Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

19.04.2017 07:27

Sesselja Ásta Erlendsdóttir - Fædd 28. sept. 1921 - Dáin 2. apríl 2017 - Minning

 

Sesselja Ásta Erlendsdóttir (1921 - 2017)

 

Sesselja Ásta Erlendsdóttir - Fædd 28. sept. 1921

- Dáin 2. apríl 2017 - Minning
 

Sesselja Ásta Erlendsdóttir fæddist í Reykjavík 28. september 1921. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Fossheimum á Selfossi 2. apríl 2017.

Foreldrar hennar voru Erlendur Jónsson, skipstjóri á Stokkseyri, og Vigdís Guðmundsdóttir húsmóðir. Systkini hennar eru Guðbjörg sem er látin, eftirlifandi er Jón.

Þann 31. mars 1945 giftist hún Hirti Leó Jónssyni, Hjörtur Leó fæddist á Kambi í Deildardal í Skagafirði 26. maí 1918, hann lést 24. apríl 2007. Foreldrar hans voru Hólmfríður Rannveig Þorgilsdóttir og Jón Halldór Árnason, bændur á Kambi.

Börn Hjartar og Ástu eru:
1) Jón Erlendur, f. 8. mars 1946, d. 16. ágúst 2001,

2) Vigdís, f. 2. mars 1951, gift Þórði Grétari Árnasyni, f. 26. mars 1950. Börn þeirra eru: a) Þórdís Erla, börn hennar og Guðjóns Ægis Sigurjónssonar sem er látinn eru: Hjörtur Leó og Harpa Hlíf. Sambýlismaður Þórdísar eru Sigurlaugur Birgir Ólafsson. b) Árni Leó, hann á Vigdísi Höllu.

3) Hreinn, f. 13. mars 1956, kvæntur Iðunni Ásu Hilmarsdóttur, f. 22. maí 1961. Þau skildu. Börn þeirra eru: a) Ásta Huld, dóttir hennar er Iðunn Gígja sambýlismaður Ástu Huldar er Trausti Einarsson. b) Hjördís Gígja, sambýlismaður hennar er Arnór Brynjarsson, börn þeirra eru Emil Gauti og Sunneva Ýr. c) Hreinn Orri.

 

Á sínum bernskuárum bjó Ásta með fjölskyldu sinni í Gaulverjabæ og gekk í barnaskóla þar. Hún fór í Húsmæðraskólann á Hverbökkum. Hún og eiginmaður hennar bjuggu ásamt börnum sínum lengst af á Eyrarbakka. Meðfram húsmóðurstörfum sem hún sinnti af mikilli kostgæfni tók hún þátt í kartöflu- og jarðrækt sem þau hjónin voru með, þá vann hún einnig í frystihúsinu. Þau hjón áttu um tíma bústað í Skagafirði, voru þar í skógrækt og nutu góðra stunda.

 

Útför Sesselju Ástu verður gerð frá Selfosskirkju í gær, 18. apríl 2017

__________________________________________________________________________

 

Minningarorð Þórðar Grétars Árnasonar
 

Fallin er nú frá tengdamóðir mín, Sesselja Ásta Erlendsdóttir, á 96. aldursári.

Mín fyrstu kynni af Ástu, eins og hún var jafnan nefnd, voru árið 1969 er ég kynntist dóttur hennar sem síðar varð eiginkona mín. Ásta tók mér vel er ég fór að venja komur mínar á heimili þeirra hjóna Ástu og Hjartar. Gjarnan voru þessar fyrstu heimsóknir eftir böll og var maður ekki alltaf rishár þegar kallað var í sunnudagssteikina og graut á eftir. Ásta gaf sér varla tíma til að borða sjálf því hún var að passa upp á að allir fengju nóg. Hún var þessi dæmigerða húsmóðir af gamla skólanum sem því miður eru að tína tölunni. Ekki leið á löngu eftir að við Vigdís fórum að vera saman, þar til bankaði ungur piltur upp í Káragerði og vildi hafa tal af Ástu, og erindið var að hann vildi vara hana við að dóttirin væri farin að vera með strák frá Stokkseyri, sem væntanlega þætti ekki gott.

Ásta var sannarlega húsmóðir af gamla skólanum því hún var alltaf fyrst fram á morgnana og var búin að hella á kaffi og smyrja þegar aðrir komu fram og gjarnan var hún síðust í háttinn.

Fyrst í stað bjuggum við Vigdís heima í Káragerði. Ég vann á Selfossi og passaði tengdamóðir mín vel upp á að nesta tengdasoninn. Ásta var fróð og minnug og fylgdist vel með öllum í fjölskyldunni og öðrum sem hún þekkti. Hún var afar orðvör og fann að, ef henni líkaði ekki eitthvað sem sagt var.

Þau Ásta og Hjörtur eignuðust sumarhús norður í Skagafirði og nutu þau þess að dvelja þar. Oft fórum við norður að heimsækja þau þar, þó ekki væri nema um helgi.

Eftir að hafa búið á Eyrarbakka í 49 ár fluttust þau á Selfoss og varð það til þess að enn oftar var litið inn til þeirra. Ásta var afar trygg og hjálpsöm og nutum við þess hjónin er okkur vantaði barnapíu eða eitthvað annað og var það alltaf sjálfsagt.

Eftir 47 ára samfylgd er margs að minnast en fyrst og fremst minnist ég hversu trygg og traust hún var og hvað hún reyndist mér vel.

 

Takk fyrir samfylgdina, Ásta. Þinn tengdasonur,
 

Þórður Grétar Árnason.

Morgunblaðið 18. apríl 2017Skráð af Menningar-Staður