Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

16.02.2016 15:12

Inga Lára Baldvinsdóttir, sviðsstj. Ljósmyndasafns Íslands - 60 ára

 Inga Lára Baldvinsdóttir.

 

Inga Lára Baldvinsdóttir, sviðsstj. Ljósmyndasafns Íslands – 60 ára

Í kompaníi við gömul hús

 

Inga Lára fæddist í Reykjavík 16.febrúar 1956 og ólst upp á Högunum í Vesturbænum. Hún var auk þess í sveit á sumrin hjá ættmennum sínum á Oddsstöðum í Lundarreykjadal.

Inga Lára var í Melaskóla og Hagaskóla, lauk stúdentsprófum frá MR, BA-prófi frá University College í Dublin 1979 og cand. mag.-prófi í sagnfræði við HÍ 1984.

Inga Lára stundaði safnstörf við ýmis tímabundin verkefni hjá Þjóðminjasafni Íslands 1977-89, var ritstjóri Árbókar Hins íslenska fornleifafélags 1982-92, ritstjóri Þjóðólfs á Selfossi 1986-87, skjalavörður hjá Héraðsskjalasafni Árnesinga 1988-89, var hreppstjóri Eyrarbakkahrepps um skeið, hefur starfað síðasta aldarfjórðung við varðveislu ljósmynda í Þjóðminjasafni, var deildarstjóri þar frá 1991 og er nú sviðsstjóri Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafninu.

Inga Lára hefur gefið út bækur um íslenska ljósmyndasögu og unnið við sýningar á því sviði. Þá hefur hún tekið þátt í ýmsu félagsstarfi með safnmönnum og fyrir þeirra hönd.

Inga Lára hefur verið búsett á Eyrarbakka frá 1982. Hún hefur, ásamt manninum sínum, Magnúsi Karel, staðið að því að gera upp þrjú hús á Bakkanum og hefur haft mikinn áhuga á húsavernd á Eyrarbakka og á landsvísu.

Inga Lára og Magnús hafa starfrækt Verzlun Guðlaugs Pálssonar í einu þeirra húsa sem þau gerðu upp. Þar stendur Magnús vaktina í búðinni en Inga Lára er „lagerstjóri“.

Inga Lára hefur tekið þátt í félagsstarfi á Eyrarbakka og í Sveitarfélaginu Árborg, stuðlaði að uppbyggingu dvalarheimilis á Eyrarbakka með góðu fólki og var lengi í rekstrarstjórn þess. Þá hafði hún um hríð umsjón með Sjóminjasafninu á Eyrarbakka og hefur starfað í kvenfélaginu á staðnum. Hún sat í stjórn Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka, í fornleifanefnd og þjóðminjaráði og sat í stjórn Félags íslenskra safnmanna um skeið.

Áhugamál Ingu Láru liggja á starfssviði hennar auk þess sem þau hjónin hafa varið miklum tíma og kröftum í að vekja af dvala þau gömlu hús sem þau hafa gert upp á Bakkanum. Eyrarbakki er eins og Stykkishólmur og Flatey, einn þeirra örfáu staða á landinu þar sem gömul og sögufræg hús hafa oftar en ekki fengið að standa óáreitt fyrir skammtíma gróðasjónarmiðum.

„En við höfum nú einnig gefið okkur tíma fyrir gönguferðir. Höfum gengið víða erlendis með góðu vinafólki og farið í nokkrar gönguferðir á slóðir forfeðranna á Vestfjörðum með fjölskyldunni.“

 

Fjölskylda

Eiginmaður Ingu Láru er Magnús Karel Hannesson, f. 10.4. 1952, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Foreldrar hans voru Hannes Þorbergsson, f. 5.11. 1919, d. 15.10. 2003, vörubílstjóri á Eyrarbakka og víðar, og Valgerður Sveinsdóttir, f. 18.4. 1921, d. 4.10. 2005, húsfreyja og verkakona á Eyrarbakka.

Sonur Ingu Láru og Magnúsar Karel er Baldvin Karel, f. 11.7. 1985, nemi og kokkur í Reykjavík.

Systkini Ingu Láru eru Páll Baldvin Baldvinsson, f. 28. 9. 1953, blaðamaður og rithöfundur í Reykjavík, og Guðrún Jarðþrúður Baldvinsdóttir, f. 25.11. 1960, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir í Reykjavík.

Foreldrar Ingu Láru: Baldvin Halldórsson, f. 23.3. 1923, d. 13.7. 2007, leikari og leikstjóri í Reykjavík, og k.h., Vigdís Pálsdóttir, f. 13.1. 1924, handavinnukennari í Reykjavík.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Gengið á Vestfjörðum.

Inga Lára með hópi ættmenna sem eru að leggja í hann suður og niður af Þorskafjarðarheiði.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Mæðgurnar Inga Lára og Vigdís við standsetningu Sjónarhóls, sl. aldamót.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 16. febrúar 2016
 


Skráð af Menningar-Staður