Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

10.05.2018 07:04

Sjálfstæðismenn freista þess að ná meirihluta þriðja kjörtímabilið í röð

 

 

 

Sjálfstæðismenn freista þess

ná meirihluta þriðja kjörtímabilið í röð

 

Sjálfstæðismenn fara með hreinan meirihluta í bæjarstjórn Árborgar og freista þess að halda honum þriðja kjörtímabilið í röð. Ný könnun sýnir að róðurinn gæti orði þungur, þótt flokkurinn sé með mesta fylgið í bænum. Staða Miðflokksins og VG er sterk. 

 

 

Árborg

 

Sjálfstæðisflokkurinn myndi missa meirihluta sinn í Árborg ef kosið væri nú. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Fréttablaðið og frettabladid.is hafa gert.

 

Sjálfstæðisflokkurinn fengi tæp 30 prósent. Hann er þó langstærsti flokkurinn í sveitarfélaginu.

Mið- flokkurinn og VG yrðu næstir Sjálfstæðisflokknum, Miðflokkurinn með tæplega 14 prósenta fylgi en VG með rúmlega 13 prósent.

Samfylkingin fengi svo rúmlega 12 prósent, Áfram Árborg, sem er kosningabandalag Pírata, Viðreisnar og óháðra, fengi tæplega tólf prósent og Framsókn og óháðir fengju rúm 8 prósent. Öll fyrrgreind stjórnmála- öfl hafa tilkynnt framboð í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara 26. maí næstkomandi.

Svarendur Fréttablaðsins nefna hins vegar einnig fjölmörg önnur framboð sem þeir gætu hugsað sér að kjósa og fengju þau samanlagt rúmlega ellefu prósenta fylgi.

 

Fengi Sjálfstæðisflokkurinn 30 prósent greiddra atkvæða myndi það skila honum fjórum bæjarfulltrúum af níu í bæjarstjórn. Mið- flokkurinn, VG, Samfylkingin og Framsókn og óháðir myndu fá einn mann hver. Áfram Árborg, sem er kosningabandalag Viðreisnar og Pírata, myndi líka fá einn mann. Það yrði talsvert breytt staða frá kosningunum 2014, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk kjörna fimm menn og hreinan meirihluta. Samfylkingin fékk tvo menn kjörna, Framsókn fékk einn mann og Björt framtíð einn mann. 

 

VG fékk ekki kjörinn fulltrúa í kosningunum 2014 og því kæmi fulltrúi flokksins nýr inn í sveitarstjórnina núna, eins og fulltrúi Mið- flokksins. Miðbæjarskipulagið á Selfossi og fráveitumál sveitarfélagsins munu verða í brennidepli í komandi kosningabaráttu.

 

Aðferðafræðin

 

Hringt var í 669 manns með lögheimili í Árborg þar til náðist í 605 samkvæmt lagskiptu úrtaki 3. maí. Svarhlutfallið var 90,4 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir aldri. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til sveitarstjórnarkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk? Alls tók 48,1 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Þá voru 13,3 prósent sem sögðust ekki ætla að kjósa eða ætla að skila auðu, 25,8 prósent sögðust óákveðin og 12,9 prósent vildu ekki svara spurningunni.

 

Efstu sæti:

 
Fréttablaðið 4. maí 2018.Skráð af Menningar-Staður