Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

19.07.2019 06:47

Merkir Íslendingar - Svanborg Ingimundardóttir

 

 

Svanborg Ingimundardóttir (1913 - 1948).

 

 

Merkir Íslendingar - Svanborg Ingimundardóttir

 

 

Svanborg Ingimundardóttir, húsfreyja í Goðdal í Bjarnarfirði á Ströndum, fæddist 19. júlí 1913. Hún lést 12. desember 1948 þegar snjóflóð féll á bæinn í Goðdal.

 

Í Goðdal bjó Svanborg ásamt eiginmanni sínum, Jóhanni Kristmundssyni, og börnum þeirra, Bergþóri, Hauki, Erlu, Svanhildi og Ásdísi. Elstu börnin þrjú, Bergþór, Haukur og Erla, voru fjarverandi í skóla þegar snjóflóðið féll. Aðrir heimilismenn í Goðdal voru Jónína Jóhannsdóttir, föðursystur Jóhanns bónda, Guðrún dóttir hennar og Jónas Sæmundsson, sonur Guðrúnar.

 

Flóðið varð um sexleytið á sunnudegi þegar heimilisfólk var í eldhúsinu. Skyndilega heyrðist gríðarlegur hávaði og snjóflóð skall á bæinn og færði hann í kaf. Talið er að Svanborg, sem var 35 ára, hafi látist svo til samstundis, ásamt Jónínu sem var 75 ára og Guðrúnu, 53 ára.

 

Ekki var langt á milli Jóhanns og Jónasar í snjóflóðinu og gátu þeir lengi vel talast við og um tíma heyrðist einnig í Ásdísi litlu sem var tveggja ára, en svo þagnaði hún. Loks hætti Jóhann að heyra í Jónasi.

 

Enginn kom að bænum í Goðdal fyrr en fjórum sólarhringum eftir að flóðið féll. Jóhann bóndi fannst á lífi en hann hafði verið með meðvitund allan þann tíma sem hann lá í snjónum. Jónas fannst með lífsmarki en andaðist fljótlega. Hann var 19 ára gamall. Svanhildur, sjö ára dóttir Jóhanns og Svanborgar, náðist á lífi en lést skömmu síðar úr hjartabilun.

 

Jóhann Kristmundsson var 42 ára er slysið varð og lifði í nokkur ár eftir það. Til eru áhrifamikil viðtöl við hann og vel ritaðar frásagnir hans um harmleikinn.

 

Bergþór, sonur Svanborgar og Jóhanns, lýsti móður sinni svo:

„Hún var greind kona, hlédræg, hljóðlát og blíð. Hún var afar dugleg og iðjusöm.“ Emil Als, sem var í sveit í Goðdal árið 1938, skrifaði um þá dvöl sína í sunnudagsblað Morgunblaðsins árið 2003 og sagði: „Svanborg var þýð í framkomu og stýrði heimili sínu með festu sem hún lét ekki bera mikið á. Minningar um hana eru allar þægilegar.“
Skráð af Menningar-Bakki.