Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

30.05.2019 09:17

Fínn kall kellingin hans

 

 

Hljómsveitin ÆFING á sviðinu í Bæjarbíói í Hafnarfirði  á lokadaginn 11. maí sl.

F.v.: Halldór Gunnar Pálsson, Jón Ingiberg Guðmundsson, Árni Benediktsson,

Siggi Björns,  Ásbjörn Björgvinsson og á trommunum er Óskar Þormarsson.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Fínn kall kellingin hans

 

Hljómsveitin Æfing frá Flateyri fagnaði

50 ára afmæli sínu í Bæjarbíói í Hafnarfirði:

 

– Púki að vestan,

Kemur eftir rétt strax,

og Allabúð

- voru meðal laga sem trylltu vel stálpaða áheyrendur

 

 

Hljómsveitin Æfing frá Flateyri fagnaði 50 ára afmæli sínu með lokadagstónleikum í Bæjarbíói, Hafnarfirði laugardaginn 11. maí síðastliðinn. Uppselt var á tónleikana og greinilegt að núverandi Flateyringar og brotttfluttir ætluðu ekki að láta þennan viðburð fram hjá sér fara.

 

Það var velt til fundið að halda tónleikana á lokadag vetrarvertíðar 11. maí, en allir eiga meðlimir hljómsveitarinnar með einum eða öðrum hætti rætur í sjómennsku, beitningu, fiskvinnlu eða öðrum tengdum athöfnum. Segja má að gleðin hafi skinið úr hverju andliti á tónleikunum. Ekki var laust við að þarna væri í bland stemning eins og hún gerðist best á veitingastaðnum Vagninum á Flateyri á árum áður og eins og best gerist á góðu ættarmóti. 

 

Fyrsta „giggið“ á fundi Skjaldar á Flateyri

 

Í stuttu máli má segja að saga sveitarinnar sé rakin til 27. desember 1968 þegar hljómsveitin Æfing á Flateyri kom fram í fyrsta sinn á fundi Verkalýðsfélagsins Skjaldar í Samkomuhúsinu á Flateyri. Í hljómsveitinni voru: Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson, Sigmar Ólafsson, Eiríkur Mikkaelsson og Gunnlaugur Mikkaelsson.

 

Hljómsveitin Æfing starfaði á tveimur tímaskeiðum, þ.e. á Flateyri frá 1968 og fram yfir 1980 og lék þá á dansleikjum um alla Vestfirði og reyndar víðar um land. Meðlimir Æfingar á þessu tímabili voru allmargir en Árni Benediktsson og Kristján J. Jóhannesson voru með alla tíð.

 

Seinna tímabilið er frá 1990 og þá bæði á samkomum sem Önfirðingafélagið í Reykjavík kom að með einum eða öðrum hætti og við önnur sérstök tækifæri, s.s. afmæli, brúðkaup og útgáfutónleika.

Í hljómsveitinni Æfingu á þessu tímabili hafa verið:

Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson, Sigurður Björnsson, Jón Ingiberg Guðmundsson, Ásbjörn Björgvinsson, Halldór Gunnar Pálsson, Önundur Hafsteinn Pálsson auk Óskars Þormarssonar og Magnúsar Magnússonar.

 

Gömlu góðu lögin slá enn í gegn

 

Árið 2013 ákváðu félagarnir í Æfingu að taka upp plötu eða geisladisk sem fékk nafnið: Æfing – fyrstu 45 árin. Meðal laga á þessum diski Æfingar eru: Fínn kall kellingin hans, Kem eftir rétt strax, Allabúð, Púki að Vestan og Heima er best.

 

Sá sem á gríðarlega mikið í tilurð texta og laga hljómsveitarinnar er Guðbjartur Jónsson sem lengi rak veitingastaðinn Vagninn á Flateyri og var þá oftast titlaður Vagnstjóri. Hann á ótal marga óborganlega frasa sem urðu tilefni að mörgum af bestu lagatextum sveitarinnar. Á Guðbjartur mikinn heiður skilið fyrir sín skemmtilegu orðatiltæki sem hafa verið sem yndislegt krydd í tilveruna fyrir marga.

 

Brandarinn sem varð að veruleika

 

Siggi Björns greindi frá því á tónleikunum að þegar Flateyringurinn Björn Ingi Bjarnason, sem nú býr á Eyrarbakka, kom með hugmyndina að plötuútgáfu sveitarinnar hafi þeir allir skellihlegið og litið á það sem afbragðsgóðan brandara. Björn gaf sig ekki og geisladiskurinn varð að veruleika. Reyndar er Björn ekki vanur því að gefa sig þegar honum dettur eitthvað í hug og er Hrútavinafélagið Örvar gott dæmi um það. Félagið var stofnað árið 1999. Tilgangur félagsins er að viðhalda og efla þjóðlega menningararfleifð til sjávar og sveita. Félagar eru yfir þúsund talsins og að sjálfsögðu er Björn Ingi Bjarnason forseti í félaginu.


Á tónleikunum í Bæjarbíói lék hljómsveitin Æfing fyrrnefnd lög, ásamt ýmsum þekktum slögurum og nokkur fleyri lög sem m.a. hafa komið út á diskum Sigga Björns. Áheyrendur voru vel með á nótunum og létu ekki segja sér það tvisvar að taka hressilega undir söng félaganna á sviðinu þegar þeir óskuðu eftir stuðningi.

 

Meðlimir Æfingar á þessum tímamótatónleikum voru:

Árni Benediktsson - gítar og söngur

Sigurður Björnsson (Siggi Björns) - gítar og söngur

Ásbjörn Björgvinsson - bassi og söngur Jón Ingiberg Guðmundsson - gítar og söngur

Halldór Gunnar Pálsson - gítar og söngur

Óskar Þormarsson - trommur

 

Bændablaðið / HKr

 

 

.

Húsfyllir var í Bæjarbíói á lokadagstónleikunum og skemmtu gestir og

hljómsveitarmeðlimir sér konunglega.

.

.

.

 

Hljómsveitin ÆFING við lok tónleikana í Bæjarbíói.

F.v.: Halldór Gunnar Pálsson, Jón Ingiberg Guðmundsson, Árni Benediktsson,

Óskar Þormarsson, Siggi Björns og  Ásbjörn Björgvinsson.Skráð af Menningar-Staður.