Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

18.07.2019 05:45

Merkir Íslendingar - Eðvarð Kr. Sigurðsson

 

 

Eðvarð Kr. Sigurðsson (1910 - 1983).

 

 

Merkir Íslendingar - Eðvarð Kr. Sigurðsson

 

 

Eðvarð Kristinn Sigurðsson, alþingismaður og formaður verkamannafélagsins Dagsbrúnar, fæddist í Nýjabæ í Garði hinn 18. júlí 1910. Hann var sonur Sigurðar Eyjólfssonar sjómanns og k.h., Ingibjargar Sólveigar Jónsdóttur húsfreyju.

 

Eðvarð stundaði ýmis verkamannastörf í Reykjavík til 1944. Þá hóf hann störf hjá verkamannafélaginu Dagsbrún og starfaði þar síðan, lengst af síns starfsferils. Eðvarð sat í stjórn Dagsbrúnar frá 1942 og var formaður félagsins 1961-82. Á þeim árum var hann einn helsti málsvari íslenskrar verkalýðshreyfingar enda formaður Verkamannasambands Íslands frá stofnun þess 1964-75.

 

Eðvarð var landskjörinn alþm. 1959-71 og þingmaður Reykvíkinga fyrir Alþýðubandalagið 1971-79. Hann sat í nefnd er undirbjó lög um atvinnuleysistryggingar, sat í lífeyrissjóðanefnd og í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.

 

Eðvarð bjó lengst af í litlum, mjög snotrum torfbæ sem stóð við Þormóðsstaðaveg á Grímsstaðaholti, rétt vestan við elstu hjónagarðana þar sem nú er gangstéttin að austanverðu við Suðurgötu. Bærinn, sem hét Litla-Brekka, var reistur árið 1918 og var ekki nema 40-50 fermetrar að gólffleti. Hann var í raun sambland af reykvískum steinbæ og torfbæ, með hlöðnum langveggjum, timburþili á göflum og torfþaki. Bærinn var rifinn í febrúar 1981 og var þá síðasti torfbærinn í Reykjavík að Árbæ frátöldum.

 

Þarna ólst Eðvarð upp og bjó þar lengi með móður sinni og systur, þar til þær önduðust, og síðan einn, þar til bærinn varð að víkja fyrir framkvæmdum við hjónagarða.

 

Eðvarð var fríður maður sýnum og virðulegur í framgöngu. Hann var prúðmennskan og hógværðin holdi klædd og barst lítt á í orðræðu, athöfn og klæðaburði. Hann naut almennt mikils álits, samherja sem pólitískra andstæðinga, enda samviskusamur í öllum sínum verkum og slyngur samningamaður.

 

Eðvarð lést 9. júlí 1983.

 

 


Skráð af Menningar-Bakki.