Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

28.09.2016 20:55

Margrét Símonardóttir Kjærnested - Fædd 3. september 1923 - Dáin 18. september 2016 - Minning

 

 

 

Margrét Símonardóttir Kjærnested.

 

Margrét Símonardóttir Kjærnested -

- Fædd 3. september 1923 - Dáin 18. september 2016 - Minning

Margrét Anna Símonardóttir Kjærnested fæddist á Eyrarbakka 3. september 1923. Hún andaðist á Hrafnistu 18. september 2016.

Foreldrar hennar voru Símon Símonarson, bifreiðarstjóri, f. 9. apríl 1890, d. 24. ágúst 1960, og Ingibjörg Gissurardóttir, f. 30. ágúst 1888, d. 20. nóvember 1977. Systkini Margrétar voru: Gissur, f. 1920, Ingunn, f. 1921, Kristín, f. 1926 og Símon Þóroddur, f. 1926. Þau eru öll látin.

Margrét giftist 11. október 1944 Guðmundi Kjærnested, skipherra, f. 29. júní 1923, d. 2. september 2005. Heimili þeirra var alla tíð á Þorfinnsgötu 8 í Reykjavík í húsi sem foreldrar hennar reistu.

 

Börn Margrétar og Guðmundar eru fjögur: 

1. Símon Ingi, f. 1945, kvæntur Elínborgu Stefánsdóttur Kjærnested, f. 1945.

Börn þeirra eru: a) Guðmundur, f. 1967, kvæntur Margaret Elizabeth Kjærnested, f. 1969, eiga þau þrjú börn. b) Stefán, f. 1971, kvæntur Ásgerði Ósk Jakobsdóttur, f. 1976, eiga þau fjögur börn. c) Brynjar, f. 1977, kvæntur Hjördísi Jónsdóttur, f. 1980, eiga þau þrjú börn, en fyrir á Brynjar eitt barn með fyrri eiginkonu sinni, Paola Cardenas, f. 1977.

2) Örn, f. 1948, kvæntur Hildi Einarsdóttur, f. 1949. Börn þeirra eru: a) Guðlaug Ágústa, f. 1968, gift Kolbeini Sigurjónssyni, f. 1972, eiga þau tvö börn, en fyrir á Guðlaug tvö börn og eitt barnabarn með fyrri eiginmanni sínum, Þóri Erni Grétarssyni, f. 1964. b) Einar Páll, f. 1972, kvæntur Hildi Ólafsdóttur, f. 1975, eiga þau tvö börn. c) Guðmundur Örn, f. 1985, kvæntur Elínu Maríu Jónsdóttur, f. 1984, eiga þau þrjú börn.

3. Helgi Stefnir, f. 1954. Sonur Helga og Höllu Elínar Baldursdóttur, f. 1955, Baldur Már, f. 1976, kvæntur Svanhildi Sigurðardóttur, f. 1976, eiga þau þrjú börn. Dóttir Helga og Soffíu Lárusdóttur, f. 1960, Margrét Rán, f. 1986, gift Jan Prikryl, f. 1987, eiga þau 1 barn.

4. Margrét Halldóra, f. 1960, gift Pétri E. Oddssyni, f. 1957, dóttir þeirra er Ásta, f. 1988.

 

Margrét stundaði nám í Austurbæjarskóla og Ingimarsskóla. Hún vann sem ung kona í mjólkurbúð, en eftir að börnin fæddust var hún heimavinnandi að mestu og passaði barnabörnin.

Margrét vann ásamt Vigdísi Kristjánsdóttur veflistakonu að listaverkinu „Ingólfur varpar öndvegissúlu fyrir borð“ sem hangir uppi í Ráðhúsi Reykjavíkur. Verkið unnu þær fyrir Reykjavíkurborg í tilefni 1100 ára afmælis landnáms. Einnig vann hún í versluninni Handíð og Hattabúð Reykjavíkur. Margrét var í Kvenfélaginu Hrönn og Heimilisiðnarfélagi Íslands.

 

Margrét bjó á Þorfinnsgötu 8 í 81 ár. Síðustu mánuði var hún á Hrafnistu við Brúnaveg.

