![]() |
Bókakaffið á Selfossi stendur fyrir menningarviðburðum á aðventunni
Fjórða og næstsíðasta jólaupplestrarkvöld Bókakaffisins á Selfossi verður fjölbreytt, en þar munu koma við sögu samkvæmt tilkynningu Jón lærði, íslenskir barnaræningar, göfugar kellíngar, draumar franskra skáldkvenna, húsvitjanir í Suðursveit og fréttakonan Sigríður Hagalín les einkennilegar fréttir af áður óþekktum hörmungum landans.
Samkoman er á Austurvegi 22 á Selfossi í kvöld, fimmtudagskvöld 15. desember 2016, og húsið opnað kl. 20 en lestur hefst kl. 20.30 og stendur í um klukkutíma.
Þeir sem lesa þetta kvöld eru fyrrnefnd Sigríður Hagalín sem sendir frá sér skáldsöguna Eyland, Viðar Hreinsson sagnfræðingur sem skrifað hefur um Jón lærða, Óskar Magnússon sem sendir frá sér glæpasöguna Verjandinn, Sváfnir Sveinbjarnarson sem sendir frá sér minningabókina Á meðan straumarnir sungu, Guðrún Ingólfsdóttir sem les úr handritum kvenna af fyrri tíð og síðast en ekki síst Þór Stefánsson ljóðskáld sem kynnir þýdd ljóð franskra skáldkvenna sem koma út í bók hans Frumdrög að draumi.
Allir eru hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Lofað er notalegri jólastemningu og hið rómaða kakó hússins verður á sérstöku tilboði í tilefni dagsins.
![]() |
||||||||||||
.
.
|
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is