Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

21.04.2019 08:18

Í dag er páskadagur. Gleðilega hátíð

 

 

 

 

 Í dag er páskadagur - Gleðilega hátíð

 

 

Myndin við guðspjall páskdags er eftir ítalska málarann Giovanni Bellini (1430-1516). Hún var máluð 1475-1479 fyrir Marino Zorzi kapelluna í Feneyjum. Nú er hún í eigu þýsks listasafns í Berlín – eða frá 1903.

 

Bellini var sonur listmálara og margir slíkir í hans ætt. Trúarlegar myndir voru helsta viðfangsefni hans alla ævi.

 

Kristur er upprisinn, þrjár konur nálgast gröfina, sú hvítklædda er María Magdalena. Tveir hermenn eru furðu lostnir en sá þriðji sefur enn. Einn þeirra er hálfnakinn og gæti verið tákn um endalok hins heiðna heims og upphaf kristni. - Stærð verksins 1.48x1.28, olíuverk.

 

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. 
En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“ 
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. 


Allt í einu kemur Jesús á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. Þá segir Jesús við þær: „Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum og systrum[ að halda til Galíleu. Þar munu þau sjá mig.“


-Matteusargðspjall 28.1-10. Í dag er páskadagur. Gleðilega hátíð!
 


Séra Hreinn Hákonarson,

fangaprestur Þjóðkirkjunnar,

skrifar.

 

 

 

Séra Hreinn Hákonarson. Ljósm.: BIB

 Skráð af Menningar-Staður.