Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

06.01.2019 21:18

Íslensk bókajól 2018

 

 

 

 

Íslensk bókajól 2018

 

 

Af 20 söluhæstu bókum 2018 eru 19 eftir innlenda höfunda. Fjórar spennusögur eru meðal tíu mest seldu bóka síðasta árs og hafa aldrei verið fleiri.

 

Líkt og fyrri ár er það spennusaga úr smiðju Arnaldar Indriðasonar sem seldist mest allra bóka á Íslandi á árinu 2018, samkvæmt bóksölulista Félags íslenskra bókaútgefenda sem kom út á föstudag.

 

Af 20 mest seldu bókum ársins 2018 eru sex íslenskar skáldsögur, sex barnabækur, þar af fimm sem eru íslensk skáldverk, fjórar ævisögur og fjórir titlar úr flokki fræðibóka eða bóka almenns efnis, þar af ein matreiðslubók. 

 

Hvolpasveitin eini fulltrúi erlendra bókmennta

 

Af 20 mest seldu bókum síðasta árs eru 19 eftir innlenda höfunda. Undanfarin ár hafa erlendir titlar gjarnan átt nokkur sæti á topp-tuttugulistanum, en í ár er aðeins ein þýdd bók sem nær á listann yfir tutugu mest seldu bækur ársins 2018; Hvolparnir bjarga jólunum, barnabók eftir vinsælum sjónvarpsþáttum um Hvolpasveitina. 

„Það verður nú varla íslenskara en þetta. Þetta er með því mesta sem gerist. Kiljur eftir erlenda höfunda, glæpasögur sem hafa komið út á sumrin, hafa oft verið meira áberandi á þessum stóra lista. Ég held að skýringin á því að engin þeirra nær inn á listann nú sé sú að það voru svo margar kiljur sem komu út í sumar að salan dreifist og einstakir titlar ná því ekki inn á topplistann,“ segir Bryndís Loftsdóttir, starfsmaður Félags íslenskra bókaútgefenda, sem í mörg ár hefur unnið að því að taka saman listann yfir mest seldu bækur ársins.  

 

Ár íslenskra spennusagna

 

Bryndís segir heilmikil tíðindi felast í lista þessa árs. „Það er ekkert nýtt við það að Arnaldur og Yrsa eigi tvær mest seldu bækur ársins. Oftast hefur svo verið barnabók í þriðja sæti en í ár má segja að sé ár hinnar íslensku spennusögu vegna þess að í fyrsta sinn síðan ég hóf að taka saman þennan lista eru þrjár efstu bækurnar úr smiðju íslenskra spennusagnahöfunda; Þorpið eftir Ragnar Jónasson er í þriðja sæti. Fjórða spennusagan, Krýsuvík eftir Stefán Mána, er svo í tíunda sæti. Fjórar af tíu mest seldu bókum ársins eru spennusögur eftir íslenska höfunda og það er það mesta sem ég hef séð. Þetta eru stórtíðindi,“ segir Bryndís.

 

Aðeins tvær skáldsögur sem flokka má sem fagurbókmenntir ná inn á listann yfir tuttugu mest seldu bækur ársins 2018, sem er undir meðallagi. Ævisögur seljast svipað og verið hefur undanfarin ár.Morgunblaðið.


Skráð af Menningar-Staður.