![]() |
Erna Gísladóttir og forystusauðurinn Pjakkur skilja hvort annað, til þess þarf ekki mannamál. Erna heldur um 20 kindur sér til ánægju á Eyrarbakka þar sem hún er fædd og uppalin.
Ég man ekki eftir mér öðruvísi en að kindur væru hluti af lífinu á bernskuárum mínum hér á Eyrarbakka. Pabbi var alltaf með lítinn kindahóp, fyrst var hann með kindakofa í þorpinu en flutti hann svo hingað upp eftir árið 1982. Ég tók við kindunum hans þegar hann féll frá árið 1995. Það kviknaði í kindakofanum okkar fyrir fjórum árum og þá byggðum við nýtt stæðilegt fjárhús á sama grunni og köllum það alltaf kofann,“ segir Erna Gísladóttir þar sem hún stendur umkringd kindunum sínum í grængresinu við Háeyrarveg rétt utan við Eyrarbakka. Erna á um 20 fullorðnar kindur sem hún heldur sér til gamans og sautján báru lömbum í vor.
„Ég á ekki allar þessar kindur sem eru hér í stykkjunum, vinafólk okkar, Gummi og María, eiga hluta af þessu fé. Það er gott að vera í þessu með öðru fólki, við skiptumst á að gá að þeim og erum þá nógu mörg til að smala þeim,“ segir Erna sem er eigandi beitilandsins sem eru þrjú samliggjandi stykki, Akureyri, Akranes og Akurey.
„Við sleppum þeim svo yfir sumarið vestur í mýri hér upp með ánni, þar sem fuglafriðlandið er, þar ganga allar kindur Eyrbekkinga saman yfir sumarið. Stór hluti þeirra sem búa í þorpinu er með kindur, það eru mörg hundruð kindur á vetrarfóðrum hér. Á haustin er svo öllu fé Eyrbekkinga réttað í Skúmstaðarétt, þá er líf og fjör.“
Fjárstofn Ernu samanstendur af 17 fullorðnum kindum, en auk þess á hún tvær veturgamlar gimbrar, tvo sauði og einn undaneldishrút. Og auðvitað öll lömbin sem komu í heiminn í vor. „Frjósemin var bara fín, en ég fékk ekki eins mörg mislit lömb og ég hefði viljað, aðeins þrjár gráar gimbrar og einn svartan hrút. Öll hin lömbin eru hvít,“ segir Erna og bætir við að hún hafi farið fyrir nokkrum árum vestur að Drangsnesi og keypt hrút til undaneldis. „Til að fá nýtt blóð í stofninn hjá mér, þetta má ekki verða of skylt. Nýja féð mitt að vestan hefur góða byggingu, er með fyllt læri og langan hrygg, þetta er gott kjötfé. Við leggjum auðvitað upp úr því þó þetta sé fyrst og fremst frístunda- og dekurbúskapur hjá okkur.“
Það má glögglega sjá að allar kindurnar hennar Ernu eru einstaklega gæfar, þær koma hlaupandi til hennar þegar hún kallar á þær þar sem hún kemur að hólfinu með mélköggla í fötum til að gefa í rennur sem þar eru.
„Ég get klappað þeim öllum. Ég fékk tvær nýjar kindur í haust frá manni hér í þorpinu sem voru ljónstyggar, þær ruku upp um alla veggi í hvert sinn sem ég kom inn í kofa. En mér hefur tekist að spekja þær nokkuð, þær eru að róast, þurftu bara tíma til að samlagast.“
Hún leynir sér ekki væntumþykjan í rödd Ernu þegar hún spjallar við kindurnar sínar í blíðum tón. Þetta eru vinir hennar og hún kallar ærnar „stelpur“.
„Þetta er hún Hrafna mín, hún er mikil uppáhaldskind hjá mér, hún er svo sérstök og góð,“ segir Erna og klappar kollóttri kind um kjammann sem kemur upp að hlið hennar.
„Hún fékk nafnið í framhaldi af því að hún rétt slapp undan hrafninum. Þegar hún var lamb að hausti fór hrafninn í hana þar sem hún var afvelta og hann kroppaði stórt svöðusár í nárann á henni, alveg inn að kjöti. Litlu mátti muna að honum tækist að drepa hana, en okkur tókst að græða þetta á löngum tíma og bjarga henni.“
Forystusauðurinn Pjakkur er líka í miklu uppáhaldi og ber með sér að hann er dekurdýr. Á honum er þó nokkur þóttasvipur, hann er yfir hinar kindurnar hafinn og minnir með líkamsstöðu sinni og byggingu meira á hind en kind. Hann er spakur og biður um klapp hjá Ernu, en sérvitur skepna er hann sem kýs brauð fram yfir mélköggla. Og hann er ekki allra.
„Pjakkur er ekkert fyrir ókunnuga, hann gerir mikinn mannamun. Hann er æðislegur,“ segir Erna með mikilli aðdáun og festu. „Hann var ósköp lítill þegar Skúli Steins gaf mér hann fyrir þremur árum sem lamb, en Skúli heldur forystufé hér á Bakkanum. Pjakkur kann að leiða fjárhópinn, eins og forystukinda er háttur, það er gaman að fylgjast með honum,“ segir Erna og bætir við að hún hafi ekki látið marka hann. „Hann vildi ekki heldur láta setja merki í eyrað á sér, hann bað mig um að það yrði ekki gert. Og ég lét það eftir honum. En hann er brennimerktur á hornunum með mínu nafni,“ segir Erna og játar því að hún og Pjakkur séu í góðu andlegu sambandi, þau skilji hvort annað.
Ernu dugar ekki að eiga aðeins kindur, hún er mikið fyrir dýr og er með þrjá ketti á heimilinu og átti áður tíkina Jasmin til ellefu ára. Erna er líka með rúmlega tuttugu hænur, í rými sem er hluti af kindakofanum, sem stendur í hesthúsahverfi Eyrbekkinga. Hið myndarlega fjárhús sem kallast kofi ber handbragði Ernu vitni, þar eru gardínur í gluggum og málverk á veggjum.
Við kíkjum inn til hænsnanna sem leyfa Ernu að halda á sér en svo beygir hún sig niður og nær í agnarsmáan kanínuunga.
„Þeir eru nokkrir, mamma þeirra flutti óumbeðið hingað inn til hænsnanna með þá, en þessar kanínur eru villtar og mikið hér í hesthúsahverfinu. Hænurnar eru frjálsar haughænur úti við yfir daginn, en ég byrgi þær inni yfir nóttina,“ segir Erna sem er greinilega bóndinn í fjölskyldunni, en eiginmaðurinn Gulli segist vera aðstoðarmaður. „Ég er sóttur þegar þarf að gera eitthvað.“
![]() |
Morgunblaðið laugardagurinn 16. júní 2018
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is