Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

02.04.2019 06:46

Lóan aðeins á eftir áætlun

 

 

Tjaldurinn í Eyrarbakkafjöru á dögunum. Ljósm.: Elín Birna.

 

 

Lóan aðeins á eftir áætlun

 

 

 Farfuglarnir farnir að sjást einn af öðrum 

 

 

Fyrstu lóurnar sáust í Stokkseyrarfjöru hinn 28. mars, en jafnan er koma lóunnar talinn einn helsti vorboði hér á landi. Um 20 heiðlóur sáust svo í Fljótshlíð daginn eftir.

 

Það má segja að lóan sé aðeins á eftir áætlun í ár ef miðað er við meðalkomutíma fyrstu lóunnar á árunum 1996-2016, en það var 23. mars. Hún er þó á svipuðum tíma og í fyrra, en þá sást til fyrstu lóunnar í kringum 27. mars.

 

Farið er að sjást til fleiri farfugla ef miðað er við umfjöllun frá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Fyrstu skógarþrestirnir sáust á Höfn hinn 28. mars. Þar hafa einnig fyrstu jaðrakanar ársins sést og eins í fjörunni á Eyrarbakka. Tveir fuglar á hvorum stað. Einnig hafa nokkrir hópar af álftum og grágæsum sést á flugi yfir Höfn. Um 100 blesgæsir og tugur heiðagæsa sáust í Flóanum, við Þjórsá. Tjaldar voru komnir á grasflatir á Stokkseyri fyrir helgi.

 

Einnig berast ábendingar að norðan, meðal annars um að svanirnir séu farnir að láta sjá sig í Fjallabyggð.

 Skráð af Menningar-Staður