Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

14.07.2018 09:56

Tónleikar í stóra vitanum á Garðskaga

 

 

 

Tónleikar í stóra vitanum á Garðskaga

 

Garðskagaviti breytist í tónleikahöll í dag, laugardaginn 14. júlí 2018, þegar Anna Halldórsdóttir, margverðlaunaður sópran, syngur þar lög eftir Sigvalda Kaldalóns og íslensk og rússnesk þjóðlög.

 

 

Það verða klassísk, íslensk sönglög á dagskránni eins og Ég bið að heilsa, eftir Inga T. og nokkur eftir Sigvalda Kaldalóns. Svo tek ég trúlega eitt þýskt líka og þjóðlög, bæði rússnesk og íslensk. Ég ætla að syngja án undirleiks og held að þjóðlögin henti fyrir þannig flutning,“ segir Anna Halldórsdóttir sem heldur einsöngstónleika í Garðskagavita í dag, 14. júlí, klukkan 15.

 

Anna hefur búið á Íslandi og í Rússlandi og hefur bæði tungumálin á valdi sínu, enda á hún á íslenskan föður úr Garðinum og rússneska móður frá Kamchatka í Rússlandi. Hún er nítján ára og hefur verið ellefu ár í söngnámi.

 

„Ég er í Garðinum núna í sumarfríi, föðurfjölskyldan er héðan og við pabbi erum í fjölskylduhúsinu okkar sem afi og amma byggðu. En mest af lífinu hef ég verið í Rússlandi. Í fyrsta bekk var ég samt á Íslandi, en þá kom kennaraverkfall og við fórum til Rússlands, pabbi fékk vinnu og við héldum áfram að búa þar.“

 

Hún kveðst hafa lært klassískan einsöng í Múrmansk. „En ég var líka í tónlistarskóla í Garðinum á sínum tíma og Graduale futuri, kórskóla Jóns Stefánssonar í Langholtskirkju. Aðalkennsluna er ég samt að fá núna í tónlistarmenntaskólanum í Kazan í Rússlandi þar sem ég lýk námi næsta vor.

 

Anna hefur komið víða fram í Rússlandi og hlotið verðlaun í söngkeppnum í Rússlandi, á Íslandi og í Finnlandi. „Það er skemmtilegt að hljóta sigur og árið 2017 var ég í fyrsta sæti í tveimur keppnum. Síðasta stóra keppnin mín var í Moskvu, þar fékk enginn fyrsta sætið, en ég fékk annað og tveir fengu þriðja,“ segir Anna og tekur fram að ekkert kosti inn á tónleikana í vitanum í dag.


 


Garðskagaviti.


Fréttablaðið laugardagurinn 14. júlí 2018.Skráð af Menningar-Staður