![]() |
||
|
Merkir Íslendingar - Hákon Loftsson
Hákon Ólafur Franz Loftsson fæddist í Reykjavík 5. apríl 1919. Foreldrar hans voru Loftur Guðmundsson, f. 1892, d. 1952, ljósmyndari og fyrri kona hans, Stefanía Grímsdóttir, f. 1898, d. 1940, húsfreyja.
Hákon stundaði nám í Skotlandi 1935-36 og komst þar í kynni við kaþólskt fólk. Leiddi það til, ásamt öðru, að hann tók kaþólska trú 1937.
Hákon varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1940 og nam norrænu við Háskóla Íslands 1940-41 en ákvað þá að gerast kaþólskur prestur á Íslandi og fór þess vegna út í nám í prestaskóla í Bandaríkjunum. Hann stundaði nám í guðfræði, heimspeki og sálarfræði við St. Mary's Seminary and University í Baltimore og lauk þaðan BA-prófi 1943 í kirkjusögu Íslands 1000-1500. Hann tók djáknavígslu þar 1946 og var brautskráður til prestvígslu 1947. Séra Hákon vígðist til prests í Kristskirkju, Landakoti árið 1947 og var það fyrsta kaþólska prestvígslan sem fór fram hér á landi eftir siðaskiptin.
Í Landakoti starfaði Hákon sem prestur til ársins 1952 þegar hann fluttist til Akureyrar og gerðist prestur kaþólskra manna á Norðurlandi. Hann var enn fremur stundakennari við Menntaskólann á Akureyri. Hann fluttist síðan til Reykjavíkur og var einkaritari biskups kaþólsku kirkjunnar í Landakoti um skeið. Hann var síðan prestur í Stykkishólmi frá 1972 til æviloka.
Hákon skrifaði margt og þýddi fyrir kaþólsku kirkjuna. Hann samdi messutónlist, byggða á gregorískri og íslenskri tónlistarhefð, og voru þau lög sungin við hámessur í kapellu systranna í Stykkishólmi. Hann leitaðist við í störfum sínum að samtvinna kaþólska trú og íslenska menningararfleifð.
Hákon lést 30. maí 1977 í New York á leiðinni til Baltimore þar sem hann ætlaði að heimsækja háskólann sinn í tilefni af 30 ára afmæli prestvígslu sinnar.
Morgunblaðið föstudagur, 5. apríl 2019
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is