Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

09.10.2018 17:23

Söl eru sælgæti

 


Magnús Karel kann vel við sig við hafið, enda alinn upp í návist þess.

Hér slakar hann á í fjöruborðinu.

 

 

Söl eru sælgæti

 

„Mér virðist það annars vera skortur á réttu uppeldi að kunna ekki að borða söl,“ sagði kona við Hannes Thorsteinsson bankastjóra er hún bar söl á borð fyrir hann 1917. Þar í húsi voru söl borðuð jafnaðarlega; heimilisfólkinu þótti þau sælgæti. Sölvatekja var búgrein sem jafn sjálfsagt var að sinna og heyskap og fiskveiðum, á þeim býlum sem land áttu að sölvafjöru. Hundrað árum síðar eru söl sjaldséð á diskum Íslendinga. Magnús Karel grúskaði í heimildum um sögu sölvatekju og rifjaði upp bragðið af heimsins bestu sölvum sem hann fékk hjá Imbu Lauga. 

 

Ég hef borðað söl frá barnæsku, ólst upp við það þó ekki hafi verið farið til sölvafjöru á mínu heimili. Yfir sumarið rak alltaf eitthvað af sölvum á land sem þornuðu í fjörusandinum og þá tíndum við krakkarnir þetta upp í okkur. Seinna fór móðir mín að fara sjálf út á sker, þegar við fluttum til í þorpinu og sölin urðu aðgengilegri. Hún þurrkaði söl og bar á borð á mínu heimili. Mér fannst þetta mikið sælgæti og finnst enn. Maður fær ekki betra snakk, sérstaklega með smjöri og harðfiski. Bestu söl sem ég hef bragðað voru frá henni Imbu Lauga hér á Eyrarbakka, sem kennd var við manninn sinn, Guðlaug Pálsson kaupmann. Ég man eftir að hafa fengið söl hjá henni og þau voru óskaplega vel verkuð hjá henni,“ segir Magnús Karel Hannesson sem var með Sölvaspjall um liðna helgi á Listasafni Árnesinga á Eyrarbakka í tengslum við sýninguna Marþræðir.

 

Eyrbekkingar í sölvafjöru einvörðungu fyrir sjálfa sig, en áður hafði það verið hluti af búskap allra sem bjuggu við ströndina. Verulega dró úr sölvatekju upp úr fyrra stríði því þá urðu svo miklar breytingar, fólk hafði meiri aðgang að fjölbreyttari fæðu en áður fyrr. En á sautjándu, átjándu og nítjándu öld, sem og miklu fyrr, þá er vitað að sölvatekja var mikil búgrein til dæmis á Eyrarbakka. Þá var jafn eðlilegt að fara í sölvafjöru eins og að heyja. Árnessýsla og strandlengjan milli Þjórsár og Ölfusár var gríðarlega gjöfult sölvasvæði og hjá þeim sem áttu aðgang að fjörunni varð þetta á þeim tíma aukabúgrein samhliða búskap. Þá nytja menn það sem fjaran gefur og þörfin var virkilega mikil, því fólk lifði á óskaplega einhæfu fæði og þurfti öll þau snefilefni sem sölin geyma. Sölin voru fæðubótarefni þess tíma og bændur höfðu vöruskipti. Bændur af öllu Suðurlandi áttu verslunarsókn til Eyrarbakka og þá voru söl sú vara sem þeir sem bjuggu við sjóinn höfðu til að láta á móti vörum sem bændur komu með úr Rangárvallasýslu, VesturSkaftafellssýslu og uppsveitum Árnessýslu, sem voru mör, tólg, kjöt, smjör og ull.“ 

 

Mestu sælustundirnar

 

Magnús segir að fólk hafi tínt söl hér áður fyrr allt sumarið, í hvert sinn sem var stórstraumsfjara, en í Stokkseyrarhreppi hafi mest verið farið í sölvafjöru um strauminn næstan eftir Jónsmessu og um höfuðdagsstrauminn, sem er með stærstu straumum ársins.

 

„Fólk tíndi gífurlegt magn af sölvum hér áður fyrr. Til eru heimildir frá 1775 um að á jörðinni StóruHáeyri á Eyrarbakka hafi verið safnað á einum stórstraumi um 4 tonnum af þurrkuðum sölvum. Og þar sem sölin rýrna um 80 prósent við þurrkun, má sjá hversu mikið magn þetta hefur verið. Áður fyrr þegar um var að ræða mikið magn af sölvum þá var þeim snúið eins og heyi með hrífum, því var dreift í flekki. Mjög fáir gera þetta enn hér á Eyrarbakka, að fara í sölvafjöru, ég veit um einn mann hér sem tínir söl í atvinnuskyni og sumir fara og tína fyrir sjálfa sig til að eiga fram á veturinn. En þar fyrir utan er þetta nánast að leggjast af, yngri kynslóðir virðast ekki hafa sama smekk og við eldra fólkið fyrir þessu. Í sumar var ekki mikill þurrkur og fólk fór því síður í sölvafjöru, því það skiptir miklu máli að þurrka sölin strax, helst í sandi og sól.“

 

Magnús segir að það fólk sem ólst upp við að sölvatínsla væri stór hluti af lífinu eigi góðar minningar frá þeim stundum. „Gísli í Mundakoti var fæddur árið 1906 á Eyrarbakka og hann segist hafa átt sínar mestu sælustundir á sölvafjöru. Hann segir líka frá því að faðir hans hafi einnig gefið lömbunum mikið af sölvum og að þau hafi verið alveg kolvitlaus í þau.“ 

 

Eftir þeim heimildum sem Magnús gluggaði í eru tvær kenningar á lofti um það hvernig kunnáttan við sölvatekju barst til Íslands. 

 

„Því er annars vegar haldið fram að norskir landnámsmenn hafi þekkt sölvatekju frá sinni heimaslóð og komið með kunnáttuna hingað til lands, en hins vegar er sagt að Norðmenn hafi ekki þekkt sölvatekju, því á þessum tíma hafi Norðmenn ekki nýtt söl til manneldis, einvörðungu fyrir skepnur. Því hafi sölvatekjukunnátta komið með fólki frá Skotlandi og Írlandi, en þar var þetta þekkt frá alda öðli og þar nýtir fólk enn þennan sjávargróður.“

 

Lúðvík Kristjánsson segir í riti sínu Íslenskir sjávarhættir, sem kom út árið 1980: „Líklega hefur sölvafjara hvergi verið jafn víðáttumikil og arðgæf sem í Árnessýslu, að Saurbæjarfjöru undanskilinni. Allar líkur eru til þess að í Árnessýslu hafi sölvatekja til manneldis verið umtalsverð búgrein í átta til níu aldir […] og eru þess engin dæmi annars staðar á landinu, að sölvatekja hafi verið ástunduð svo lengi.“ 


Morgunblaðið föstudagurinn 5. október 2018.
Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

____________________________________________________________________


 


Sölvakógur Eyrarbakka er Siggeir Ingólfsson á Sölvabakka.
 

Hann hefur stundað sölvatekju í Eyrarbakkafjörum og verkað

að Sölvabakka í miðbæ Eyrarbakka.


Söl Siggeirs eru sérlaga góð og tekur hann við pöntunum

í síma  898 4240 -
 

 


Skráð af Menningar-Staður.