![]() |
Þórhallur Ásgeirsson (1919 - 2005).
|
Merkir Íslendingar - Þórhallur Ásgeirsson
Þórhallur Ásgeirsson fæddist í Laufási í Reykjavík 1. janúar 1919. Foreldrar hans voru hjónin Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, f. 1894, d. 1972, og Dóra Þórhallsdóttir, f. 1893, d. 1964, systir Tryggva forsætisráðherra Þórhallssonar biskups Bjarnarsonar.
Þórhallur varð stúdent frá MR 1937 og stundaði nám í hagfræði og stjórnmálafræði við Stokkhólmsháskóla 1937-1939 og á stríðsárunum við Háskólann í Minnesota, BNA, þar sem hann lauk BA-prófi 1941 og mastersprófi 1942.
Að námi loknu hóf Þórhallur störf sem viðskiptafulltrúi við sendiráð Íslands í Bandaríkjunum og starfaði þar til stríðsloka. Árið 1947 tók Þórhallur við starfi ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu og starfaði þar samfleytt til sjötugs, að frádregnum fjórum árum sem fulltrúi Norðurlanda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Washington.
Á starfsferli sínum vann Þórhallur að mikilvægum viðskiptamálum Íslands í fjóra áratugi og mótaði viðskiptaráðuneytið á umbrotatímum. Hann tók þátt í að skipuleggja viðtöku Marshallaðstoðarinnar, leiddi gerð tvíhliða viðskiptasamninga við Rússland og önnur ríki Austur-Evrópu. Þórhallur var aðalsamningamaður við inngöngu Íslands í EFTA 1970 og annaðist samninga fyrir Íslands hönd við Efnahagsbandalag Evrópu 1972. Þórhallur sat í stjórn Norræna fjárfestingabankans (NIB) um árabil, var m.a. formaður Verðlagsráðs, samstarfsnefndar um gjaldeyrismál og langlánanefndar og var formaður Hrafnseyrarnefndar í tuttugu ár.
Þórhallur var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1956, stórriddarakrossi 1969 og stjörnu stórriddara 1980, Dannebrogsorden, sænska Nordstjärnorden, Finlands Lejon Orden og Den Kongelige Norske Sankt Olavs Orden.
Eiginkona Þórhalls var Lilly Knudsen, f. 2.6. 1919, d. 23.1. 2016, frá Noregi. Börn þeirra eru Sverrir, Dóra, Ragna og Sólveig.
Þórhallur lést 12. nóvember 2005.
Morgunblaðið 2. janúar 2019.
Þórhallur Ásgeirsson á Hrafnseyri við Arnarfjörð þann 3. ágúst 1980.
![]() |
||||
|
Skráð af Menningar-Staðu
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is