Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

17.06.2016 08:00

Dyr aftur til fortíðar opnaðar í Kirkjubæ í dag

 

 

Kirkjubær á Eyrarbakka.                                                                  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Dyr aftur til fortíðar opnaðar í Kirkjubæ í dag

 

Sýningin Draumur aldamótabarns verður opnuð í Kirkjubæ í dag, á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Er Kirkjubær ný viðbót við grunnsýningu Byggðasafns Árnesinga sem staðið hefur undanfarið 21 ár.

 

„Byggðasafnið keypti Kirkjubæ árið 2011 og hefur unnið ötullega að endurbótum á húsinu. Okkur þótti gráupplagt að kaupa bæinn með það fyrir augum að útvíkka sýningarhaldið. Nú er búið að gera Kirkjubæ upp og sýningin klár,“ útskýrir Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga. Safnið hefur nýtt arf Helga Ívarssonar frá Hólum til þessa verkefnis.

 

Útgangspunktur sýningarinnar Draums aldamótabarnsins er venjulegt líf fólks á árunum 1920 til 1940. „Sýningin er uppfull af safnmunum í réttu samhengi og skemmtilegum fróðleik um tímabilið. Þarna eru textar, munir og svo Kirkjubær sem talar sínu máli,“ segir Lýður.

 

Og sennilega er það rétt, því saga þessa litla bárujárnsklædda timburhúss er heilmikil.

 

„Húsið á Eyrarbakka var heimili heldra fólks, þar bjó kaupmaðurinn til dæmis. Í kringum það hús voru hús alþýðunnar og þar með Kirkjubær, sem byggt var vestan við Húsið. Það var byggt af almúgafólki árið 1920. Þar er svo búið til 1983 uns það varð að sumarhúsi. Ólafur Haukur Símonarson rithöfundur átti það til dæmis um tíma,“ segir hann glaðlega og bætir við að eldri hjón úr Reykjavík hafi svo keypt það og nostrað við garðinn, sem nú sé heilmikið aðdráttarafl, enda fallegur með eindæmum.

 

Lýður segir alla hjartanlega velkomna í Kirkjubæ í dag, en hann verður opnaður klukkan 12 á hádegi og er aðgangur ókeypis í tilefni dagsins. Gefst gestum sömuleiðis færi á að skoða Sjóminjasafnið og Húsið, en sé á heildina litið er Eyrarbakki nánast eins og eitt stórt safn svo allir ættu að finna eitthvað fyrir sinn smekk.

Fréttablaðið föstudagurinn 17. júní 2016


 

 

.
 


Lýður Pálsson.Skráð af Menningar-Staður