Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

24.10.2016 07:36

Jóhann Gíslason - Fæddur 14. apríl 1949 - Dáinn 8. október 2016 - Minning

 Jóhann Gíslason.

 

Jóhann Gíslason - Fæddur 14. apríl 1949

- Dáinn 8. október 2016 - Minning

 

Jóhann Gíslason fæddist í Mundakoti á Eyrarbakka 14. apríl 1949. Hann lést á heimili sínu, í Kirkjuhúsi, Eyrarbakka, 8. október 2016.

Foreldrar hans voru Guðríður Vigfúsdóttir frá Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, f. 3. desember 1912, d. 1. apríl 1989, og Gísli Jónsson frá Mundakoti á Eyrarbakka, f. 27. febrúar 1906, d. 22. september 1965.

Systkini Jóhanns eru Ósk, f. 17. mars 1935, búsett í Hveragerði, Jón Gunnar, f. 14. maí 1939, búsettur á Eyrarbakka, Helgi, f. 28. janúar 1943, búsettur í Kópavogi, og Gísli Ragnar, f. 18. ágúst 1952, búsettur í Reykjavík.

 

Þann 15. maí 1971 kvæntist Jóhann Helgu Hørslev Sørensen, f. 5. janúar 1944, d. 5. nóvember 2000. Foreldrar hennar voru Valgerður Þ. Sørensen frá Gerðhömrum í Dýrafirði, f. 16. júní 1918, d. 29. nóvember 1998, og Thorvald Sørensen, f. í Árósum í Danmörku 1. júní 1914, d. 18. apríl 1970.

Jóhann og Helga eignuðust þrjú börn:

1) Guðrún, f. 8. febrúar 1971, maki Ólafur Einarsson, f. 27. júlí 1967. Þau eiga Hans Jörgen, f. 17. febrúar 2004. Guðrún á Jóhann, f. 25. febrúar 1993, og Ólafur Aðalheiði, f. 23. júlí 1996.

2) Gísli Ragnar, f. 11. febrúar 1974, maki Tenna Hørby, f. 4. maí 1973. Þau eiga Maira Alejandra, f. 12. nóvember 2004, og Paula Andrea, f. 28. nóvember 2006.

3) Kristinn Karel, f. 9. september 1984. Kristinn Karel á óskírða dóttur, f. 11. júlí 2016.

Helga átti soninn Hinrik Sævar, f. 9. nóvember 1966, maki Inger Cesilie Brendehaug, f. 17. apríl 1961, þau eiga Fransisku Björk, f. 4. júlí 1992, fyrir átti Hinrik soninn Hinrik Frey, f. 12. apríl 1989. Jóhann gekk Hinriki Sævari í föðurstað. Helga eignaðist Hafstein Ingimundarson, f. 3. júní 1969. Hafsteinn var ættleiddur og er í góðum samskiptum við fjölskylduna. Helga og Jóhann slitu samvistum árið 1998.

 

Jóhann ólst upp í Mundakoti á Eyrarbakka og gekk í öll störf allt frá því hann hafði aldur til. Hann fór snemma til sjós og stundaði sjómennsku í nokkur ár.

Jóhann lærði vélvirkjun við Iðnskólann á Selfossi og í Vélsmiðju Guðjóns Öfjörð og varð síðar meistari í greininni. Öll smíðavinna lá einkar vel fyrir honum sem og almenn heimilisstörf. Jóhann vann til fjölda ára hjá Bjarna og Jóhanni Jóhannssonum í Fiskiveri á Eyrarbakka og hætti þar þegar fyrirtækinu var lokað. Frá þeim tíma og fram til dauðadags vann Jóhann hjá Héðni í Hafnarfirði við stálsmíði. Í tengslum við starfið hjá Héðni fékk hann tækifæri til þess að vinna og dveljast á Austfjörðum, í Færeyjum og Noregi. Færeyjar heilluðu hann allra mest.

Jóhann bjó alla sína ævi á Eyrarbakka. Lestri bóka hafði hann hreina unun af. Hann var hafsjór fróðleiks, stálminnugur og gat þulið vísur og ljóð sem hann hafði lesið einu sinni.

 

Útför Jóhanns fór fram frá Eyrarbakkakirkju laugardaginn 22. október 2016.

___________________________________________________________________Minningarorð Óskar Gísladóttur

 

Elsku Jói bróðir.

 

Ég á eftir að sakna þín.

Mér er það minnisstætt þegar ég hélt á þér undir skírn á fermingardaginn minn. Ég hafði ekki hugmynd um hvað þú ættir að heita. Þegar kom að stóru stundinni reis ég upp af bekknum og fékk loks að vita hvert nafnið væri. Jóhann var það. Ekki hafði ég hugmynd um það þá hve náin við yrðum og hversu ljúfan og glaðan dreng ég hafði í fanginu. Frá því þú varst bara barn varstu uppfullur af fjöri. Uppátækjasemin hjá ykkur strákunum var mikil og risu heilu bátarnir og bílarnir upp frá grunni heima í Mundakoti. Frá því þú varst barn hefur þú litið lífið öðrum augum en við hin. Jákvæðnin og gleðin einkenndi þig og smitaðir þú okkur hin af lífsgleði þinni. Ég hafði unun af því að spjalla við þig og fá þig í heimsókn.

Það er skrítið að hugsa til þess að næstu jól og páska komir þú ekki færandi hendi með konfekt og stórsteikur. Mér þótti nú kannski ekki vænst um kræsingarnar heldur að njóta hugulseminnar. Ég hugsa hlýlega til þín, bróðir kær. Traustari vin eða bróður er vart hægt að hugsa sér. Ég geymi því minningarnar okkar eins og verðmætustu perlur.

 

Þín systir,

Ósk.

Morgunblaðið laugardagurinn 22. október 2016.

 

.
Jóhann Gíslason var einn af -Vinum alþýðunnar- sem hittast reglulega í morgunkaffi og spjall í Alþýðuhúsinu í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka.
Þessar myndir voru teknar að morgni föstudagsins 7. október 2016.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

.

.

.

.

 
Skráð af Menningar-Staður