Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

16.06.2018 08:19

Pjakkur gerir mikinn mannamun

 

 

 

Pjakkur gerir mikinn mannamun

 

Erna Gísla­dótt­ir og for­ystusauður­inn Pjakk­ur skilja hvort annað, til þess þarf ekki manna­mál. Erna held­ur um 20 kind­ur sér til ánægju á Eyr­ar­bakka þar sem hún er fædd og upp­al­in.

 

Ég man ekki eft­ir mér öðru­vísi en að kind­ur væru hluti af líf­inu á bernsku­ár­um mín­um hér á Eyr­ar­bakka. Pabbi var alltaf með lít­inn kinda­hóp, fyrst var hann með kinda­kofa í þorp­inu en flutti hann svo hingað upp eft­ir árið 1982. Ég tók við kind­un­um hans þegar hann féll frá árið 1995. Það kviknaði í kinda­kof­an­um okk­ar fyr­ir fjór­um árum og þá byggðum við nýtt stæðilegt fjár­hús á sama grunni og köll­um það alltaf kof­ann,“ seg­ir Erna Gísla­dótt­ir þar sem hún stend­ur um­kringd kind­un­um sín­um í grængres­inu við Há­eyr­ar­veg rétt utan við Eyr­ar­bakka. Erna á um 20 full­orðnar kind­ur sem hún held­ur sér til gam­ans og sautján báru lömb­um í vor.

„Ég á ekki all­ar þess­ar kind­ur sem eru hér í stykkj­un­um, vina­fólk okk­ar, Gummi og María, eiga hluta af þessu fé. Það er gott að vera í þessu með öðru fólki, við skipt­umst á að gá að þeim og erum þá nógu mörg til að smala þeim,“ seg­ir Erna sem er eig­andi beiti­lands­ins sem eru þrjú samliggj­andi stykki, Ak­ur­eyri, Akra­nes og Ak­ur­ey.

„Við slepp­um þeim svo yfir sum­arið vest­ur í mýri hér upp með ánni, þar sem fuglafriðlandið er, þar ganga all­ar kind­ur Eyr­bekk­inga sam­an yfir sum­arið. Stór hluti þeirra sem búa í þorp­inu er með kind­ur, það eru mörg hundruð kind­ur á vetr­ar­fóðrum hér. Á haust­in er svo öllu fé Eyr­bekk­inga réttað í Skúmstaðarétt, þá er líf og fjör.“

 

Ég get klappað þeim öll­um

 

Fjár­stofn Ernu sam­an­stend­ur af 17 full­orðnum kind­um, en auk þess á hún tvær vet­urgaml­ar gimbr­ar, tvo sauði og einn unda­neld­is­hrút. Og auðvitað öll lömb­in sem komu í heim­inn í vor. „Frjó­sem­in var bara fín, en ég fékk ekki eins mörg mislit lömb og ég hefði viljað, aðeins þrjár grá­ar gimbr­ar og einn svart­an hrút. Öll hin lömb­in eru hvít,“ seg­ir Erna og bæt­ir við að hún hafi farið fyr­ir nokkr­um árum vest­ur að Drangs­nesi og keypt hrút til unda­neld­is. „Til að fá nýtt blóð í stofn­inn hjá mér, þetta má ekki verða of skylt. Nýja féð mitt að vest­an hef­ur góða bygg­ingu, er með fyllt læri og lang­an hrygg, þetta er gott kjöt­fé. Við leggj­um auðvitað upp úr því þó þetta sé fyrst og fremst frí­stunda- og dek­ur­bú­skap­ur hjá okk­ur.“

 

Það má glögg­lega sjá að all­ar kind­urn­ar henn­ar Ernu eru ein­stak­lega gæf­ar, þær koma hlaup­andi til henn­ar þegar hún kall­ar á þær þar sem hún kem­ur að hólf­inu með mélköggla í föt­um til að gefa í renn­ur sem þar eru.

„Ég get klappað þeim öll­um. Ég fékk tvær nýj­ar kind­ur í haust frá manni hér í þorp­inu sem voru ljónstygg­ar, þær ruku upp um alla veggi í hvert sinn sem ég kom inn í kofa. En mér hef­ur tek­ist að spekja þær nokkuð, þær eru að ró­ast, þurftu bara tíma til að sam­lag­ast.“

 

Hrafn­inn kroppaði svöðusár í nár­ann á kind­inni Hröfnu

 

Hún leyn­ir sér ekki vænt­umþykj­an í rödd Ernu þegar hún spjall­ar við kind­urn­ar sín­ar í blíðum tón. Þetta eru vin­ir henn­ar og hún kall­ar ærn­ar „stelp­ur“.

