Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

27.07.2019 08:10

Dagarnir hefjast á sundspretti

 

 

 

Dagarnir hefjast á sundspretti

 

Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarstjóri,

sjúkraflutningamaður og skógarbóndi – 60 ára í gær

 

Helga Þorbergsdóttir er fædd 26. júlí 1959 á Landspítalanum. Hún flaug vikugömul með Birni Pálssyni flugstjóra á Katalínuflugbáti til Ísafjarðar og síðan um Óshlíð heim til Bolungarvíkur. Ólst þar upp við opið haf, í faðmi vestfirskra fjalla og stórfjölskyldu, þar til fjölskyldan flutti í Kópavog þegar Helga var á þrettánda ári. Bernskuárin fyrir vestan einkenndust af frjálsræði, athafnasemi og gleði. Bolungarvík var sjávarþorp með öflugt atvinnulíf sem byggði á útgerð og fiskvinnslu og börnin urðu snemma virkir þátttakendur í samfélaginu. Það voru viðbrigði að flytja úr vestfirsku sjávarplássi í fjölmennið í Kópavogi en Helga undi sér þar vel og þroskaferill unglingsáranna var litaður af virkni og vináttu.

 

Helga lauk prófi í hjúkrunarfræðum frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1981 og fór í sérskipulagt nám í sömu fræðum í HÍ 1995. Hún lauk námi í heilsuhagfræði við endurmenntunardeild Háskóla Íslands 1991 og námi í starfstengdri heilbrigðis- og lífsiðfræði á meistarastigi við HÍ 2003-2007. Þá hefur hún sótt námskeið og námsstefnur tengd hjúkrun, stjórnun, opinberri stjórnsýslu og siðfræði.

 

Helga hefur kennararéttindi í skyndihjálp og EMTAgráðu í sjúkraflutningum. Helga hóf starfsferil sinn sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Landakots. Síðan lá leiðin norður yfir heiðar og starfaði Helga þar á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

 

Árið 1985 réðu Helga og Sigurgeir eiginmaður hennar sig til starfa á Heilsugæslustöðina í Vík í Mýrdal og hefur þar verið þeirra helsti starfs- og lífsvettvangur síðan. Auk þess að gegna starfi hjúkrunarstjóra í Vík er Helga sjúkraflutningamaður við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þá er hún ásamt Sigurgeiri skógarbóndi í Helludal í Bláskógabyggð. 

 

Helga hefur í gegnum tíðina tekið virkan þátt í fjölbreyttum samfélagsstörfum. Hún hefur setið í mörgum nefndum Mýrdalshrepps,  meðal annars gegnt formennsku í félags- og barnaverndarnefnd, setið í atvinnumálanefnd, byggingarnefnd dvalar-og hjúkrunarheimilis, Héraðsnefnd V-Skaftafellssýslu og Almannavarnanefnd Mýrdalshrepps. Hún var í hreppsnefnd Mýrdalshrepps á árunum 1994-2002, varaoddviti fyrra kjörtímabilið og oddviti það síðara. Helga sat um árabil í stjórn Fjölbrautaskóla Suðurlands, Svæðisráði um málefni fatlaðra á Suðurlandi, og hefur setið í ráðgefandi nefndum á vegum ráðuneytis og landlæknis. Helga sat í stjórn heilbrigðisnefndar Sjálfstæðisflokksins, var í miðstjórn flokksins og var varaþingmaður í Suðurkjördæmi 2003- 2007. Helga hefur um árabil verið varamaður í vísindasiðanefnd og hún situr í stjórn Háskólafélags Suðurlands og hefur verið ritari frá stofnun þess félags sem hefur það að markmiði að „auka búsetugæði og styrkja efnahag á Suðurlandi með uppbyggingu þekkingarsamfélags.“

 

 Um helstu áhugamál segir Helga að til að starfa í áratugi í heilbrigðisþjónustu í einmenningshéraði, stöðugt með bakvaktasímann í vasanum, þurfi mikinn áhuga á þeim viðfangsefnum sem sinna þarf. Eins og sjá má á ferlinum beinist áhugi Helgu að samfélagsmálum í víðum skilningi.

