Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.02.2015 07:20

Safngestir leysa myndagátuna

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Inga Lára Baldvinsdóttir heldur fyrirlestur í dag.

Hún hvetur fólk til að leggja leið sína á greiningarsýningu Þjóðminjasafnsins.

Kannski gæti það rekist á mynd af sér, tekna þegar það var ungt að árum.

 

Safngestir leysa myndagátuna

• Kennsl eru borin á 60-70% myndanna á sýningunni

 

„Þetta er skemmtileg ráðgáta fyrir gesti og er eins og að leysa sudoku,“ segir Inga Lára Baldvinsdóttir um greiningarsýningu á ljósmyndum í myndasal Þjóðminjasafnsins. Þar er til sýnis óþekkt myndefni úr Ljósmyndasafni Íslands og vonast er til þess að safngestir geti gefið upplýsingar um það. Sýningin nefnist Hvar, hver, hvað?

Í tengslum við sýninguna heldur Inga Lára fyrirlestur sem ber yfirskriftina „Hundurinn er trúlega Héppi heitinn í Sandgerði“ um skráningu og greiningu ljósmynda í Ljósmyndasafni Íslands, Þjóðminjasafni. Fyrirlesturinn er öllum opinn og hefst kl. 12 í dag í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins.

„Þessar greiningarsýningar hafa gefið góða raun og eru að festa sig í sessi, um 60-70% greininga nást á svona sýningum,“ segir Inga Lára og bætir við að fólk sem hafi á annað borð áhuga á þessu geti bæði haft skemmtun og gagn af því að glíma við myndirnar.

 

Fjöldi óskráðra mynda

Hún segir myndirnar á sýningunni eingöngu brot af myndefninu sem til er. Skráning á ljósmyndasöfnunum sem koma inn á borð Þjóðminjasafnsins er misítarleg, atvinnuljósmyndarar hafi oft og tíðum haldið betur utan um skráninguna en áhugaljósmyndarar.

Mikið er til af óskráðum myndum. Margar þeirra verður aldrei hægt að skrá. Í einni greiningarsýningunni var myndefni frá árunum 1904-1912. „Það efni var alltof gamalt og ekki gekk vel að greina myndirnar því kynslóðin sem mögulega gat gefið vísbendingu um myndefnið var nánast horfin.“

Inga Lára segir að það eigi eflaust ekki eftir að verða raunin með myndirnar á þessari greiningarsýningu.

Þótt margar myndir séu skráðar sé oft hægt að skrá þær enn betur. Nákvæmari upplýsingar um myndir sem eru þegar skráðar berast oft inn á borð Ljósmyndasafnsins en hægt er að skoða þær á vefsíðu safnsins. Í þessu samhengi bendir Inga Lára á að maður sem er einstakur áhugamaður um skip og báta hafi bætt býsna miklum upplýsingum við myndir af þessu myndefni. Þá viti hún einnig til þess að nokkrir hópar komi saman og fari í gegnum gamlar myndir frá´ æskuslóðum sínum, myndir sem til eru á Ljósmyndasafninu, og gefi mikilvægar upplýsingar

Myndir fyrir stríð og til 1960

Ljósmyndasýningin er fjórða greiningarsýning Þjóðminjasafnsins frá árinu 2004. Myndirnar sem gestir geta komið og séð eru teknar fyrir stríð og ná fram yfir árið 1960.

Myndirnar eru úr ljósmyndasöfnum Guðna Þórðarsonar blaðaljósmyndara, Halldórs E. Arnórssonar ljósmyndara og Tryggva Samúelssonar áhugaljósmyndara. Auk þess eru myndir úr filmusafni Jóhannesar Nielsen sýndar en hluti myndanna var tekinn af Karli Chr. Nielsen ljósmyndara.

Reiknað er með að myndum verði skipt út yfir sýningartímann. Þær myndir sem borin hafa verið kennsl á verða teknar út og aðrar settar í staðinn.

Sýningin stendur til 17. maí.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 3. febrúar 2015

Skráð af Menningar-Staður