![]() |
|
Hjördís Geirsdóttir fæddist 8. apríl 1944 í Byggðarhorni í Flóa. „Ég ólst upp við almenn sveitastörf á stóru sveitaheimili hjá ástríkum foreldrum.“ Hjördís gekk í barna- og unglingaskóla Selfoss og fór eftir skólagöngu að vinna verslunarstörf á Selfossi hjá Kaupfélaginu Höfn og síðan Kaupfélagi Árnesinga. Hún lauk námi frá Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni vorið 1962.
Hún fór 15 ára að syngja með hljómsveit Gissurar bróður síns, Tónabræðrum, og söng síðan jafnhliða vinnu og námi með annarri hljómsveit bróður síns, Caroll Quintet, og síðan Safírsextett, sem voru skipaðir ungum mönnum af Suðurlandi. Hún flutti til Reykjavíkur og vann við verslunarstörf og söng dans- og dægurlög með ýmsum hljómsveitum, m.a. Hljómsveit Karls Lillendahl, Hljómsveit Jóns Sigurðssonar, stórsveitinni Perlubandinu undir stjórn Karls Jónatanssonar, Hljómsveit Harmonikkuunnenda með ýmsum harmonikkuleikurum og Rokksveit Ólafs Þórarinssonar (Labba) á Selfossi. „Ég var í mörg ár svokölluð „freelance“ söngkona og söng og stjórnaði síðan eigin hljómsveit í áratug. Ég syng með Stórsveit Íslands við ýmis tækifæri.“
Hjördís lauk sjúkraliða- og snyrtifræðinámi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1991 og starfaði á ýmsum deildum Landspítalans í Fossvogi og á snyrtistofunni Okkar á Hótel Esju. Hún starfaði jafnhliða sem skemmtanastjóri fyrir íslenskar ferðaskrifstofur erlendis.
Hjördís hefur gert tvær hljómplötur, sú fyrri er Paradís á jörð, frá 1990. Þar léku undir félagar úr Mezzoforte ásamt fleirum. Sú seinni er Hjördís Geirsdóttir ásamt gömlum og glöðum félögum, frá 2001. „Þar spiluðu með mér 17 tónlistarmenn sem höfðu spilað með mér mislengi gegnum ferilinn. Aldurstakmarkið var 50 ára og eldri nema bakraddirnar fengu undanþágu en þær voru dóttir mín Hera Björk og Kristjana Stefánsdóttir.“ Hjördís söng með Árnesingakórnum í Reykjavík og var formaður hans um árabil. Hún söng með Kór Seljakirkju um árabil og syngur nú með Álftaneskórnum og Gaflarakórnum. Hún stjórnaði sönghóp í félagsmiðstöðinni við Hæðargarð og sönghópnum Hafmeyjunum um árabil. „Ég starfa nú með söngfélögum mínum Fjörfiskunum og harmonikkuleika, og heimsæki reglulega dagvistarstofnanir fyrir minnissjúka og fleiri stofnanir þar sem rifjuð eru upp gömul dans- og dægurlög og sönglög.“
Eiginmaður Hjördísar er Þórhallur Geirsson, f. 6.8. 1945, bifreiðastjóri og bankamaður. Foreldrar hans voru hjónin Geir Ásmundsson frá Víðum í Reykjadal, bóndi og trésmiður, f. 28.4. 1906, d. 24.11. 1972, og Lilja Hrafnhildur Jónsdóttir frá Seyðisfirði, húsmóðir og verkakona, f. 16.6. 1922 d. 17.2. 1997.
Börn Hjördísar og Þórhalls eru:
1) Þórdís Lóa, rekstrarhagfræðingur og formaður borgarráðs, f. 7.12. 1965. Maki: Pétur Jónsson, fjármála- og rekstrarráðgjafi, f. 14.9. 1966, börn: Davíð Örn Ingimarsson, Ástrós og Patrik;
2) Hera Björk, söngkona og fasteignasali, f. 29.3. 1972. Maki: Halldór Eiríksson rekstrarhagfræðingur, f. 29.1. 1965, börn: Þórdís Petra Ólafsdóttir og Víðar Kári Ólafsson;
3) Geir sjúkraþjálfari, f. 10.6. 1975. Maki: Auður Ýr Steinarsdóttir lögfræðingur, f. 27.12. 1979, börn: Hjördís Lilja, Helgi Þór og Hekla Dís;
4) Gissur tölvunarfræðingur, f. 10.12. 1978. Maki: Rósa Björk Ómarsdóttir, söngkona og hjúkrunarfræðingur, f. 1.4. 1982, börn: Álfrún Hanna og Lóa Björk.
Systkini:
Gissur, f. 17.7. 1939, d. 27.5. 1976, tónlistarmaður og trésmiður. Maki: Ásdís Lilja Sveinbjörnsdóttir talsímavörður, bús. á Seltjarnarnesi, f. 24.7. 1944; Úlfhildur, tónlistarkona og skólaliði, bús. í Mosfellsbæ, f. 27.3. 1942. Maki: Sigvaldi Haraldsson vefari, f. 10.3. 1942; Gísli, bóndi og bifreiðastjóri, bús. á Selfossi, f. 3.8. 1945. Maki: Ingibjörg Kristín Ingadóttir bókasafnsvörður, f. 20.9. 1949, d. 8.3. 2018; Brynhildur, félags- og skólaliði, bús. í Hraunprýði í Flóa, f. 10.6. 1951. Maki: Kristján Einarsson, fv. slökkviliðsstjóri og trésmiður, f. 16.7. 1949.
Foreldrar Hjördísar voru hjónin Geir Gissurarson, bóndi í Byggðarhorni, f. 30.5. 1916, d. 11.4. 2004, og Jónína Sigurjónsdóttir, húsfreyja í Byggðarhorni, f. 20.10. 1911, d. 10.7. 1988.
![]() |
Morgunblaðið 8. apríl 2019
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is