Byggðasafni Árnesinga um þessar mundir. Einnig er Húsið á Eyrarbakka að verða 250 ára og verður haldið upp á það næsta sumar.

 

Ritstjóri Dagskrárinnar fór á leit við mig að ég gerði lesendum grein fyrir starfsemi Byggðasafns Árnesinga um þessar mundir. Það geri ég hér með þessu greinarkorni og vona að lesendur verði einhvers  vísari um starf safnsins.

Grunnsýning og aðalaðsetur safnsins er í Húsinu á Eyrarbakka, gömlu faktorsetri sem er í hópi elstu húsa landsins, byggt fyrir danska kaupmenn á 18. öld. Í Húsinu á Eyrarbakka er hægt að fræðast um merka sögu Hússins, sem í raun var höfðingjasetur sérstaklega á tímum Lefolii-feðga, danskra kaupmanna sem áttu verslunina á tímum gamla íslenska bændasamfélagsins.  Lefolii hafði vinsæla faktora fyrir sig árið um kring, fyrst Guðmund Thorgrímsen og síðar Peter Nielsen. Í Húsinu á Eyrarbakka bjó verslunarstjóri stærstu verslunar landsins á þeim tímum þegar dönsk áhrif voru ríkjandi á íslenskt mannlíf. Í Húsinu mættust því tveir menningarheimar, annarsvegar dönsk borgarmenning og hinsvegar íslensk bændamenning. Húsið var landsfrægt fyrir íbúa þess og áhrifa þeirra á mannlífið en á sviði tónlistar reis reisn Hússins hæst og fjölmargar frásagnir og sögur til um tónlistarleg áhrif frá Húsinu.  Hnignun var í verslun á 3. áratug síðustu aldar, húsið hætti að hýsa kaupmenn og fjölskyldur þeirra. Hjónin Ragnhildur Pétursdóttir og Halldór Kr. Þorsteinsson frá Háteigi í Reykjavík björguðu þá Húsinu frá niðurrifi árið 1932. Það var síðan í eigu þeirra um margra áratuga skeið. Viðbygginguna til hliðar við Húsið, Assistentahúsið leigðu þau gjarnan út og þar bjó um skeið Guðmundur Daníelsson rithöfundur og skólastóri. Eftir lát Háteigshjónanna erfði dóttirin Ragnhildur Sceoch Húsið. Hún seldi hjónunum Auðbjörgu Guðmundsdóttur og Pétri Sveinbjarnarsyni Húsið árið 1979. Ríkissjóður eignaðist Húsið árið 1992 og frá 1995 hefur Byggðasafn Árnesinga verði með starfsemi sína þar. 

Sjóminjasafnið á Eyrarbakka
Byggðasafn Árnesinga sér um rekstur Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka fyrir Sveitarfélagið Árborg. Það var stofnað af Sigurði Guðjónssyni frá Litlu-Háeyri og í hans einkaeigu til 1987 að hann gaf það Eyrarbakkahreppi.  Í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka er sögð saga atvinnuvega við Ströndina með áherslu á Eyrarbakka en sjóminjar eru þar í öndvegi með áraskipið Farsæl sem aðal sýningargrip.  Beitingaskúrinn við Óðinshús tilheyrir einnig starfi safnsins og er hafður til sýnis. Sjóminjasafninu tilheyrir jafnframt Mundakotsskemma sem nýtt er sem geymsla fyrir safnið – en skemman þarfnast viðhalds. 
Jafnframt er Byggðasafn Árnesinga aðili að rekstri Rjómabúsins á Baugsstöðum og varðveitir muni Þuríðarbúðar á Stokkseyri. 

Bók um Húsið 
Í sumar kom út bókin Húsið á Eyrarbakka sem samin var af undirrituðum.  Bókin segir sögu íbúanna í  Kaupmannshúsinu á Eyrarbakka frá árinu 1765 til dagsins í dag og tengir við sögu samfélagsins í heild. Bókin er afrakstur rannsókna yfir langt tímabil og inn í fróðlega sagnfræði er flétt skemmtilegum frásögnum og viðburðum úr sögu Hússins. Bókinni hefur verið tekið fagnandi enda margir beðið eftir slíku riti. Bókin er í stóru broti, prýdd fjölda ljósmynda, litprentuð og á 80 síðum. Sylvía Kristjánsdóttir sá um hönnun og umbrot en Oddi prentaði. Byggðasafn Árnesinga gefur bókina út. Safnið naut styrkja frá Safnasjóði og Kaupmannasamtökum Íslands. 

