Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

20.07.2019 07:29

Fjölmennasta Skötumessan

 

 

 

Fjölmennasta Skötumessan

 

 

 Um 500 manns snæddu skötu og annað góðgæti

Allur ágóði til góðgerðarmála

Styrkir á fimmtu milljón króna

 

„Þetta var ótrúlega magnað, það hafa aldrei áður mætt svona margir,“ sagði Ásmundur Friðriksson, alþingismaður og frumkvöðull Skötumessunnar í Garðinum. Fjölmennasta Skötumessan til þessa var haldin á miðvikudagskvöld í Miðgarði Gerðaskóla. Skötumessan er löngu orðin árlegur viðburður og haldin á miðvikudegi næst Þorláksmessu á sumri, sem er 20. júlí. Þetta var í fyrsta sinn sem hátíðin var haldin í sameinuðu sveitarfélagi, Suðurnesjabæ. 

 

Um 500 manns gæddu sér á skötu, saltfiski, plokkfiski og tilheyrandi meðlæti frá Skólamat. Fjölbreytt skemmtiatriði voru á dagskrá og var Sigríður Andersen alþingismaður, sem tengd er Móakoti í Garði, ræðumaður kvöldsins.

 

Á Skötumessu er „borðað til blessunar“ eins og séra Hjálmar Jónsson orðaði það. Allir gefa vinnu sína og afraksturinn rennur óskiptur til góðgerðarmála.

 

Skötumessan deildi að þessu sinni út styrkjum að upphæð á fimmtu milljón króna. Nutu bæði einstaklingar og félög góðs af. Stærsta styrkinn fékk Björgunarsveitin Suðurnes; fullkomna tölvustýrða dúkku sem notuð verður til æfinga á endurlífgun og fyrstu hjálp á vettvangi. Ýmis önnur félög og einstaklingar á Suðurnesjum styrktu kaupin á dúkkunni.Morgunblaðið föstudagurinn 19. júlí 2019.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

F.v.: Siggeir Ingólfsson og Ásmundur Friðriksson á góðri stund í

Félagsheimilinu Stað þann 22. maí 2019. 
 Skráð af Menningar-Bakki.