Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

19.02.2016 07:43

Ásta Þórunn Vilbergsdóttir - Fædd 9. júlí 1932 - Dáin 9. febrúar 2016 - Minning

 

 

Ásta Þórunnn Vilbergsdóttir.
 

 

Ásta Þórunn Vilbergsdóttir

- Fædd 9. júlí 1932 - Dáin 9. febrúar 2016 - Minning

 

Ásta Þórunn Vilbergsdóttir fæddist á Helgafelli á Eyrarbakka 9. júlí 1932. Hún lést 9. febrúar 2016.

Hún var dóttir hjónanna Vilbergs Jóhannssonar, f. 1898, d. 1939, og Ragnheiðar Ólafsdóttur, f. 1906, d. 1998. Systkini hennar eru Karen, f. 1926, Ólafur, f. 1929, Jóhann, f. 1931, og Sigríður Vilborg, f. 1939, hálfbróðir Sveinn Vilbergsson, f. 1920. Látin eru Karen, Ólafur og Sveinn.

Þórunn giftist 23. maí 1953 Óskari Magnússyni, f. 1931. Börn þeirra eru 1) Lillian, f. 1952, gift Júlíusi Ólafssyni, þeirra börn eru: a) Sigrún Ásta, maki Elías Kári Guðmundsson, þeirra sonur er Júlíus Kári, b) Ómar, c) Barði Páll. 2) drengur, f. andvana 1953. 3) Ragnheiður, f. 1955, gift Birgi Edwald, þeirra dætur eru: a) Þórunn, dóttir hennar og Matthíasar Más Magnússonar er Stella Elínborg, b) Ágústa, maki Stuart Maxwell, sonur þeirra er Harris Birgir, c) Hildur, maki hennar er Einar Mar Þórðarson, dóttir þeirra er Melkorka, börn Einars eru Sólveig og Steingrímur, d) dóttir Birgis er Harpa, maki hennar er Gunnar Már Hannesson og börn þeirra eru Dagmar Björk, Valtýr Hrafn og Júlíana Hrefna. 4) Sigríður, f. 1957, gift Þór Hagalín (látinn) börn þeirra eru a) Unnur Huld, gift Elíasi Ívarssyni, synir þeirra eru Ívar Þór, Rúnar Orri, unnusta Alexía Sól Kristjónsdóttir, og Ari Hrafn, b) Þórhildur Ósk, gift Tobiasi Fuchs, dætur þeirra eru Karítas og Kamilla Þóra, c) Guðmundur Gísli. 5) Vilbergur Magni, f. 1959, kvæntur Brynju Björgvinsdóttur, börn þeirra eru: a) Óskar Örn, maki Elísabet Ómarsdóttir, börn þeirra eru Emilía Rún og Alexander Magni, b) Björgvin, unnusta Shelby Morgan, c) Kristín d) Ásta Þórunn. 6) Eyrún, f. 1964, var gift Gísla B. Bogasyni, börn þeirra eru: a) Guðni Baldur, b) Jóhann, c) Daníel, unnusta hans er Rósa Margrét Óladóttir, dóttir Daníels og Söru Hrannar Rúnarsdóttur er Hanna Kristel, og stjúpdóttir Jana Mist, d) Gígja Rún, maki Gunnlaugur Skarphéðinsson, sonur þeirra er Jóhann Örn. 7) Edda, f. 1968, gift Ólafi Andra Ragnarssyni, dætur þeirra eru: a) Lilja Rut, maki Heimir Jón Heimisson, b) Kaðlín Sara, c) Ragnheiður Íris, d) dóttir Ólafs Andra er Kristín, maki hennar er Aðalsteinn Guðmundsson og börn þeirra Guðmundur Kári og Guðrún Bára. 8) Hallgrímur, f. 1970, kvæntur Þórunni Jónu Hauksdóttur, börn þeirra eru: a) Hrafnhildur b) Haukur Páll. 9) Barði Páll, f. 1972, lést af slysförum 19 ára gamall.

Þórunn ólst upp á Eyrarbakka og bjó þar alla tíð. Hún vann ýmis störf sem ung kona en eftir að hún giftist og stofnaði fjölskyldu var hennar vettvangur fyrst og fremst að sinna stóru heimili. Þegar yngstu börnin voru komin á legg fór hún aftur út á vinnumarkaðinn og vann meðal annars í Hraðfrystihúsinu og síðar í Alpan.

Útför Þórunnar fer frá fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 19. febrúar 2016, og hefst klukkan 14.
____________________________________________________________________________

Minningarorð Guðrúnar Thorarensen

Ég man eftir okkur 4-5 ára hlaupandi á milli Þorvaldseyrar og Helgafells til að hitta hvor aðra og leika okkur saman. Líf okkar hefur verið samtvinnað alla tíð.

Við lékum saman sem börn og tókum saman þátt í gleði og störfum unglingsáranna. Skömmu eftir að ég stofnaði heimili kom Tóta í heimsókn með ungan mann og kynnti fyrir okkur Herði.

Það var Óskar Magnússon sem varð hennar lífsförunautur. Óskar hefur minnst á það að heimili okkar Harðar var það fyrsta sem hann kom á á Eyrarbakka.

Þau Tóta og Óskar byggðu sér hús við Túngötuna á Eyrarbakka og við Hörður við hlið þeirra og vorum við því nágrannar í 47 ár. Við Túngötuna ólum við upp börnin okkar og studdum hvor aðra eftir þörfum og getu og aldrei bar skugga á vináttu okkar Tótu né fjölskyldna okkar.

Tóta var lengi heimavinnandi húsmóðir því börnin voru mörg og stórt heimili að annast, en þegar börnin uxu úr grasi fór hún að vinna utan heimilisins og urðum við þá einnig vinnufélagar í mörg ár, bæði í frystihúsinu á Eyrarbakka og síðan í pönnuverksmiðjunni Alpan.

Tóta vinkona mín var dul í skapi og lét tilfinningar sínar lítið í ljós þrátt fyrir áföll í lífinu. Hún var samt sem áður glaðvær og lifandi og hún var mjög gestrisin og var maður ávallt velkominn til þeirra hjóna.

Þau Tóta og Óskar komu upp stórum barnahópi sem hefur vegnað vel í lífinu og helst vináttan einnig við þau og þeirra fólk.

Ég vil þakka fyrir áratuga vináttu öll árin sem við fengum að eiga saman.

Ég og börnin mín, Ólöf og Ari, og þeirra fjölskyldur sendum Óskari og öllum afkomendum þeirra Tótu innilegustu samúðarkveðjur og óskum þeim öllum blessunar.

Guðrún Thorarensen.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 19. febrúar 2016.

___________________________________________________
 

.

.


 

Eyrarbakkakirkja. Ljósm.: Halldór Páll Kjartansson.

Skráð af Menningar-Staður