![]() |
Birgir Sveinsson (1940 - 2018). |
Birgir Sveinsson - Fæddur 5. apríl 1940
- Dáinn 10. júlí 2018 - Minning
Birgir Sveinsson var fæddur 5. apríl 1940 á Eyrarbakka. Hann lést á Ljósheimum, Selfossi 10. júlí 2018.
Foreldrar hans voru Sveinn Árnason, fæddur 1913, og Sveinbjörg Kristinsdóttir, fædd 1922. Hann var uppalin á Eyrarbakka, elstur systkina sinna, alsystkini hans sammæðra eru Guðleif og Sigríður, fæddar 1944, Sigurbjörg, fædd 1945, og Júlía, fædd 1949, hálfsystkini hans eru Guðlaugur Grétar, fæddur 1956, Halldóra, fædd 1957, og Gísli, fæddur 1958.
Birgir var kvæntur Guðnýju Hallgrímsdóttur frá Vestra Íragerði á Stokkseyri.
Börn Birgis og Guðnýjar eru:
1) Brynjar, fæddur 1965, eiginkona hans er Ólafía Helga Þórðardóttir, synir þeirra eru Daníel Orri og Arnór Daði.
2) Jón Guðmundur, fæddur 1968, eiginkona hans er Oddný Sigríður Gísladóttir, börn þeirra eru Andrea Ýr, Rakel Eir, Patrekur Máni og Arnar Breki.
3) Auðunn, fæddur 1972, eiginkona hans er Daðey Ingibjörg Hannesdóttir, dætur þeirra eru Arna, Ásdís, Þóra og Auður.
4) Guðni, fæddur 1973, eiginkona hans er Ingigerður Tómasdóttir, börn þeirra eru Bergsveinn Hugi, Björgvin Már og Ingunn.
5) Júlía, fædd 1976, eiginmaður hennar Guðmundur Halldór Magnússon, dóttir þeirra er Sólborg Vanda, uppeldissonur hennar er Óskar Halldór, sambýliskona hans er Halldóra Magnúsdóttir, sonur þeirra er Guðmundur Atli.
Birgir og Guðný skildu í kringum 1986.
Birgir bjó á Eyrarbakka þar til hann veiktist fyrir ári síðan. Síðustu mánuði ævi sinnar dvaldi hann á Ljósheimum, Selfossi.
Birgir vann á ýmsum stöðum um ævina. Hann vann í Plastiðjunni á Eyrarbakka, stundaði sjómennsku í mörg ár og byrjaði sem háseti og varð síðar vélstjóri. Hann var lengi á Birninum, einnnig á Jóhanni Þorkelssyni. Um tíma átti hann sjálfur hraðfiskibát sem bar nafnið Snarfari. Hann var vörubílstjóri til margra ára og vann hann þá m.a. við sjóvarnargarðinn á Eyrarbakka. Meðfram bílstjórastarfinu rak hann um tíma sjoppu á Eyrarbakka ásamt þáverandi eiginkonu sinni.
Útför Birgis fór fram í kyrrþey frá Eyrarbakkakirkju að ósk hins látna laugardaginn 14. júlí 2018.
__________________________________________________________________________________________________
Minningarorð
Síðastliðinn laugardag kvöddum við pabba, tengdapabba og afa frá Eyrarbakkakirkju.
Þegar kemur að kveðjustund þá ósjálfrátt lætur maður hugann reika til liðinna daga og hugsar um allar stundirnar sem við áttum með Birgi. Þá koma fyrst upp í hugann allar veiðiferðirnar sem voru farnar m.a. í Brynjudalsá, Sogið og ferðirnar út á engjar á Eyrarbakka. Birgir var vanafastur og vildi alltaf fara á sömu veiðistaðina og átti það til að standa sem fastast þó svo það væri ekki einu sinni nartað í. Birgir var mikill sælkeri og frábær bakari og átti hann alltaf tertur og kleinur í frysti. Ef við komum í heimsókn þá voru þessar kræsingar bornar fram og alltaf lagað súkkulaði og það varð að vera þeyttur rjómi með.
Sólþurrkaði saltfiskurinn hans var líka algjört sælgæti og nostraði hann við fiskinn meðan hann var að þurrka hann. Tók þetta allt vorið og var fiskurinn settur út um leið og það kom sólarglæta en þetta þurfti að gera áður en flugan kom og það mátti ekki heldur vera of mikil sól því þá gat fiskurinn brunnið.
Það er ekki hægt að segja að Birgir hafi verið duglegur að fara í boð en þó var það eitt boð sem hann missti aldrei af, það var skötuveislan hjá okkur í hádeginu á Þorláksmessu. Hann mætti alltaf fyrstur og kom hann þá með sólþurrkaða saltfiskinn sinn sem hann var búinn að útvatna fyrir þá sem borðuðu ekki skötuna. Þarna hitti hann öll börnin sín, tengdabörn og barnabörn. Á aðfangadag vildi hann alltaf vera einn og það var alveg sama hvað við reyndum til að fá hann í mat til okkar, hann vildi hann vera heima hjá sér. Birgir var mjög heimakær og vildi frekar fá fólk í heimsókn til sín. Í hádeginu á jóladag bauð hann börnum, tengdabörnum og barnabörnum í mat þar sem borinn var fram hamborgarahryggur með öllu tilheyrandi, margar tegundir af ís í eftirrétt og á borðum voru allar mögulegar tegundir af konfekti. Við vorum varla búin að renna niður eftirréttinum, þegar bornar voru fram tertur og brauðréttir. Með þessu hitaði hann súkkulaði og þeytti rjóma með. Þetta varð alltaf að vera eins og mátti helst ekki breyta þeim tegundum sem voru bornar fram.
Þegar ég heyrði í pabba þá spurði hann alltaf frétta af aflabrögðum og finnst mér erfitt að hugsa til þess að geta ekki hringt í hann og spjallað um daginn og veginn. Hann spurði alltaf um alla þegar við heyrðumst og vildi vita hvort allir væru ekki við góða heilsu.
Birgir var yndislegur pabbi, tengdapabbi og afi og minnist ég þess að hann skammaði okkur systkinin aldrei heldur ræddi málin og sagði sína skoðun á hlutunum.
Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku pabbi, tengdapabbi og afi. Þín verður sárt saknað.
Brynjar, Lóa, Daníel Orri og Arnór Daði.
Morgunblaðið 23. júlí 2018.
Skráð af Menningar-Staður.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is