Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.08.2016 10:09

Ingileif Guðjónsdóttir - Fædd 16. maí 1952 - Dáin 18. ágúst 2016 - Minning

 

 

Ingileif Guðjónsdóttir.

 

Ingileif Guðjónsdóttir - Fædd 16. maí 1952

- Dáin 18. ágúst 2016 - Minning

 

Ingileif Guðjónsdóttir fæddist á Eyrarbakka 16. maí 1952. Hún lést á heimili sínu 18. ágúst 2016.

Foreldrar hennar voru þau Gyðríður Sigurðardóttir, f. 22. september 1929, d. 28. maí 2012, og Guðjón Pálsson, f. 9. maí 1934, d. 4. nóvember 2014. Eftirlifandi systir er Margrét, f. 1956, en látin eru Regína, f. 21. maí 1949, d. 22. september 2014, og drengur sem lést í fæðingu.

Ingileif eða Inga, eins og hún var jafnan kölluð, giftist Ólafi Leifssyni, f. 13. nóvember 1947, frá Vindfelli, Vopnafirði. Foreldrar hans voru Leifur Guðmundsson og Guðrún Sigríður Víglundsdóttir frá Vopnafirði. Óli og Inga giftu sig 19. maí 1973. Þau eiga tvö börn, Sigurð Má, f. 20. desember 1972, og Guðrúnu Sigríði, f. 23. júlí 1972. Unnusti Guðrúnar er Jón Ágústsson, f. 9. júní 1965, og eiga þau eina dóttur Ingileifu Valdísi, f. 16. nóvember 2014. Jón á tvo syni af fyrra hjónabandi þá Þengil Fannar, f. 8. júlí 1996, og Þorgils Mána, f. 1. júlí 2000.

Inga ólst upp á Eyrarbakka, fór ung að vinna við hin ýmsu störf sem til féllu á Bakkanum.

Hún flutti til Reykjavíkur haustið 1971 og hóf búskap með Óla á Hagamelnum. Síðar fluttu þau í Dvergabakkann þar sem þau bjuggu þar til þau festu kaup á íbúðinni í Efstasundi. Inga fékkst við ýmis störf í Reykjavík. Hún vann í búð á Kambsveginum, ullarverksmiðjunni Álafossi og Sælgætisgerðinni Nóa. Hún lærði síðar til sjúkraliða við Sjúkraliðaskóla Íslands og vann við það á Landakoti og svo einnig á Hrafnistu. Lengst af vann hún sem ráðgjafi hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og var skrifstofumaður og síðar deildarstjóri hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.

Inga var hafsjór af fróðleik, söngelsk og hafði yndi af tónlist. Hún var mikill náttúruunnandi og elskaði að ferðast, bæði innanlands og utan. Hún var mikið í skátastarfi sem barn og unglingur. Saumaskapur, silfursmíði, vinna með steina eða annað handverk átti hug hennar meðan hún enn gat notað hendurnar í slíkt.

Ingileif verður jarðsungin frá Langholtskirkju í dag, 26. ágúst 2016, klukkan 15.

__________________________________________________________________________________

 

Minningarorð Guggu frænku
 

Elskuleg vinkona mín og frænka er fallin frá. Við lofuðum hvor annarri fyrir um sex árum að skrifa lítinn pistil um þá, sem á undan færi yfir móðuna miklu. Þetta var eitthvað sem sagt var í gríni og við grétum úr hlátri þegar við töluðum um þetta. Nú græt ég mína kæru vinkonu og frænku. Okkar loforð var að sú sem færi á undan átti að segja um hina: „hún varð þó ekki leiðinlegt gamalmenni“. Nú finnst mér erfitt að setja þennan brandara okkar í búning, en get ekki skorast undan.

Við urðum ekki vinkonur fyrr en báðar voru fluttar úr foreldrahúsum, báðar á svipuðum stað í lífinu með börn og afborganir af ýmsum toga.

Þá hittumst við og gátum skemmt okkur saman, hlegið saman, talað um erfiðleika og fleira. Alltaf góðar stundir. Fyrir rétt rúmlega 38 árum kynnti Inga frænka mig fyrir manninum mínum. Samt alltaf tími fyrir hvor aðra.

Eitt eftirminnilegasta ferðalag sem við frænka mín og ég fórum í var til Finnlands árið 2010. Helgarferð til Helsinki, svo frábær ferð í alla staði þótt stutt væri. Við vorum dálítið á sama báti, enn og aftur, ekki alltof góðar til langra gönguferða, sem kom svo sem ekki að sök, nóg var um bari til að hvíla lúin bein.

Eftir þessa ferð töluðum við Inga um að endurtaka svona ferð seinna, en það er svona með áætlanir í lífinu, lífið bara heldur áfram án þess að taka tillit til þinna áætlana. Nú hringi ég ekki oftar til að létta á hjartanu, mun ekki heldur fá símtal frá Ingu minni með sínar hugsanir. Ekkert símtal eða heimsóknir á milli okkar sem enda með hlátri. Mikið skelfing á ég eftir að sakna þín, mín kæra.

Þín frænka

Guðbjörg (Gugga frænka).


Morgunblaðið föstudagurinn 26. ágúst 2016


Skráð af Menningar-Staður