Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

20.05.2019 18:07

Minntust 300 ára afmælis Bjarna Pálssonar

 

 

Blómsveigur var lagður að minnisvarða Bjarna Pálssonar við Nesstofu í gær.

FRÉTTABLAÐIÐ/VALGARÐUR

 

 

 

Minntust 300 ára afmælis Bjarna Pálssonar

 

 

Þrjú hundruð áru vor liðin frá fæðingu Bjarna Pálssonar þann 17. maí sl. Bjarni var fyrstur manna til að gegna embætti landlæknis hér á landi og sáði í embættistíð sinni fræjum sem síðar áttu eftir að verða hin íslenska heilbrigðisþjónusta.

 

Þess var minnst um helgina að um þessar mundir eru 300 ár frá fæðingu Bjarna Pálssonar. Bjarni var læknir og náttúrufræðingur, en er fyrst og fremst minnst sem fyrsta landlæknis Íslands.

 

Bjarni var skipaður í embætti landlæknis 18. mars 1760. Formleg læknisþjónusta á Íslandi á þessum tíma var af skornum skammti og Bjarni tók að sér það mikla verk að mennta lækna og útskrifa, hafa umsjón með lyfsölu og annast sóttvarnir og heilsugæslu Íslendinga allra. „Þetta var mikið verkefni fyrir einn mann í strjálbýlu landi sem var erfitt yfirferðar með óbrúaðar ár,“ ritaði Kolbrún S. Ingólfsdóttir í sögulegri yfirlitsgrein sinni um landlækna fyrri tíma í Læknablaðið árið 2003. Upphaf íslenskrar læknastéttar má rekja til Bjarna og segja má að hann hafi sáð fræjum þess heilbrigðiskerfis sem Íslendingar þekkja í dag. Bjarni þótt með eindæmum ötull maður og metnaðarfullur.

 

Bjarni lærði í Danmörku og þótti mikið efni. Hann fór í margar ferðir til Íslands ásamt Eggert Ólafssyni til að safna náttúrugripum og handritum. Í einni slíkri ferð, árið 1756, rannsakaði Bjarni sárasótt sem hafði blossað upp í verksmiðju í Reykjavík.

 

Guðmundur Magnússon, prófessor og ritstjóri Læknablaðsins árið 1919, rifjaði upp ummæli Bjarna við amtmann í verksmiðjunni um að taka þyrfti alvarlega í strenginn til að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn rótfestist ekki í landinu til óbætandi skaða og hneisu. „Menn létu sér fátt um finnast, og varð sjúkdóminum ekki útrýmt fyrr en hann [Bjarni] var orðinn landlæknir,“ ritaði Guðmundur. Skrif sín byggði Guðmundur á ævisögu Bjarna sem Sveinn Pálsson ritaði og gaf út árið 1800. Guðmundur segir í grein sinni, sem rituð var þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu Bjarna, að þessi fyrsti landlæknir Íslands hafi haft ríkan áhuga á því að hefja hér land og lýð.

 

Eins og áður segir var Bjarna falið að kenna læknaefnum og útskrifa en biskupar vildu jafnframt að hann tæki að sér að kenna prestum og gera þá að læknum. „Bjarni afsagði það,“ ritaði Guðmundur. „ [Bjarni] vildi koma upp vel lærðum læknum en ekki skottulæknum!“

 

Á meðal þess sem Bjarni barðist fyrir var að mennta yfirsetukonur og útvega þeim laun og að hér yrði byggður landsspítali en kom því ekki fram  „öllum landsvinum til hrellingar.“ 

 

Bjarni lést 8. september árið 1779. Kona hans og börn stóðu félaus uppi, því skuldlausar eignir voru 111 ríkisdalir: „Þetta var kaupið fyrir æfistarfið!“ ritaði Guðmundur.

 

Blómsveigur var lagður á minnisvarða um Bjarna við Nesstofu í  gær, sunnudaginn 19. maí 2019,  en þar settist hann að þegar hann tók fyrstur manna við embætti landlæknis.
 Merkir Íslendingar - Bjarni Pálsson
 

 

Bjarni Páls­son land­lækn­ir fædd­ist á Ups­um á Upsa­strönd 17. maí 1719, son­ur Páls Bjarna­son­ar, prests á Ups­um, og k.h., Sig­ríðar Ásmunds­dótt­ur hús­freyju.
 

Eig­in­kona Bjarna var Rann­veig, dótt­ir Skúla Magnús­son­ar, land­fógeta við Viðey, og k.h., Stein­unn­ar Björns­dótt­ur Thorlacius.

 

Meðal barna Bjarna og Rann­veig­ar voru Stein­unn, hús­freyja á Hlíðar­enda, kona Vig­fús­ar Þór­ar­ins­son­ar sýslu­manns og móðir Bjarna Thor­ar­en­sen, skálds og amt­manns; Skúli lyfja­fræðinemi sem tal­inn er hafa lát­ist í Kína; Eggert, prest­ur í Staf­holti, og Þór­unn, kona Sveins Páls­son­ar, nátt­úru­fræðings og héraðslækn­is.
 

Bjarni út­skrifaðist úr Hóla­skóla 1745, lagði síðan stund á nátt­úru­fræði og lækn­is­fræði við Hafn­ar­há­skóla, lauk bacc.phil.-prófi 1748 og ex.med.-prófi „með efsta æru­titli“ 1759.
 

Bjarni fékk rann­sókn­ar­styrk, ásamt Eggerti Ólfas­syni, til að fara um Ísland og taka sam­an skýrslu um jarðir og lands­hagi hér á landi og er Ferðabók Eggerts Ólafs­son­ar og Bjarna Páls­son­ar afrakst­ur þeirra ferða 1752-57. Bjarni var skipaður fyrsti land­lækn­ir Íslands árið 1760, sat á Bessa­stöðum til 1763 en síðan í Nesi á Seltjarn­ar­nesi. Hann var í Kaup­manna­höfn vet­ur­inn 1665-66 við und­ir­bún­ing lækna­skip­un­ar hér, en hann lét sér ein­mitt mjög annt um skip­an þeirra mála, koma á skip­an fjórðungs­lækna á Íslandi, hafði for­göngu um fyrstu lyf­söl­una hér og skip­an fyrsta lyfsal­ans og fékk til lands­ins fyrstu lærðu ljós­móður­ina.
 

Bjarni hafði lækna­nema alla tíð og kenndi alls 13 lækna­nem­um, rak sjúkra­vist í þar til gerðu bæj­ar­hús­in í Nesi og var for­stöðumaður lyfja­búðar þar uns fyrsti lyfsal­inn kom til lands­ins 1772.
 

Bjarni ritaði m.a. rit um Varn­ir gegn fjár­kláða og bólu­sótt og var mik­ill áhugamaður um nátt­úru­fræði.
 

Bjarni lést 8. september 1779.


 

 

Nes­stofa.

- Fyrsta lækna­set­ur og lyfja­búð lands­ins.

 
Skráð af Menningar-Staður.