 

„Þetta er hún Hrafna mín, hún er mik­il upp­á­haldskind hjá mér, hún er svo sér­stök og góð,“ seg­ir Erna og klapp­ar koll­óttri kind um kjamm­ann sem kem­ur upp að hlið henn­ar.

„Hún fékk nafnið í fram­haldi af því að hún rétt slapp und­an hrafn­in­um. Þegar hún var lamb að hausti fór hrafn­inn í hana þar sem hún var af­velta og hann kroppaði stórt svöðusár í nár­ann á henni, al­veg inn að kjöti. Litlu mátti muna að hon­um tæk­ist að drepa hana, en okk­ur tókst að græða þetta á löng­um tíma og bjarga henni.“

For­ystusauður­inn Pjakk­ur er líka í miklu upp­á­haldi og ber með sér að hann er dek­ur­dýr. Á hon­um er þó nokk­ur þótta­svip­ur, hann er yfir hinar kind­urn­ar haf­inn og minn­ir með lík­ams­stöðu sinni og bygg­ingu meira á hind en kind. Hann er spak­ur og biður um klapp hjá Ernu, en sér­vit­ur skepna er hann sem kýs brauð fram yfir mélköggla. Og hann er ekki allra.

„Pjakk­ur er ekk­ert fyr­ir ókunn­uga, hann ger­ir mik­inn mannamun. Hann er æðis­leg­ur,“ seg­ir Erna með mik­illi aðdáun og festu. „Hann var ósköp lít­ill þegar Skúli Steins gaf mér hann fyr­ir þrem­ur árum sem lamb, en Skúli held­ur for­ystu­fé hér á Bakk­an­um. Pjakk­ur kann að leiða fjár­hóp­inn, eins og for­ystukinda er hátt­ur, það er gam­an að fylgj­ast með hon­um,“ seg­ir Erna og bæt­ir við að hún hafi ekki látið marka hann. „Hann vildi ekki held­ur láta setja merki í eyrað á sér, hann bað mig um að það yrði ekki gert. Og ég lét það eft­ir hon­um. En hann er brenni­merkt­ur á horn­un­um með mínu nafni,“ seg­ir Erna og ját­ar því að hún og Pjakk­ur séu í góðu and­legu sam­bandi, þau skilji hvort annað.

 

Gard­ín­ur og mál­verk í fjár­húsi bónd­ans Ernu

 

Ernu dug­ar ekki að eiga aðeins kind­ur, hún er mikið fyr­ir dýr og er með þrjá ketti á heim­il­inu og átti áður tík­ina Jasmin til ell­efu ára. Erna er líka með rúm­lega tutt­ugu hæn­ur, í rými sem er hluti af kinda­kof­an­um, sem stend­ur í hest­húsa­hverfi Eyr­bekk­inga. Hið mynd­ar­lega fjár­hús sem kall­ast kofi ber hand­bragði Ernu vitni, þar eru gard­ín­ur í glugg­um og mál­verk á veggj­um.

 

Við kíkj­um inn til hænsn­anna sem leyfa Ernu að halda á sér en svo beyg­ir hún sig niður og nær í agn­arsmá­an kan­ínu­unga.

„Þeir eru nokkr­ir, mamma þeirra flutti óum­beðið hingað inn til hænsn­anna með þá, en þess­ar kan­ín­ur eru villt­ar og mikið hér í hest­húsa­hverf­inu. Hæn­urn­ar eru frjáls­ar haug­hæn­ur úti við yfir dag­inn, en ég byrgi þær inni yfir nótt­ina,“ seg­ir Erna sem er greini­lega bónd­inn í fjöl­skyld­unni, en eig­inmaður­inn Gulli seg­ist vera aðstoðarmaður. „Ég er sótt­ur þegar þarf að gera eitt­hvað.“

 

 

Morgunblaðið laugardagurinn 16. júní 2018
 

Krist­ín Heiða Krist­ins­dótt­ir
khk@mbl.isSkráð af Menningar-Staður