Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

25.09.2018 07:01

Paul McCartney og villiöndin

 

 

 

 

Paul McCartney og villiöndin

 

 

Eitt fyrsta lagið, sem ég man eftir að hafa heyrt í útvarpinu var Söngur villiandarinnar, sem Jakob Hafstein söng. Þetta lag er ákaflega sorglegt en textinn fjallar um andahjón sem verða fyrir kúlum veiðimanns. Það var spilað í tíma og ótíma í óskalagaþáttum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og sjálfsagt hafa einhverjir verið orðnir dauðleiðir á því, þótt platan hafi ekki verið brotin í beinni útsendingu eins og urðu örlög lagsins, Ég vild’ég væri hænuhanagrey.

 

Ég hef ekki leitt hugann að Söng villiandarinnar í mörg ár, en um helgina var ég í mesta sakleysi að hlusta á nýju plötuna hans Pauls McCartneys, Egypt Station, á tónlistarveitunni Spotify, fín plata. Síðasta lagið, Hunt you Down/Naked/C-link, er kaflaskipt, og í miðkaflanum sperrti ég skyndilega eyrun, því þar hljómaði laglínan úr villiöndinni! Ég segi ekki sannara orð, það lá við að ég heyrði Paul syngja: Í vor kom ég sunnan með sólskin í hjarta.

 

Getur hugsast, að Paul hafi einhverntímann heyrt villiöndina, sem mun víst vera sænsk að uppruna og „samp-lað“ hana á nýju plötunni sinni? Eða voru þetta bara viðbrögð undirmeðvitundar manns sem hlustaði yfir sig á lagið á sínum tíma?


Morgunblaðið þriðjudagurinn 25. september 2018.

Ljósvaki
Guðm. Sv. Hermannsson

 

 

Skráð af Menningar-Staður.