Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

29.08.2017 07:07

Tungumálið togar í mig

 

 

„Fyrir utan allt annað þá eru það forréttindi fyrir mig

að fá verðlaun sem afhent eru í fínasta skáldskaparbæ á landinu,

sjálfu Reykholti,“ sagði Steinunn meðal annars í ræðu sinni.

 

Tungumálið togar í mig

 

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur hlaut nýlega verðlaun úr Minningarsjóði Guðmundar Böðvarssonar, skálds á Kirkjubóli í Hvítársíðu, og Ingibjargar Sigurðardóttur, konu hans.

Það er mér sérstakur heiður og innileg ánægja að veita við- töku þessum fínu, sjaldgæfu ljóðaverðlaunum sem kennd eru við Guðmund Böðvarsson, uppáhaldsskáld – ljúfling og bónda. Takk fyrir mig, af öllu afli,“ sagði Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur á samkomu í Reykholti í Borgarfirði sem bar upp á afmælið hennar síðasta laugardag, 26. ágúst 2017. 

Fyrst fór hún með ljóðið  Kyssti mig sól  eftir Guðmund, hélt tölu um tengsl skálda við sveitina og fór með tvö ný ljóð úr eigin smiðju.

„Verðlaunin voru rausnarleg og athöfnin öll dásamleg. Hún Steinunn Jóhannesdóttur rithöfundur, sem situr í dómnefnd, flutti fyrirlestur um mig og verk mín og gerði það af alúð og innlifun. Þjóðlagasveitin Slitnir strengir, sem hlaut borgfirsku menningarverðlaunin, spilaði tvo írska ræla mér til heiðurs af því ég lærði í Dublin! Svo voru þjóðlegar veitingar,“ segir Steinunn ánægð að viðburðinum loknum. 

Guðmundur Böðvarsson lést 1974. Fyrst var veitt úr minningarsjóði hans og konu hans árið 1994 og þetta var 10. úthlutun. 

Steinunn segist hafa átt hamingjudaga á Kirkjubóli meðan þar var rithöfundaból og saman tvinnuðust skriftir og skemmtilegar stundir með fjölskyldunni á bænum. Ekki ryðgar Steinunn í tungumálinu þó hún dvelji löngum stundum í Frakklandi.

„Ég bý nú með tónskáldinu mínu, honum Þorsteini og svo les ég alltaf mikið á íslensku. En stundum finn ég fyrir því að mig langar að tala meira á íslensku og það sem togar í mig heim er ekki síst tungumálið.“ 

Hún hefur áhyggjur af lestrargetu íslenskra barna og því að þegar hún skoði smart heimili á Íslandi á netinu sjáist þar aldrei bók. „Eitt af því sem er aðlaðandi við Frakkland er að þar er bóklestur í tísku,“ segir hún og telur auðvelt að hlúa að íslenskri bókaútgáfu með því að afnema virðisaukaskatt og styðja betur við starf bókasafna. „En það sem er vel gert hér á landi eru starfslaunasjóðir listamanna. Án þeirra væri ég fyrir löngu farin út í blómaskreytingar.“

Fréttablaðið.

 Reykholtskirkja í Borgarfirði. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 
Skráð af Menningar-Staður.