Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

13.11.2018 17:20

Merkir Íslendingar - Árni Magnússon

 

 

Árni Magnússon (1663 - 1730).

 

 

Merkir Íslendingar - Árni Magnússon

 

 

Árni Magnússon handritasafnari fæddist á Kvennabrekku í Dölum þann 13. nóvember 1663,

sonur Magnúsar Jónssonar, prests á Kvennabrekku og síðar lögsagnara, og Guðrúnar, dóttur Ketils Jörundssonar, prests í Hvammi.

 

Árni ólst upp hjá Katli, afa sínum, og síðan móðurbróður, Páli, prófasti í Hvammi og síðar á Staðarstað.

 

Árni lauk stúdentsprófi frá Skálholtsskóla 1683, guðfræðiprófi við Kaupmannahafnarháskóla, varð aðstoðarmaður fornfræðingsins Tómasar Bartholins, bókavörður M. Moths, yfirsekretera í kanzellíinu, varð prófessor 1694, ritari við hið konunglega leyndarskjalasafn í Kaupmannahöfn 1697 og í raun yfirstjórnandi safnsins frá 1725.

 

Samkvæmt konungsboði var Árna og Páli Vídalín falið jarðamat, manntal og ýmsar aðrar rannsóknir á Íslandi 1702 og stóð verkið yfir af hálfu Árna til 1712. Úr varð hin fræga Jarðabók Árna og Páls sem er ómetanleg heimild um hagi Íslendinga í byrjun 18. aldar.

 

Árni fór í rannsókna- og bókakaupsferðir til Noregs og Þýskalands, en er þekktastur fyrir bókfells- og handritasöfnun sína hér á landi og fyrir flutning á þeim handritum til Kaupmannahafnar þar sem þau voru rannsökuð, skrifuð upp og sum hver búin til prentunar.

 

Í brunanum mikla í Kaupmannahöfn 20. október 1728 brann þar bókasafn háskólans og hluti af bókasafni Árna, þrátt fyrir þrotlaust björgunarstarf. Talið er að þar hafi glatast ýmis mikilvæg íslensk handrit.

 

Árni var umbótasinnaður húmanisti. Það eina sem birtist á prenti eftir hann var skýrsla um síðustu galdramálin í Danmörku þar sem hann sýnir fram á fáránleika þeirra.

 

Árni og Þórdís Jónsdóttir, biskups á Hólum Vigfússonar (Snæfríður Íslandssól), eru gerð að aðalsögupersónum ástarsögunnar í Íslandsklukku Halldórs Laxness.

 

Við Árna eru kenndar Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og Den Arnamagnæanske Samling í Danmörku.

 

Árni lést 7. janúar 1730.
 Skráð af Menningar-Staður.