Vesturfarasýning
Í haust var opnuð sýning um Sunnlenska vesturfara.  Þar er greint frá Vesturheimsferðum allt frá Bjarna Herjólfssyni til Halldórs Einarssonar frá Brandshúsum. Upphaf Vesturheimsferða má rekja til Hússins á Eyrarbakka en danskur verslunarþjónn fór um 1865 vestur um haf og skrifaði gamla vinnuveitandannum sínum á Eyrarbakka bréf þar sem hann lýsti dásemdum þess að flytja til Vesturheims. Fór það svo að tveir hópar fóru frá Eyrarbakka árin 1870 og 1872 og voru það fyrstu skipulögðu ferðir vestur um haf.  Hildur Hákonardóttir hefur haft umsjón með uppsetning sýningarinnar ásamt starfsfólki safnsins. Sýningin byggir á heimildum, ljósmyndum og munum sem tileyrðu nokkrum velvöldum vesturförum og greint er frá aðstæðum og lífi vesturfaranna.  Á sýningunni er einn af öndvegisgripum safnsins sem er líkkistuklæði Ingibjargar Jónsdóttur Guðmundsson frá Gaulverjabæ  fædd 1874, dáin Í Kaliforníu árið 1964. Þegar leið að leiðarlokum Ingibjargar fór hún að vinna líkkistuklæði  sem hún gerði ásamt börnum sínum og skreyttu það með þurrkuðum jurtum frá Stóra-Núpi sem sr. Valdimar Briem hafði sent henni. 

Kirkjubær
Stærsta verkefnið framundan hjá safninu er uppbygging sýningar í húsinu Kirkjubæ sem stendur skammt austan Hússins á Eyrarbakka.  Kirkjubær var byggður  1920 og er dæmigert alþýðuhús  byggt af vanefnum af fátæku verkafólki. Í Kirkjubæ verður sýning sem sýnir inní heim alþýðufólks um 1930 og verður gott mótvægi við höfðingjaheimilið Húsið sem er aðalsýningarhúsnæði og næsti nágranni við Kirkjubæ. Sýningin verður samtvinningur af hefðbundinni uppsetningu á heimili og sýningu með vísun á veröldina utan veggja heimilis. Þannig gefst safninu gott færi til að varpa fram áhugaverðum gripum í breiðu samhengi  og ákveðið frelsi við framsetningu. Sýning hefur fengið vinnuheitið „Hús draumanna“ sem er vísun í það mikla umrót sem var í samfélaginu í kringum 1930. Stefnt er að opnun Kirkjubæjar vorið 2015.  Safnið hefur notið arfs Helga Ívarssonar frá Hólum við uppbyggingu Kirkjubæjar.  

250 ára afmæli Hússins
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Húsið á Eyrarbakka var byggt.  Það gerðist árið 1765 að til Eyrarbakkahafnar kom skip hlaðið viðum í hús sem reisa átti handa kaupmanni svo að hann gæti haft vetursetu á verslunarstaðnum.  Fram að því var viðvera kaupmanna í samræmi við komu fuglana, þeir komu á vorin og fóru á haustin. Með því átti að efla verslunarstaðina og koma upp vísi að borgarmenningu.  Jens Lassen hét fyrsti kaupmaðurinn í Húsinu en hann var mikill bóndi en síður kaupmaður og sagður hafa selt bændum maðkað mjöl 1768 eins og aðrir kaupmenn það árið.  Í tilefni 250 ára afmælis Hússins verður boðað til afmælishátíðar á komandi sumri þar sem sögunni og menningunni verða gerð góð skil í tali og tónum. 

Að lokum
Að lokum langar mig til að greina í stuttu máli frá því sem gerist innan veggja safnsins og er ekki sýnilegt almenningi.  Við safnið fer fram stöðug söfnun á munum sem vert er að varðveita.  Er það í samræmi við hlutverk safnsins samkvæmt stofnskrá en þar segir:„Hlutverk Byggðasafns Árnesinga er að safna, skrá, varðveita, forverja og rannsaka minjar um byggða-, menningar- og atvinnusögu Árnessýslu og kynna þær almenningi.“ Safnað er eftir söfnunarstefnu. Skráð er í gagnagrunninn Sarp sem sýnilegur er á www.sarpur.is. Þannig er að safnið tekur stöðug á móti gripum sem vert er að varðveita.  Þá gripi sem við höfum ekki á sýningum hverju sinni varðveitum við í við framúrskarandi skilyrði í þjónustuhúsi safnsins. Safnið hefur miðlað á sýningar í Héraðinu og er að finna gripi frá safninu í Geysisstofu, Þjórsárstofu og fleiri stöðum en jafnframt eru langtímamarkmið safnsins að koma upp nýrri sýningaraðstöðu á Eyrarbakka.

Eyrarbakka 1. desember 2014
Lýður Pálsson, safnstjóri

Af www.dfs.is

 

.

.

Skráð af Menningar-Staður