Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

17.12.2016 08:48

Opið hús í Konubókastofu á Eyrarbakka um helgina

 

 

Bjarni Harðarson og Anna í Túni.

 

Opið hús í Konubókastofu á Eyrarbakka um helgina
 

17. og 18. desember 2016

 

Konubókastofa hóf starfsemi sína fyrir rúmlega þremum og hálfu ári síðan. Á þessum tíma hefur sýnt sig að þörf er á stað sem þessum þar sem hægt er að fræðast um íslenska kvenrithöfunda og verkin þeirra. Titlarnir eru að nálgast 2500 og nánast allt efni hefur verið gefið af einstaklingum, höfundum, útgáfum og bókasöfnum.

Í sumar ákvað bæjarstjórn Árborgar að leyfa Konubókastofu að nota tvö herbergi í húsinu Blátúni í stað eins. Við fengum herbergið afhent þann 1. október og höfum verið að mála og gera herbergið undirbúið fyrir okkar starfsemi. Við fengum líka að opna á milli herbergjanna tveggja þannig að núna er komið mjög gott pláss og miklu auðveldara að taka á móti gestum. Við fáum líka að nota gang og eldhús með almenningsbókasafninu sem er á annarri hæð.

Vegna alls þessa var ákveðið að setja upp sýningu á plássinu sem við höfum. Þar verða ýmsar upplýsingar um höfunda og verkin þeirra. Upplýsingarnar verða bæði á ensku og íslensku þar sem erlendum gestum er að fjölga. Uppbyggingasjóður Suðurlands veitti Konubókastofu styrk upp á 500.000 krónur í þetta allt saman.

Verið er að hanna bækling með upplýsingum um starfsemina bæði á ensku og íslensku. Einnig er verið að endurhanna og bæta heimasíðuna og undirbúa hana fyrir það að vera á fleiri tungumálum auk annars. Á heimasíðunni www.konubokastofa.is er hægt að sjá hvaða efni er til hjá okkur og þá um leið hvað vantar í safnið.

Sjónvarpsmenn frá þættinum Að sunnan á N4 komu í heimsókn í haust og tóku viðtal við mig um safnið. Sá þáttur var síðan sýndur 19. nóvember. Sjá má þáttinn á heimasíðu N4.

Vorönnin mun fara í að klára að setja upp sýninguna og undirbúa starfsemina fyrir gestakomu sumarið 2017. Þá verður vonandi opið á hverjum degi. Á sumardaginn fyrsta 20. apríl 2017 verður dagskrá þar sem fram munu koma kvenhöfundar sem skrifa glæpasögur. Helstu rithöfundarnir okkar á því sviði hafa boðað komu sína og stefnt er á að hafa þarna fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Nánar um það síðar.

 

Helgina 17. og 18. desember klukkan 14–16 verður opið hús hjá okkur og þá er hægt að sjá hvernig plássið er orðið. Sýningin verður örugglega ekki alveg komin upp en það verður kynning á henni.

 

Með þessum orðum vil ég bjóða ykkur velkomin þann 17. og 18. desember og um leið vil ég óska ykkur alls hins besta.
 

Anna í Túni

 

Skráð af Menningar-Staður