Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.11.2018 09:32

VAXTAVERKIR SVEITARFÉLAGA

 


Eggert Valur Guðmundsson á Eyrarbakka.
 

 


VAXTAVERKIR SVEITARFÉLAGA

 

Eggert Valur Guðmundsson,

formaður bæjarráðs Sfv. Árborgar skrifar: 

 

 

Það hefur ekki farið framhjá okkur íbúum í Svf. Árborg að mikill áhugi er hjá fólki að setjast að í sveitarfélaginu, og fólksfjölgun á undanförnum árum verið með því mesta sem gerist á Íslandi. Nú stendur yfir vinna við fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára fjárfestingaráætlunar. Í þeirri vinnu verður að taka tillit þeirrar breyttu stöðu sem aukin íbúafjöldi kallar á. Sveitarfélag í örum vexti eins og Árborg er komið í þá stöðu að nauðsynlegt er að hugsa hlutina á annan og nýjan hátt. 

 

Óhjákvæmilegt verður að taka lán til þess að byggja upp innviði og þjónustu, sem laðar að nýja íbúa sem skila síðar sköttum og gjöldum í bæjarsjóð. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber sveitarfélögum að halda skuldbindingum sínum undir 150% af reglulegum tekjum. Þetta skuldaviðmið getur reynst sveitarfélögum á miklum vaxtarsvæðum eins og okkar erfitt að uppfylla þar sem byggja þarf upp margvíslega hluti eins og t.d ný íbúðarhverfi, nýja grunn- og leikskóla og annað sem nauðsynlega þarf að vera til staðar til þess að viðhalda góðu samfélagi. Ljóst er að fjárfestingarþörf Svf. Árborgar verður mikil á næstu árum og hæpið að tekjur standi að öllu leyti undir þeim fjárfestingum sem brýnt er að ráðast í. 

 

Við ætlum að leysa fráveitumálin Öll framboðin sem buðu fram fyrir kosningarnar í vor lofuðu að koma fráveitumálum sveitarfélagsins í gott horf. Þrettán ár eru síðan öll sveitarfélög áttu að vera komin með fullnægjandi skólphreinsun eins eða tveggja þrepa hreinsun. Lítið hefur gengið í þessum málaflokk hér í Árborg, aðallega vegna gríðarlegs kostnaðar og rangrar forgangsröðunar verkefna hjá fyrrum meirihluta bæjarstjórnar. Fólk sturtar niður úr klósettinu og hvað svo, er öllum sama? Nei fólki er það alls ekki.

 

Árið 1995 voru sett lög um stuðning við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga. Í því fólst að ríkisvaldið styrkti sveitarfélög um 20% af stofnkostnaði framkvæmda. Þessum stuðningi lauk árið 2008 og síðan hefur dregið verulega úr framkvæmdum vegna fráveitumála sveitarfélaga á landsvísu. Engu að síður verður að þrýsta á ríkisvaldið að koma myndarlega að þessum málaflokk sem er svo nauðsynlegur.Brýnt er að sveitarstjórnarfulltrúar standi saman í þessu máli og myndi alvöru þrýsting á ríkisvaldið um niðurfelllingu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum. 

 

Meirihluti bæjarstjórnar hefur nú þegar hrundið af stað vinnu varðandi stefnumótun í hreinsun fráveituvatns í sveitarfélaginu öllu, þar sem litið verður til nýjustu tækni við hreinsun, endurnýtingu og möguleika til verðmætasköpunar. Til að byrja með munu mestir fjármunir fara í hreinsimannvirki við Geitanesflúðir til hreinsunar skolps frá Selfossi, sem alllir vita að hefur verið stórt vandamál um langt árabil. Það verður síðan í framhaldinu verkefni bæjaryfirvalda , að fráveitumál á Eyrarbakka og Stokkseyri verði í lagi til framtíðar. Verkefni allra bæjarfulltrúa þvert á flokkslínur hlýtur að vera að koma þessum málum í lag svo að það gagnist best fyrir umhverfið, íbúana og samfélagið allt.

 

Eggert Valur Guðmundsson. formaður bæjarráðs Árborgar.


Suðri Héraðsfréttablað 1. október 2018.


Skráð af Menningar-Staður.