Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

29.04.2018 11:37

Afmæli á Bakkanum

 


Anna í ríki sínu í Konubókastofunni sem þykir einstök á heimsvísu.

Mynd/Linda Ásdísardóttir

 

 

Afmæli á Bakkanum

 

Konubókastofa á Eyrarbakka er fimm ára um þessar mundir og því verður fagnað í Rauða húsinu á Eyrarbakka í dag, sunnudaginn 29. apríl 2018 kl. 14:00. Anna Jónsdóttir er stofnandi stofunnar.

 

Konubókastofa á Eyrarbakka var formlega opnuð með 200 manna hátíð í Rauða húsinu 25. apríl 2013  og haldið verður upp á fimm ára afmælið á sama stað í dag, sunnudag, klukkan 14.

 

Markmið stofunnar er að halda til haga þeim ritverkum sem íslenskar konur hafa skrifað í gegnum tíðina. Hugsjónakonan Anna Jónsdóttir segir hugmyndina að safninu hafa byrjað að gerjast hjá sér þegar hún var í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. En hvernig hefur gengið?

 

„Miklu betur en ég hafði reiknað með og það er ástæða til að halda upp á það,“ segir hún og kveðst fá  ótrú- lega mikið af bókum. Allt bækur eftir íslenskar konur og einnig  nokkrar sem  íslenskir karlar hafa skrifað um íslenskar konur. „Svo erum við líka með tímaritin sem konur hafa gefið út. Eigum til dæmis nokkur eintök af kvennablaðinu sem hún Bríet Bjarnhéðinsdóttir gaf út fyrir þarsíðustu aldamót.“

 

Hver er elsta bókin?

 

„Eins og stendur er það handavinnubók frá 1897 en við erum að fá aðra eldri,  ljóðabókina  Stúlku frá 1876, eftir Júlíönu Jónsdóttur sem var fyrst íslenskra kvenna til að gefa út skáldrit.

 

Eru þær til láns þessar bækur?

 

Nei, ég lána þær ekki. Fólk getur bara komið og flett og skoðað. Ég verð að halda í bækurnar, er voða leiðinleg og neita alltaf. En ég er með gott borð og stóla og það er mikið um að fólk komi, fletti og skoði. 

 

Hafðir þú einhverja fyrirmynd þegar þú fékkst hugmyndina?

 

„Ekki beint. En ég sá safn í Englandi, Chawton House Library,  sem er bara með bækur eftir konur og er opið einu sinni í viku. Þar eru yngstu bækurnar frá 1830. Svo veit ég um safn sem ég á eftir að skoða í Glasgow, það er nær þessu sem ég er með, þó segja margir að þetta safn sé einstakt.“

 

Er þetta hugsjónastarf hjá þér?

 

„Já, algerlega en ég hef fengið styrki, til dæmis fékk ég styrk til að halda afmælishátíðina,“ segir Anna og telur upp dagskráratriði eins og ávarp bæjarstjóra Árborgar,  Ástu Stefánsdóttur og erindi Dagnýjar Kristjánsdóttur pró- fessors um Ragnheiði Jónsdóttur rithöfund sem fæddist á Stokkseyri 1895. Einnig munu nokkrir verðlaunahafar Fjöruverðlaunanna  2017 og 18 fjalla um verk sín. Og að sjálfsögðu verður kaka!

 

gun@frettabladid.is
 Skráð af Menningar-Staður