 

Útför Margrétar var gerð frá Bústaðakirkju mánudaginn, 26. september 2016.

------------------------------------------------------------------------------------------

Minningarorð:

 

Mamma er dáin. Mikið rosalega er það skrítið. Okkar líf saman hefur staðið yfir í rúm 56 ár sem hafa einkennst af mikilli samveru. Mamma var alltaf til staðar á gleði- og sorgarstundum. Bræður mínir voru allir fluttir að heiman á unglingsárum mínum og pabbi mikið úti á sjó. Því eyddum við mörgum kvöldum, helgum og hátíðisdögum bara tvær einar og fyrir það vil ég þakka þér.

Einnig vil ég þakka þér fyrir allar utanlandsferðir sem ég fór í með ykkur pabba þegar ég var lítil og eins í seinni tíð þegar við fórum til Kanarí á hverjum vetri.

Við áttum handavinnu sem sameiginlegt áhugamál. Þú passaðir alltaf upp á að allt sem ég gerði væri 100%. Áttir jafnvel til að rekja upp það sem ég var búin að sauma eða prjóna ef þér fannst það ekki nógu vel gert.

Þú varst mjög fróð um ættir og oft gott að hringja í þig til að fletta upp í öllum ættartölunum sem þú áttir, eiginlega varst þú undanfari Íslendingabókar.

Þú passaðir Ástu dóttur mína þegar ég þurfti að fara að vinna og hún ekki komin á leikskóla. Átti hún alltaf vísan stað hjá ömmu og afa á Þorfinns í öllum skólafríum.

Ég veit þú saknaðir pabba mikið, sem dó fyrir 11 árum. Þið höfðuð ferðast út um allan heim og örugglega ekki margir á þínum aldri sem fóru í yfir 80 utanlandsferðir sem allar eru skráðar samviskusamlega í stílabók. Í seinni tíð hafðir þú mjög gaman af að rifja þær upp og í leiðinni að skoða myndir úr ferðunum. Nú hafið þið sameinast í sumarlandinu og gangið hönd í hönd á ströndinni kaffibrún.

Hvíl í friði.

Þín dóttir,

Margrét.

 

Fyrstu minningar mínar um mömmu eru frá Þorfinnsgötu 8, húsinu sem afi byggði og þar bjó mamma í 81 ár. Fyrir minn tíma bjuggu í húsinu yfir fjörutíu manns en öllu færri undir síðustu aldamót. Á ungdómsárum mínum bjuggu þar margar konur sem stjórnuðu heimilum sínum og húshaldinu í heild, þar á meðal mamma mín og amma. Mamma var alltaf til staðar þegar maður kom heim og vakti yfir velferð okkar til hinstu stundar. Hún var kvik í hreyfingum, létt í spori og hljóp á milli hæða í húsinu. Hún var alltaf að, ef ekki inni að sýsla eitthvað, þá úti í garði að hlúa að blómum, reyta arfa, hugsa um matjurtagarðinn eða hreinsa stéttina í kringum garðinn. Þingholtin og miðbærinn voru hennar staðir og það var gaman að fara í göngutúr með henni um gamla bæinn. Hún þekkti til flestra húsanna, hver hafði byggt þau og búið þar fyrstu árin. Líf mömmu og pabba var gæfuríkt. Fyrstu fjörutíu árin komu þau upp börnum og búi, þar sem mamma var kletturinn í lífi pabba, síðan tóku við tuttugu góð ár þar sem þau nutu þess að eldast og vera saman. Mamma var trú sínum nánustu og varði tíma sínum til að hlúa að þeim. Þetta ár var henni erfitt þar sem heilsa og kraftur þrutu og sjúkdómurinn náði yfirhöndinni, en hún kvaddi þennan heim á sinn hátt, sátt og í hljóði umkringd sínum nánustu. Núna er hún farin inn í sumarlandið til ástvina sem á undan gengu. Ég sakna mömmu og þakka henni samfylgdina og lífið, en hennar vegna er ég jafnframt þakklátur því nú hefur hún fengið hvíld.

Minning hennar lifir.

Helgi Kjærnested.Morgunblaðið 26., september 2016.
 


Skráð af Menningar-Staður