Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

15.08.2019 10:37

Ann ljóðum, leiklist og útivist

 

 

 

  Ann ljóðum, leiklist og útivist 

 

Einar Guðni Njálsson, fyrrverandi bæjarstjóri – 75 ára

 

 

Einar Guðni Njálsson fæddist í Dvergasteini á Húsavík 15. ágúst 1944. Hann fluttist þriggja ára gamall í nýtt hús fjölskyldunnar að Hringbraut 11, nú Laugarbrekku 12 á Húsavík, og ólst þar upp. „Mikið frjálsræði var til leikja fyrir okkur krakkana á Beinabakkanum og Hringbrautinni. Þar var allt undir, túnin, fjaran og Snásurnar, Höfðinn, Háhöfðinn og Laugardalurinn,“ segir Einar.

 

Einar gekk í Barnaskóla Húsavík og tók landspróf frá Gagnfræðaskóla Húsavíkur. Hann stundaði nám í Samvinnuskólanum að Bifröst og lauk þaðan prófi 1963 og varð dúx í sínum árgangi. Hann starfaði hjá Hovedstadens Brugsforening í Kaupmannahöfn hálft árið 1964 og stundaði jafnframt nám í Dupontskólanum í auglýsingateiknun og útstillingum. Hann sótti nám í Bankamannaskólanum 1965.

 

Fyrstu störf Einars voru við að stokka og beita línu og sveitastörf á sumrin. „Ég var fjögur sumur í sveit í Skógum í Reykjahverfi hjá frændfólki mínu, Gunnlaugi Sveinbjörnssyni og Guðnýju Árnadóttur. Mér leið vel í Skógum og fékk að taka þátt í öllum verkum eftir minni getu og lærði heilmargt sem hefur komið sér vel síðar á ævinni.“ 

 

Einar vann sem unglingur við síldarsöltun og saltfiskverkun, var verslunarmaður hjá Kaupfélagi Þingeyinga 1961-1963 og hóf störf hjá Samvinnubankanum í Reykjavík 1. september 1964 og var útibússtjóri bankans á Húsavík 1969-1990. Hann var bæjarstjóri á Húsavík 1990-1998, bæjarstjóri í Grindavík 1998-2002 og bæjarstjóri í Árborg 2002-2006. Hann var verkefnisstjóri og síðan sérfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu frá 2006, síðar velferðarráðuneytinu 2011- 2016 er hann lét af störfum vegna aldurs.

 

Einar sinnti margvíslegum nefndar og stjórnarstörfum í tengslum við störf á vegum sveitarfélaga. Hann sat meðal annars í stjórn Kísiliðjunnar hf. 1974-1978, í skólanefnd Húsavíkur 1970-1978, formaður frá 1974. Hann var formaður stjórnar Eyþings – samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum 1992- 1997, sat í stjórn Hafnasambands sveitarfélaga 1997-1998 og í Bláfjallanefnd 1998-2002. Hann var formaður stjórnar Saltfiskseturs Íslands í Grindavík 2001-2002, sat í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga 2002- 2006 og var í Húsafriðunarnefnd ríkisins 2000-2009.

 

Einnig kom Einar að ýmsum nefndarstörfum á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins, síðar velferðarráðuneytis, svo sem vegna yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga og var formaður í verkefnisstjórn um endurmat á yfirfærslu málaflokksins sem lauk með skýrslu í nóvember 2015.

 

Um árabil starfaði Einar með Leikfélagi Húsavíkur (LH), sat í stjórn félagsins og var formaður um tíma. Hann var formaður Bandalags íslenskra leikfélaga 1979-1988, sat í stjórn Norræna áhugaleikhúsráðsins 1980-1990, varaformaður frá 1981. Einar hefur verið virkur félagi í Frímúrarareglunni síðastliðna fjóra áratugi og gegnt þar embætti.

 

Spurður um áhugamál utan félagsmálanna og fjölskyldunnar segir Einar: „Síðan árið 1984 höfum við hjónin farið flest ár í skíðaferðir í Alpana. Ég hef varið frístundum við veiðiskap bæði með stöng og byssu og gengið á fjöll. Eftir göngu á Hvannadalshnjúk árið 2009 með Árnínu dóttur minni og fleiri vinum hef ég verið félagi í gönguhóp á vegum Ferðafélags Íslands sem nú ber nafnið Léttfeti. Svo hef ég alla tíð haft gaman af ljóðum og lausavísum.“

 

Fjölskylda

 

Einar kvæntist Sigurbjörgu Bjarnadóttur bókasafnstækni 16. nóvember 1968. Sigurbjörg fæddist 1.7. 1947 á Hólmavík. Foreldrar hennar voru hjónin Halldóra Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 29.2. 1928, d. 20.12. 2017 og Bjarni Halldórsson vélgæslumaður f. 25.10. 1923, d. 2.6. 1989.

 

Börn Einars og Sigurbjargar eru:

1) Guðný Dóra, sálfræðingur hjá Akureyrarbæ, f. 27.7. 1969, maki: Valdimar Ólafsson vélfræðingur, f. 29.10. 1968. Börn: Sara Agneta, f. 25.9. 2001, og Alexander Máni, f. 28.5. 2004.

2) Árnína Björg, viðskiptafræðingur MS, f. 28.7. 1971. Maki: Sigtryggur Heiðar Dagbjartsson, f. 26.4. 1968, þau skildu. Dóttir þeirra: Sigurbjörg Ýr, f. 14.6. 2001.

3) Kristjana, faraldsfræðingur Ph.D, prófessor við HÍ, f. 15.6. 1977, maki: Anthony S. Gunnell, f. 4.9. 1971, líftæknifræðingur Ph.D. Börn: Lísa Sóley, f. 16.7. 2007, Vala Nicole, f. 26.10. 2009, og Erik Einar, f. 20.11. 2014.

 

Alsystur Einars eru Oddný húsmóðir, f. 28.5. 1943 gift Halldóri Margeirssyni, búsett á Ísafirði, Bjarney Stefanía kennari f. 7.9. 1947, gift Sigurberg Guðjónssyni, búsett í Reykjavík. Hálfsystur samfeðra eru Inga Þórhalla ritari, f. 2.2. 1964, búsett í Reykjavík, og Nína (Árnína Björg) klæðskeri, f. 8.9. 1965, búsett í Reykjavík. Stjúpsystir er Elísa Björg Þorsteinsdóttir listfræðingur, kennari og þýðandi, f. 29.5. 1952, búsett í Reykjavík. Móðir þeirra er seinni kona Njáls, Júlíana Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur fædd í Flatey á Skjálfanda 30.8. 1923, d. 7.4. 2019.

 

Foreldrar Einars voru hjónin Njáll Bergþór Bjarnason kennari, f. 9.11. 1913, d. 2.2. 2003 og Árnína Björg Einarsdóttir húsmóðir, f. 29.6. 1918, d. 4.10. 1959.

 

 Morgunblaðið 15. ágúst 2019.

 

 

 

Næst til vinstri er Einar Guðni Njálsson á fundi í bæjarstjórn Árborgar.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 Skráð af Menningar-Bakki.