Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

08.12.2016 16:03

Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur - 75 ára

 

 

Gestur Ólafsson við Unuhús í Reykjavík.
 

 

 

Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur – 75 ára

Vill vandaðri, ódýrari og tæknilega betri íbúðirGestur Ólafsson fæddist á Mosvöllum í Önundarfirði 8. desember 1941

og ólst þar upp til sex ára aldurs en flutti þá með fjölskyldunni til Reykjavíkur.

 

Gestur lauk stúdentsprófi frá MR 1961, lauk prófi í arkitektúr í Leicester í Bretlandi 1966, stundaði framhaldsnám í skipulagsfræðum í Liverpool 1966-68 og síðar framhaldsnám og rannsóknir í skipulagsfræðum við University of Pennsylvania í Fíladelfíu í Bandaríkjunum 1973. Hann hlaut rannsóknarstyrk frá Rannsóknarráði 1968 til að rannsaka skipulag verslunarhverfa víða í Evrópu, hlaut styrk frá Independence Foundation til að kynna sér skipulag í Bandaríkjunum 1972 og sótti námskeið í umhverfismati við University of Aberdeen 1982.

 

Gestur rak Teiknistofuna Garðastræti 17, 1968-80, og skipulagði þá marga bæi hér á landi, m.a. Selfoss, Hveragerði, Hellu og Akureyri, auk þess sem hann og samstarfsmenn hans breyttu Lækjartorgi og Austurstræti í göngusvæði og hönnuðu byggingar víða um land.

 

Gestur var stundakennari í skipulagsfræðum við Verkfræðideild HÍ frá 1974 og hlutadósent til 1988.

 

Gestur var forstöðumaður Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins og framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 1980-88, en þá unnu hann og Skipulagsstofan m.a. svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið. Hann rekur nú Skipulags-, arkitekta- og verkfræðistofuna ehf. í Reykjavík.

Gestur hefur haldið fyrirlestra um skipulagsm

ál og byggingarlist hér á landi og erlendis, hefur ritað fjölmargar greinar um þessi mál í blöð og tímarit, var ritstjóri Stefnis um skeið og var útgefandi og ritstjóri tímaritsins Arkitektúr og skipulag (AVS) í tvo áratugi.

 

Gestur stofnaði Útimarkaðinn á Lækjartorgi með Kristni Ragnarssyni arkitekt árið 1978 og starfræktu þeir hann þar til Reykjavíkurborg hóf rekstur útimarkaðar á þessu svæði.

 

Hann hefur átt sæti í stjórn Arkitektafélags Íslands, Kvenréttindafélags Íslands og félagsins Verkefnastjórnun. Hann var einn af stofnendum umhverfissamtakanna Lífs og lands og síðar formaður þess. Þá var hann formaður Skipulagsfræðingafélags Íslands um skeið og forseti Rotaryklúbbsins Reykjavík miðborg. Þá hefur hann setið í ýmsum nefndum, m.a. á vegum Reykjavíkurborgar og ríkisins.

 

Gestur er fyrsti háskólakennari í skipulagsfræðum hér á landi og hefur um árabil rætt og ritað um mikilvægi skipulags á umhverfismótun, samspil mannlífs og umhverfis og gæði, hagkvæmni og tækni í gerð íbúðabygginga: „Við erum því miður enn að byggja allt of dýrt íbúðarhúsnæði fyrir ungt fólk. Í þokkabót er svo þetta húsnæði oft illa unnið, of oft með myglusveppi og tæknilega illa gert. Okkur skortir því enn upplýsta umræðu og gagnrýni á gerð, kostnað og gæði íbúðarhúsnæðis.“

 

Þá hafa Gestur og Árni Gunnarsson, fyrrv. alþm. og framkvæmdastjóri NLFÍ í Hveragerði, unnið að sínu sameiginlega áhugamáli um heilsuþorp fyrir Íslendinga, með augastað á Flúðum og á Spáni.

 

Fjölskylda

Kona Gests er Guðbjörg Garðarsdóttir, f. 23.9. 1952, bókasafns- og upplýsingafræðingur. Hún er dóttir Garðars Ingimarssonar bifvélavirkja og Magneu Jónsdóttur húsmóður, sem er látin.

 

Dóttir Gests og Guðbjargar er Guðrún Sóley, f. 4.9. 1987, bókmenntafræðingur sem sér með fleirum um Morgunútgáfuna á Rás 2.

 

Synir Gests og f.k.h., Ernu Ragnarsdóttur, Jónssonar í Smára af Eyrarbakka, eru Ragnar Kristján, f. 4.8. 1964, kennari á Eyrarbakka, kvæntur Hildi Jónsdóttur og eiga þau níu börn, og Ólafur Hrólfur, f. 4.12. 1969, forritari í Reykjavík, en kona hans er Jódís Bjarnadóttir og á hann tvær dætur auk þess sem Jódís á tvo syni frá fyrra hjónabandi.

 

Stjúpsonur Gests og sonur Guðbjargar er Sveinn Björnsson, f. 17.12. 1970, verkfræðingur í Reykjavík, en kona hans er Sveinbjörg Þórhallsdóttir og eiga þau saman einn son auk þess sem Sveinn á dóttur frá fyrra hjónabandi og Sveinbjörg á tvær dætur frá fyrra hjónabandi.

 

Systkini Gests: Valdimar, f. 13.8. 1926, d. 2.4. 2008, yfirflugumferðarstjóri í Reykjavík; Ingileif Steinunn, f. 8.8. 1931, húsfreyja á Bólstað í Bárðardal; Kristján Guðmundur Ólafsson, f. 15.6. 1937, d. 28.10. 1963, menntaskólanemi.

 

Foreldrar Gests: Ólafur Bergþór Hjálmarsson, f. 26.8. 1903, d. 30.8. 1986, bóndi og síðar efnisvörður hjá Olíuverslun Íslands, og k.h., Ragnheiður Guðmundsdóttir, f. 25.10. 1902, d. 7.4. 1991, húsfreyja.

 

 

 Morgunblaðið 8. desember 2016


Skráð af Menningar-Staður