Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

21.04.2018 08:25

Við búum að því að eiga einstaka smiði

 

 

 

Við búum að því að eiga einstaka smiði

 

Magnús Karel Hannesson segir að Eyrarbakki eigi sér framtíð sem hann byggi á fortíðinni og að gamla götumyndin sé stór þáttur í því. „Nú þegar þjónusta við ferðamenn er að verða einn helsti atvinnuvegur þjóðarinnar, þá eru mikil verð- mæti sem við eigum hér og eru fólgin í þessari gömlu byggð,“ segir Magnús sem opnaði ljósmyndasýningu á Selfossi með myndum af gömlum Eyrarbakkahúsum.

 

Við höfum alltaf gefist upp á að finna skýringu á því hvers vegna svona mörg gömul hús hér á Eyrarbakka eru enn uppistandandi í upprunalegri mynd. Ég hef stundum sagt að líklegast höfðu Eyrbekkingar ekki efni á öðru en að búa í þessum húsum, sem er þakkarvert, því fyrir vikið hafa þessi hús varðveist,“ segir Magnús Karel Hannesson sem opnaði sl. fimmtudag í Listagjánni í Bókasafni Árborgar á Selfossi sýninguna Miðbærinn – söguleg byggð, en hún inniheldur ljósmyndir hans af gömlum húsum á Eyrarbakka. Magnús segir að á Eyrarbakka sé best varðveitta eldri götumynd á öllu Suðurlandi og að hún sé helsta sérkenni þorpsins.

 

„Hér er ekta söguleg heildstæð byggð með húsum, sem flest eru byggð frá 1890 til 1915. Þetta eru að langmestu leyti alþýðuhús þar sem bjuggu verkamenn og sjó- menn, ásamt fjölskyldum sínum.

 

Líka í eigu utansveitarfólks

 

Í gegnum tíðina hefur verið menningarlegur áhugi í samfélaginu hér á Eyrarbakka fyrir því gamla, sem byggist á okkar gömlu sögu. Eyrarbakki var höfuðstaður Suðurlands, bæði verslunar- og menningarmiðstöð. Einn liður í varðveislu gamalla húsa á Eyrarbakka er sá að í kringum 1980 fara Reykvíkingar að kaupa hér gömul hús og upp úr 1985 fóru endurbætur á þeim á skrið. Hér eru því margar fasteignir í eigu utansveitarfólks sem hefur lagt metnað sinn í að endurgera þessi hús.

Undanfarin fimmtán til tuttugu ár hefur fólk komið sér upp frístundahúsum hér í þorpinu og er það fólk farið að taka miklu meiri þátt í samfélaginu en áður og dvelur hér lengur. Sumir eru nánast allan ársins hring, en áður var þetta mest yfir sumartímann. En ýmsir heimamenn hafa líka gert hér upp hús. Við búum að því að eiga einstaka smiði sem hafa lagt mikið af mörkum við endurbyggingu húsa, bæði á eigin vegum og fyrir aðra.“

 

Hundrað þúsund manns á ári

 

Öll þessi gömlu fallegu hús hafa aðdráttarafl fyrir ferðamenn og Magnús segir að Eyrarbakki eigi sér þannig framtíð sem hann byggi á fortíðinni.

 

„Þessi gamla götumynd er gríð- arlega stór þáttur í því. Nú þegar þjónusta við ferðamenn er að verða einn helsti atvinnuvegur þjóðarinnar, þá eru mikil verðmæti sem við eigum hér og eru fólgin í þessari gömlu byggð,“ segir Magnús og bætir við að á síðari árum komi um hundrað þúsund manns ár hvert til Eyrarbakka.

 

„Þessi straumur er ekki aðeins á sumrin, umferð erlendra ferðamanna hér í gegnum þorpið, sumir gista en aðrir keyra í gegn.“ En ekki einvörðungu erlendir gestir gista á Eyrarbakka, Rithöfundasambandið á þar til dæmis gamalt uppgert hús sem stendur félagsmönnum til boða til að sinna ritstörfum.

 

„Hingað koma rithöfundar og andans menn og dvelja í þessu húsi og njóta þess að vera hér í kyrrðinni.“

 

Skyldi hafa fasta ársbúsetu 

 

Elsta húsið á Eyrarbakka er Húsið, en það var byggt árið 1765.

„Það var reist hér sem kaupmannshús, en fram að þeim tíma höfðu danskir kaupmenn ekki haft heimild til að hafa hér vetursetu, þeir komu á vorin en tóku sig upp að hausti. Danska verslunarfélagið ákvað að danskur kaupmaður skyldi hafa hér fasta ársbúsetu. Þetta sama ár voru á fjórum stöð- um á Vestfjörðum byggð svipuð tilsniðin hús. En aðeins tvö af þessum húsum eru enn uppistandandi, Húsið á Eyrarbakka og Faktorshúsið í Neðsta kaupstað á Ísafirði. Ríkissjóður á Húsið hér á Eyrarbakka og það er í umsjón Þjóðminjasafnsins, en Árnesingar reka það og þangað flutti Byggðasafn Árnesinga árið 1995 og hefur þar sínar föstu sýningar. Húsið er sannarlega höfuðdjásnið í því húsasafni sem hér er á Eyrarbakka.“

 

Draugarnir á Stokkseyri

 

Magnús býr sjálfur í gömlu húsi sem er frá því rétt fyrir aldamótin 1900.

„Við Inga Lára keyptum það árið 1982 þegar við byrjuðum að búa saman. Húsið var óeinangrað og við þurftum að gera heilmikið fyrir það, færðum glugga til upprunalegs horfs og ýmislegt fleira. Það er í eins upprunalegri mynd og hægt var að koma því í. Við keyptum seinna lítið hús sem stendur hér á baklóðinni og gerð- um það upp líka. Við gerðum einnig upp búðina hans Guðlaugs, en þessi þrjú hús eru öll á einu og sama lóðarnúmerinu. Þetta er hugsjón hjá okkur, því okkur finnst skipta miklu máli fyrir Eyrarbakka að það sé haldið í þessi gömlu hús.“

 

Magnús segir góðan anda vera í húsinu hans eins og flestum gömlum húsum, í þeim sé einstaklega notalegt að búa. „En við finnum vissulega fyrir veðrabreytingum; þegar kalt er úti getur orðið kalt hér inni, og þegar heitt er í veðri volgnar hér inni. Ef það blæs kröftuglega þá blæs í gegn,“ segir hann og hlær. Ekki segist hann hafa orðið var við nokkurn draug í sínu húsi. „Ég held að draugarnir hafi allir verið á Stokkseyri.“

 

.

.

 

.Morgunblaðið laugardagurinn 21. apríl 2018

Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.isSkráð af Menningar-Staður