Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

28.12.2016 20:22

Umkringd listaverkum

 
 
 

 

Umkringd listaverkum

Inga Birgitta Spur, fyrrverandi forstöðumaður – 85 ára
Tengdadóttir Eyrarbakka

 

Inga Birgitta Spur fæddist í Husby á Fjóni í Danmörku 28. desember 1931 og ólst þar upp. Hún lauk Præliminæreksamen í Óðinsvéum 1949 og stundaði nám í höggmyndalist við Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn 1952–54 hjá E. Utzon-Frank og Johannes C. Bjerg. Birgitta vann við heimilisstjórn og barnauppeldi í tvo áratugi. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1977, BA-prófi í dönsku og íslensku frá Háskóla Íslands 1980, prófi í uppeldis- og kennslufræði 1981 og kenndi dönsku á árunum 1980-85. Hún nam listasögu við HÍ 1984–85 og við Kaupmannahafnarháskóla 1985–86.

 

Síðla árs 1984 stofnaði Birgitta Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og veitti því forstöðu til 2012, þegar safnið var gefið íslenska ríkinu. Hún hefur ritstýrt á þriðja tug rita, sem komið hafa út á vegum safnsins, m.a. Sigurjón Ólafsson ævi og list, sem kom út í tveimur bindum árin 1998 og 1999 og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1999. Birgitta varð íslenskur ríkisborgari 1980 og sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1989.

 

„Sem barn fannst mér heldur leiðinlegt að eiga afmæli á fjórða í jólum, því það vék fyrir jólagleði barnanna sem haldin var í samkomuhúsinu í Husby þar sem faðir minn, presturinn, leiddi sönginn. Foreldrar mínir bættu mér þetta upp með því að halda upp á hálfsársafmæli í lok júní,“ segir Birgitta.

 

Í ætt Birgittu koma fyrir nokkur fuglanöfn. „Auk ættarnafns míns Spur (spör), sem rekja má allt aftur til 1580, eru nöfnin Swane (svanur) og Rafn (hrafn). Sjálf er ég skírð í höfuðið á langalangalangömmu minni, Birgitte Swane, móður Bernhards Severins Ingemanns sem varð ástsælt skáld í Danmörku. Mér hefur oft orðið hugsað til þessarar formóður minnar, sem missti eiginmann sinn frá stórum barnahópi. Til að sjá sér og börnum sínum farborða bruggaði hún edik, en hún lagði allt í sölurnar til þess að Bernhard Severin kæmist til mennta,“ segir Birgitta og bendir á að í Prestbakkakirkju á Síðu sé altaristafla sem eiginkona Ingemanns, Lucie Maria Mandix, málaði.

 

„Aðaláhugamál mín hafa frá upphafi verið bókmenntir, tónlist og fagrar listir. Ég er því þakklát fyrir að hafa lifað innihaldsríku lífi með eiginmanninum mínum, Sigurjóni, og eftir hans dag innan um listaverk hans á þeim stað sem þau voru sköpuð.“

 

Fjölskylda

Birgitta giftist 5.1. 1956 Sigurjóni Ólafssyni, f. 21.10. 1908, d. 20.12. 1982, myndhöggvara frá Eyrarbakka. Foreldrar hans voru Guðrún Gísladóttir, f. 1867, d. 1958, verkakona á Eyrarbakka og í Reykjavík, og Ólafur Árnason, f. 1855, d. 1935, verkamaður á Eyrarbakka og í Reykjavík.

Börn Birgittu og Sigurjóns eru:

1) Ólafur Spur Sigurjónsson, f. 17.04. 1953, sellóleikari í Kaupmannahöfn, kona hans er Rie Munk Spur, deildarstjóri, og dóttir þeirra Camilla Munk Spur, kennari. Fyrir átti Ólafur, með Huldu B. Hákonardóttur, dótturina Silju Björk Huldudóttur, bókmenntafræðing, sem á soninn Högna Nóam;

2) Hlíf Sigurjónsdóttir, f. 17.9. 1954, fiðluleikari, maður hennar er Geirfinnur Jónsson, jarðeðlisfræðingur, og synir þeirra Jón Hlífar og Böðvar Ingi;

3) Freyr Sigurjónsson, f. 19.9. 1957, flautuleikari í Bilbao, kona hans er Begoña Garzia Garzia. Með Margaritu Reizabal á hann Sigurjón og Ingu; 4) Dagur Sigurjónsson, f. 12.1. 1959, þroskaþjálfi í Kaupmannahöfn.

Systir Birgittu var Thora Johanne Spur, f. 1934, hjúkrunarfræðingur í Kaupmannahöfn, látin 2003.

 

Foreldrar Birgittu voru Erik Spur, f. 1890, d. 1971, prestur í Husby á Fjóni, og Åsta Munck, tónlistarkennari f. 1906, d. 1970.

 

.Morgunblaðið miðvikudagurinn 28. desember 2016.


Skráð af Menningar-Staður