Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

20.07.2019 07:47

Gjör rétt, þol ei órétt

 

 

 

 

Gjör rétt, þol ei órétt

 

 

Eftir Viðar Guðjohnsen og Ólaf Hannesson

 

 

Snemma á síðasta ári stóðu ákveðnir fjölmiðlar með hrakmáluga í broddi fylkingar að pólitískri aðför að mannorði Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Því miður virðist það færast í aukana að haldið sé uppi fréttaflutningi þar sem saklausir er sagðir sekir og tilhæfulausum dylgjum dreift eins og um sannleik sé að ræða. Allir sem hafa einhverja sómakennd í brjósti sér hljóta að mótmæla því sem þingmaðurinn hefur þurft að þola.

 

Fram voru settar tilhæfulausar ásakanir, dylgjur og lygar þar sem stór orð féllu en ásakanirnar hafa ítrekað verið hraktar, m.a. af bæði forsætisnefnd Alþingis og skrifstofu Alþingis. Ásmundur gerðist í raun ekki sekur um neitt annað en að hann er duglegur að sinna vinnunni sinni og heldur tryggð við kjósendur.

 

Gott er að halda því til haga að kjördæmi Ásmundar, Suðurkjördæmi, er langstærsta kjördæmi landsins og langar vegalengdir einkenna kjördæmið en því má einnig halda til haga að eitt hlutverk þingmanna er að vera fulltrúar og til þess að vera góður fulltrúi þarf þingmaður að vera í tengslum við fólkið sitt. Besta leiðin til þess að vera í tengslum við fólkið í landinu er að fara til fólksins og tala við það.

 

Burðarstoðir lýðræðisins þurfa viðhald og þetta er ein leið til þess að efla þær stoðir. Viðhaldskostnaðurinn í þessu tilfelli er margrædd akstursgjöld og þau eru lítil í samhengi hlutanna. Ef við fáum betri þingmenn og þingmenn sem eru í tengslum við almenning verður slík auðlind ekki metin til fjár. Það er ekki gott fyrir þingmenn að einangra sig í litlum hluta Reykjavíkur eða á samfélagsmiðlum.

 

Traust til Alþingis mælist í lágmarki þessa dagana og ekki hjálpa sendingar frá Brussel. Gjá hefur myndast á milli þings og en það hlýtur að vera samstaða um að brúa þessa gjá. Til þess að brúa þessa gjá hljóta þingmenn að athuga hvernig þeir geta aukið tengsl sín við þjóðina og það hefur Ásmundur svo sannarlega gert. Það vitum við sjálfstæðismenn. Ásmundur þekkir hvern krók og kima í Suðurkjördæmi og fólki þykir vænt um þá staðreynd.

 

Það hefur verið einstaklega dapurlegt að fylgjast með hvernig vegið er að mannorði Ásmundar og maður hefði nú haldi að allt fólk með einhvern vott af sómakennd myndi í það minnsta sjá að sér og biðjast afsökunar þegar forsætisnefnd Alþingis komst fyrr á árinu að þeirri niðurstöðu „að ekkert hafi komi fram sem gefi til kynna að hátterni hans [Ásmundar] hafi verið andstætt siðareglum fyrir alþingismenn“ eða þegar siðanefnd Alþingis, sem er m.a. skipuð dósent í lögfræði, komst að þeirri niðurstöðu að framganga þingkonu Pírata, braut gegn siðarreglum Alþingis með alvarlegum og ógeðfelldum hætti. Hvað þá þegar skrifstofustjóri Alþingis hefur ítrekað bent á að skrifstofa Alþingis hafi engin gögn sem benda til þess að rangt hafi verið haft við. Tvívegis hafi skrifstofan gert athugun á akstursbók Ásmundar í kjölfar umræðunnar en þar væri „ekkert að finna sem vakti grun um misferli.“ 

 

Allt þetta liggur fyrir en sómakennd „góða fólksins“ virðist því miður ekki meiri en svo að það heldur áfram að ásaka þingmanninn um eitthvað sem ekki stenst. Fréttablaðið birti sem dæmi, þann 8. júní sl., skrif þar sem fyrrnefnt álit siðanefndar Alþingis (og úrskurður Persónuverndar um að mannréttindi hafi verið fótum troðin þegar þingmenn voru hleraðir á laun) var lagt að jöfnu við fjöldamorð í Búrma.

 

Því miður eru slík mannorðsmorð ekki einsdæmi og ástæðan er einföld. Stjórnmálamenn með sjálfstæðan vilja eru orðnir að pólitískum skotspónum umrótsafla sem veigra sér ekki við að ala á höfuðsyndum Biblíunnar með lygum, útúrsnúning og dylgjum í hugmyndafræðilegu stríði sínu.

 

- Ráðið - 

eftir Pál Árdal kemur enn og aftur upp í hugann.

 

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,

þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,

en láttu það svona í veðrinu vaka,

þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

 

En biðji þig einhver að sanna þá sök,

þá segðu að til séu nægileg rök,

en náungans bresti þú helst viljir hylja,

það hljóti hver sannkristinn maður að skilja,

 

og gakktu nú svona frá manni til manns,

uns mannorð er drepið og virðingin hans,

og hann er í lyginnar helgreipar seldur,

og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur,

 

en þegar svo allir hann elta og smá,

með ánægju getur þú dregið þig frá,

og láttu þá helst eins og verja hann viljir,

þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.

 

Og segðu hann brotlegur sannlega er

en syndugir aumingja menn erum vér,

því umburðarlyndið við seka oss sæmir,

en sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.

 

Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd,

með hangandi munnvikum varpaðu önd,

og skotraðu augum að upphimins ranni,

sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.

 

Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,

ég held þínum vilja þú fáir náð,

og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður,

en máske að þú hafir kunnað þau áður.
 

-------


Viðar er sjálfstæðismaður og lyfjafræðingur.

Ólafur er framkvæmdasjtóri.

 

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 18. júlí 2019.Skráð af Menningar-Bakki.