Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

17.03.2019 10:32

Bændamessa í Hlíðarendakirkju 17. mars 2019

 

 

Hlíðarendakirkja í Fljótshlíð. Ljósm.: SJ.

 

 

Bændamessa í Hlíðarendakirkju 17. mars 2019

 

 

Séra Önundur Björnsson, sóknarprestur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð hefur boðað til sérstakrar bændamessu í Hlíðarendakirkju í dag, sunndaginn 17. mars 2019 kl. 13:00.

 

Í samtali við Dagskrána segist hann helga bændum og starfi þeirra við matvælaframleiðslu þessa messu. Einnig sögu staðarins.

 

„Bændurnir vinna gríðarlega mikilvægt starf fyrir þjóðina og íslenskar matvörur eru einstakar á veraldarvísu,“ segir Önundur. Hann segir einnig að mikilvægt sé að þakka þá Guðsgjöf að eiga fullt búr matar þegar milljarður manna svelti og enn deyi börn úr hungri eins og hér áður. „Þetta er gert til að minna á mikilvægt starf bænda og tilveru sveitanna. Svo er Hlíðarendakirkja á sögufrægum stað, lítið og sérlega fallegt guðshús.

 

Allir Íslendingar sem hafa lesið Njálu vita að hetjan Gunnar Hámundarson er enn þekktasti bóndinn á Hlíðarenda. Einnig að engri konu var jafn illa tekið í Rangárþingi og Hallgerði langbrók,“ Önundur segir að fólk geti gert þetta að skemmtilegum sunnudagsbíltúr. Ræðumaður verður Elvar Eyvindsson bóndi á Skíðbakka í Austur-Landeyjum.

 

Allir eru velkomnir í bændamessuna.
 Dagskráin.Skráð af Menningar-Staður