Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

28.11.2016 07:53

María Bjarkar Árelíusdóttir - Fædd 5. nóvember 1943 -Dáin 17. nóvember 2016 - Minning

 

 

María Bjarkar Árelíusdóttir.

 

María Bjarkar Árelíusdóttir

- Fædd 5. nóvember 1943 -Dáin 17. nóvember 2016 - Minning 

 

María Ingibjörg Bjarkar Árelíusdóttir fæddist 5. nóvember 1943 á Eyrarbakka. Hún lést á sjúkrahúsinu á Selfossi 17. nóvember 2016.

 

Foreldrar Maríu voru sr. Árelíus Níelsson, f. 7. september 1910, d. 7. febrúar 1992, sóknarprestur, og Ingibjörg Þórðardóttir, f. 24. nóvember 1918, d. 13. nóvember 1978. Bræður Maríu voru Þórður Bjarkar, Ingvar Bjarkar, Rögnvaldur Bjarkar, Sæmundur Kristófer og Ingvar Heimir. Þeir þrír yngstu lifa systur sína.

 

Hinn 24. nóvember 1962 giftist María Steinari Berg Björnssyni, f. 11. febrúar 1942, viðskiptafræðingi. Synir þeirra eru: (1) Skarphéðinn Berg, f. 5. júlí 1963, kvæntur Sigríði Jóhannesdóttur. Þeirra börn eru Steinar Atli, Inga og Tryggvi. (2) Ingvar Berg, f. 6. apríl 1965, kvæntur Örnu Viktoriu Kristjánsdóttur. Börn Ingvars og Evu Melberg Jespersen eru María Lind og Gísli Karl. Sonur Örnu er Kristján Bjarni. (3) Sverrir Berg, f. 5. janúar 1969, kvæntur Ragnhildi Önnu Jónsdóttur. Þeirra börn eru Margrét Berg og Andri Berg.

 

Fyrstu árin ólst María upp á Eyrarbakka en flutti til Reykjavikur 1952 og gekk þá í Langholtsskóla. Hún útskrifaðist með verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands 1961 og með kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1963. Þá um haustið var hún ráðin kennari við Langholtsskóla og starfaði þar til ársloka 1969 en þá flutti hún til New York ásamt eiginmanni sem þá hóf störf hjá Sameinuðu þjóðunum. Í árslok 1970 flutti fjölskyldan til Vínarborgar og bjó þar til ársloka 1973 þegar hún flutti aftur heim til Íslands.

 

Þegar fjölskyldan snéri til baka til Íslands tók María aftur til starfa sem kennari við Langholtsskóla. Auk bekkjarkennslu yngri barna annaðist hún kennslu barna sem þurftu stuðning við námið. Hún starfaði einnig að ferðamálum um skeið sem fararstjóri erlendis og á ferðaskrifstofunni Atlantik. María var við nám í félagsfræði við Háskóla Íslands einn vetur.

 

Árið 1985 fór Steinar aftur til starfa hjá Sameinuðu þjóðunum og næstu tuttugu árin bjuggu þau víða erlendis. Lengi var það í New York en einnig í Austurríki, Kýpur, Króatíu, Kenía, Líbanon, Ísrael, Síerra Leóne og Líberíu.

 

Eftir að þau fluttu heim aftur áttu þau lengst af heima í Reykjavík en síðustu tvö árin í Hveragerði. Fóru þau hjónin jafnan þrisvar á ári í ferðalög en milli þess voru þau gjarnan í sumarhúsinu Maríubæ. Þar sinnti hún áhugamálum sínum, glerskurði og garðyrkju.

 

Útför Maríu fór fram frá Hveragerðiskirkju laugardaginn 26. nóvember 2016.Morgunblaðið 26. nóvember 2016.

 


Skráð af menningar-Staður