Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

13.04.2017 16:59

Eldri borgara í sveitarstjórnir

 

 

Sigurður Jónsson, formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum.

 

 

Eldri borgara í sveitarstjórnir

 

 

Eldri borgarar landsins eru stór hópur kjósenda á Íslandi og fer fjölgandi. Mörgum í þessum hópi finnst vanta þónokkuð upp á að nægjanlegt tillit sé tekið til þessa stóra hóps. Auðvitað eru kjör eldri borgara misjöfn, en það er verulega stór hópur sem hefur það ekki gott fjárhagslega.

Eldri borgarar þurfa að láta mun meira í sér heyra. Það eru fjölmörg baráttumál sem við eldri borgarar þurfum að berjast fyrir. Landsfundur eldri borgara verður 23. og 24. maí nk., þar verður stefnan mörkuð til næstu tveggja ára.

Að undanförnu hafa Öldungaráð verið stofnuð í mörgum sveitarfélögum. Þau eru skipuð fulltrúum félaga eldri borgara ásamt fulltrúum, sem valdir eru af sveitarstjórnum. Öldungaráð eru til ráðgjafar sveitarstjórnarfólki um hagsmunamál eldri borgara. Vissulega gott og þarft framtak, en er það nóg?

 

Kjósum okkar fulltrúa í sveitarstjórnir

Við þurfum að láta mun meira að okkur kveða í réttindabaráttu okkar eldri borgara. Það verður best gert með því að komast til beinna áhrifa í sveitarstjórnum og á vettvangi Alþingis.

Nú er aðeins rúmt ár þar til gengið verður að kjörborðinu til að velja fulltrúa í sveitarstjórnir landsins. Það á að vera okkar næsti áfangi til að við eldri borgarar höfum vettvang til beita okkur við að hafa áhrif á okkar nærumhverfi. Ég er ekki að tala um sérframboð eldri borgara, heldur verðum við að berjast til að koma okkar fólki í eitt eða fleiri af efstu sætunum á þeim lista sem við teljum okkur eiga samleið með.

Það er góð byrjun að leita eftir áhrifum í sveitarstjórnum. Það er væntanlega lengra í alþingiskosningar, en við eigum einnig að setja stefnuna á að ná árangri á þeim vettvangi.

Við eldri borgarar náum ekki árangri nema við berjumst sjálf fyrir úrbótum á stöðu okkar í samfélaginu.

 

Eftir Sigurð Jónsson

Höfundur er formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum.

 

Morgunblaðið 13. apríl 2017.


Skráð af Menningar-Staður