 

Flestir dagar ársins hefjast á sundspretti og hún hefur mikið yndi af göngum og útiveru. Eitt af mörgu góðu sem Sigurgeir hefur fært henni er að hennar sögn áhugi á skógrækt, yndisstundir við þá iðju eru „magnaðar“. „Samhent stækkandi fjölskylda og samvera með fólkinu mínu er það besta sem ég veit,“ segir Helga.

 

Fjölskylda

 

 Eiginmaður Helgu er sem segir Sigurgeir Már Jensson, læknir og skógarbóndi, f. 7. október 1953. Hann er sonur hjónanna Jens Jónssonar málarameistara, f. 29. september 1927, d. 10. júlí 2012, og Margrétar Óskarsdóttur matráðs, f. 26. maí 1933, d. 2. febrúar 2015. Þau bjuggu í Reykjavík.

 

Börn Helgu eru:

1) Harpa Elín Haraldsdóttir, f. 28. janúar 1980, með BA í mannfræði, MA í alþjóðastjórnmálum, verkefnastjóri hjá Nisum Chile. Maki hennar er Pablo Carcamo verkfræðingur, sonur þeirra er a) León Ingi f. 2015, þau eru búsett í Chile. Faðir Hörpu er Haraldur Ingi Haraldsson, f. 7. nóvember 1955, myndlistarmaður, búsettur á Akureyri.

2) Þorbergur Atli Sigurgeirsson, f. 16. júlí 1983, lífeindafræðingur að ljúka námi í klínískri bíómekaník. Kona hans er Svanlaug Árnadóttir, f. 21. apríl 1981, óperusöngkona á síðasta ári í læknanámi. Þau eru búsett í Danmörku og börn þeirra eru a) Skarphéðinn Árni, f. 2005, b) Brynjólfur Már, f. 2010, c) Ingveldur Líf, f. 2014, og d) Ásgerður Margrét, f. 2017.

3) Margrét Lilja Sigurgeirsdóttir, f. 5. mars 1987, hjúkrunarfræðingur, ráðgjafi hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta. Hennar maður er Jóhann Fannar Guðjónsson, bifvélavirkjameistari og lögmaður, þau eru búsett í Reykjavík. Þeirra börn eru a) Lilja Dögg Jóhannsdóttir, f. 2004, móðir hennar er Hrönn Brandsdóttir, b) Sigurgeir Máni Jóhannsson, f. 2010, c) Þorkell Skorri Jóhannsson, f. 2014, og d) Katrín Björk Jóhannsdóttir, f. 2018.

4) Ingveldur Anna Sigurgeirsdóttir, f. 16. apríl 1992, viðskiptafræðingur í MA-námi, unnusti hennar er Jón Rúnar Sveinbjörnsson vélaverkfræðingur, þau eru búsett í Reykjavík og Kaupmannahöfn.

 

Bræður Helgu eru;

1) drengur, fæddur 13. janúar 1956, dáinn sama dag,

2) Kristján Ásgeir Þorbergsson lögmaður, f. 30. mars 1957, búsettur í Reykjavík,

3) Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson lögmaður, f. 28. desember 1964, búsettur í Kópavogi, 4) Þorgils Hlynur Þorbergsson guðfræðingur, f. 1971, búsettur í Reykjavík.

 

Helga er dóttir hjónanna Þorbergs Kristjánssonar, sóknarprests í Bolungarvík og síðar í Kópavogi, f. 4. apríl 1925, d. 28. september 1996, og Elínar Þorgilsdóttur húsmóður, f. 24. janúar 1932, d. 26. apríl 1999.

 

 
 


Morgunblaðið.
 Skráð af Menningar-Bakki