![]() |
Eyrbekkingurinn Jón Ingi Sigurmundsson. |
Myndlistarfélag Árnessýslu heiðraði Jón Inga Sigurmundsson á Hótel Selfoss sl. fimmtudag en hann er einn af traustustu félagsmönnum í félaginu. Jón Ingi er búinn að starfa með félaginu allt frá því að það var stofnað af félagsmönnum Félags frístundamálara 1981. Áður hefur Myndlistarfélag Árnessýslu heiðrað tvo félaga sína, fyrst Gróu Bjarnadóttur og síðar Bjarna H. Joensen.
Myndir Jóns Inga eru í anddyri Hótels Selfoss og verða þær til sýnis í 4 til 5 mánuði. Jón Ingi er ennþá á fullu að sinna list sinni. Nýlega var hann á vatnslitanámskeiði, þar var hann að mála mynd á Þingvöllum. Jón Ingi er um þessar mundir þátttakandi á sýningu sem er í Norræna húsinu og er á vegum Norræna vatnslitafélagsins.
Jón Ingi er Eyrbekkingur og lauk kennara- og tónmenntakennaraprófi 1954 og hefur verið búsettur á Selfossi frá því að hann hóf kennslustörf þar sama ár. Fyrst við Barna- og Miðskólann á Selfossi ásamt Tónlistarskóla Árnessýslu, síðar sem aðstoðarskólastjóri og skólastjóri við Gagnfræðaskólann – Sólvallaskóla.
Jón Ingi var skólastjóri Tónlistarskóla Árnessýslu um fjögur ár og hefur starfað ásamt almennri kennslu, nær óslitið við tónlistarkennslu, m.a. verið stjórnandi Stúlknakórs Gagnfræðaskólans á Selfossi og Kórs Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þá stundaði hann framhaldsnám í Danmörku.
Víða hefur verið skrifað um feril Jóns Inga bæði í list og tónum og hann hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir störf sín. Oft hefur Jón Ingi verið heiðraður fyrir störf sín, nú síðast var hann heiðraður í október á „Selfosstónum“ fyrir óeigingjarnt framlag til tónlistarsamfélags, hér á Selfossi.
Dagskráin.
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is